Fimmtudagur, 10. september 2009
Veruleikinn drap frjálshyggjuna
Frjálshyggjumönnum hlýtur að líða álíka og sósíalistum eftir innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu 1968. Októberhrunið á Íslandi 2008 drap frjálshyggjuna rétt eins og innrásin 40 árum áður stútaði hugmyndinni um sósíalisma með mannlega ásjónu.
Frjálshyggjan er til í ýmsum útgáfum, rétt eins og sósíalismi. Sameiginlegt flestum frjálshyggjuhugmyndum er að markaðurinn annars vegar og hins vegar einkaframtakið skili mestum efnahagslegum ábata til samfélagsins. Hrunið afhjúpar hvorttveggja sem algjört bull.
Munurinn á stöðunni í dag og eftir Tékkó ´68 er að núna er enginn sjáanleg hugmyndafræði sem getur skorað hrunstefnuna á hólm og tekið við. Hægripólitík tók forræðið á áttunda áratug síðustu aldar og leiddi til vegs Ronald Reagan, Margréti Thatcher og Davíð Oddsson. Í dag er engin pólitík sem gæti orðið leiðarhnoða næstu ára. Júdasarpólitík Þistilfjarðarpiltsins er ekki líkleg til afreka.
Við þessar kringumstæður er sóknarfæri fyrir endurnýjaðan Sjálfstæðisflokk. Og þá er auðvitað að ráða sjónvarpsstjörnu í Valhöll. Hvað jafnast á við hrun með glassúr?
Athugasemdir
Er það ekki leiðarhnoða?
Sorrý! Narðar-eðlið, sjáðu til!
Flosi Kristjánsson, 10.9.2009 kl. 20:13
Takk fyrir leiðréttinguna, Flosi. Ég laga þetta.
Páll Vilhjálmsson, 10.9.2009 kl. 20:20
Páll.
Núna gerðist það, fyrirsögnin er rétt !
Síðasta málsgreinin er líka auðvitað sönn, en er það ekki meira en ,,glassúr" ?
JR (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 20:54
Íslenska módelið, Að skapa sér auð úr engu.
Í USA eru lög sem banna að skapa sér auð úr engu, fyrir nokkru síðan var maður þar í landi dæmdur í fangelsi fyrir okur, dómari útskýrði dóminn, sagði að ef einhver kæmist upp með að skapa sér auð úr engu, vildu sífellt fleiri gera það, þetta myndi síðan virka eins og krabbamein í samfélaginu, og kollsteypa því að lokum. Skoðum nú Íslenska módelið, maður sem ég vil kalla litlu þúfuna sem velti Íslandi, fyrrverandi formaður sjálfstæðisflokksins, bjó til fyrsta alvöru módelið að skapa sér auð úr engu á Íslandi, kom á fiskikvótakerfi, og síðan þvi að hægt væri að veðsetja kvótan, menn fengu kvótann gefins og veðsettu fyrir háum peningaupphæðum, seldu svo kvótann, sá sem keypti yfirtók skuldina sem greiðslu, seljandinn fékk því stóra fjárhæð í vasann fyrir ekkert. þegar menn sáu að þetta var hægt vildu sífellt fleiri gera þessu líkt, og braskið blómstraði, menn fengu orðið undir það síðasta hundruðir milljarða fyrir engin veð. þarna er komið krabbameinið sem dómarinn í USA var að vísa til.
Nú er litla þúfan mætt aftur til leiks, að afreka meiri snilld, verði ykkur að góðu, guð hjálpi ykkur.Robert (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 22:08
Einmitt! Hinn nýi framkv.stj. Sjálstæðisflokks kemur úr ,,fjölmiðla rústum" hins fallna ,,Baugsveldis" samkvæmt þinum skilgreiningum. Það er spurning hvort sömu vinnubrögð verði við höfð á nýja staðnum. Hver verður trúverðugleikinn þar?
Gísli Sváfnisson (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 22:19
Nú er lag fyrir nýja hugmyndafræði til að skjóta rótum,hugmyndafræði sem þarf að grundvallast á sýnileika, en sýnileikinn er grundvöllur heiðarleika og trausts í samfélaginu. Sýnileiki er bara annað nafn á sannleika.
Stjörnvöld og eigendur fyrirtækja og valdafólk vita þetta innst ínni og þess vegna forðast þetta fólk það eins og heitan eldinn að láta sannleikann, hreinan og blákaldan sannleikan, vera grundvöll neins pólitísks, félaglegs og eða efnahagselgs kerfis sem það stendur að eða setur á laggirnar.
Ef við viljum hafa samfélgið "eins og hjá mönnum" þá ættu allir vita hnað allir aðrir hafa, hvða allir aðrir vinna sér inn, hvað allir aðrir borga í kaup og skatta og styrki, hvað öll önnur fyrirtæki setja upp, kaupa og selja, hver kostnaðurin er og hver er ágóðinn og allir skpaðir hlutir . ALLIR SKAPAÐIR HLUTIR.
Kristján Oddsson (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 22:34
Þetta er mikill misskilningur, Páll.
Hvað er frjálshyggja? Frjálshyggja er einföld. Hún byggir á grunnforsendunni um að fólk eigi að hafa frelsi til athafna sem ekki skaða annað fólk.
Frjálshyggja felst ekki í því að menn beri ekki sjálfir ábyrgð á skuldum sínum.
Henni verður ekki kennt um hrunið í efnahagskerfi heimsins. Rót hrunsins má rekja til peningaprentunar seðlabanka víðs vegar um heim, sem leiddi til ofurskuldsetningar almennings. Þegar Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sá fram á niðursveiflu stuttu eftir aldamótin lækkaði hann vexti, þannig að hagkerfinu var ekki leyft að leiðrétta sig - of skuldsettum fyrirtækjum var ekki leyft að fara á hausinn og "ókeypis" peningar flæddu til almennings í formi húsnæðislána.
Þessi inngrip hins opinbera, eða hálf-opinbera (seðlabanki Bandaríkjanna er stofnun bankanna sem starfar í skjóli ríkisins), eru ekki frjálshyggja. Þessi inngrip eru oft rökstudd með svokallaðri keynesískri hagfræði, sem gengur út á að hið opinbera eigi að stjórna efnahagslífinu og koma í veg fyrir eða minnka hagsveiflur. Afleiðingarnar eru þveröfugar; inngripin valda hreinlega hagsveiflunum og skapa þetta harmoníkuefnahagskerfi, sem við þekkjum á Vesturlöndum. Hrunið 2008 er því hrun þessarar keynesísku hugmyndafræði. Hrun hins blandaða hagkerfis.
Ef við lítum sérstaklega til Íslands, er alveg ljóst að meginvandamálið sem fylgir hinni íslensku kreppu, að almenningur er neyddur til að taka á sig skuldir einkabanka, á ekkert skylt við frjálshyggju.
Hrunið á Íslandi varð m.a. vegna þess að bankarnir hér störfuðu í skjóli ríkisábyrgðar (almennt var gert ráð fyrir því að ríkið kæmi bönkunum til hjálpar, lentu þeir í lausafjárvandræðum). Vegna þessarar ábyrgðar fjármögnuðu þeir sig stutt og keyptu langt. Fjármögnuninni þurftu þeir að þess vegna að rúlla á undan sér: endurfjármagna sig með stuttu millibili, í trausti þess að ríkið kæmi til hjálpar ef það mistækist. Eignirnar voru til langs tíma, þ.e. þær voru ekki "liquid" og þeim var ekki hægt að breyta í lausafé. Því fór sem fór þegar þeir bankarnir gátu ekki fjármagnað sig lengur - auðvitað hafði ríkið engin tök á að bjarga þeim.
Þar með hrundi hið risastóra ríkisrekna bankakerfi. Ríkið gerði svo það sem það mátti alls ekki gera; tók yfir skuldbindingar"einkabankanna" í stórum stíl. Þannig er byrðunum velt yfir á skattgreiðendur nútíðar og framtíðar: börnin okkar og barnabörnin, sem komu ekki nálægt þessu á nokkurn hátt.
Það er ekki frjálshyggja.
Ívar (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 09:11
Nákvæmlega Páll, í dag sjá flestir að eyðilegginggarmáttur frjálshyggjunnir er raunar endurtekning á eyðileggingarmætti kommúnismans. Ótrúlegir öfgar í sitt hvora áttina. Frjálshyggjan hefur heilaþvegið Hannes Hólmstein til frambúðar og öllum er sama um það, en hvað með stuttbuxnahjörðina sem elti hann eins og hundar elta húsbændur sína ? Hvað með Gísla Martein og Sigurð Kára, munu þeir þroskast og vakna upp úr frjálshyggjudraumum sínum ? Og já, Jónmundur og Þorgerður Katrín henda reynsluboltum út úr Valhöll og ráða inn ,, poppstjörnur " í þeirra stað. Hvað boðar það, er þetta örvæntingarstefna, eða ?
Stefán (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 09:22
Ívar, athugaðu að þeir sem töluðu fyrir frjálshyggju voru í 99% tilfella ekki að tala um frjálshyggju eins og þú vilt hafa hana.
Þeir voru að tala um þá frjálshyggju sem felst í því að fjármagnseigendur megi gera allt sem þeim sýnist og senda síðan skattgreiðendum reikninginn. Það er sú frjálshyggja sem talað var fyrir frá upphafi og því er gagnrýni beint til hennar. Forkólfar viðskiptalífsins á Íslandi fóru aldrei fram á þá útgáfu sem þú talar um, enda hentar hún þeim ekki.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 12:45
Hárrétt hjá þér, Þorgeir.
Enda voru þeir ekki frjálshyggjumenn, heldur pilsfaldarkapítalistar. Frjálshyggjan er óháð mönnum og ummælum þeirra. Hún er óháð Hannesi Hólmsteini og Milton Friedman og ýmsum ummælum þeirra sem kunna að stangast á við hana.
Við verðum að passa okkur á að rugla ekki saman stefnum og einstaklingum.
Ívar (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 12:59
Ívar, á pappírnum var kommúnisminn ekki eins slæmur og sovétið reyndist. Þasð eru til þúsundir vinstri manna sem segja einsog þú, ef það hefði verið gert öðruvísi t.d. einsog Trotskí vildi hafa það...döh.
Gísli Ingvarsson, 11.9.2009 kl. 13:14
Gísli:
Það er alveg sama hve margir kalla pilsfaldarkapítalisma frjálshyggju - frjálshyggja er ekki pilsfaldarkapítalismi, heldur þvert á móti.
Hér ríkti aldrei frjálshyggja, sbr. það sem ég segi hér að ofan, þótt andstæðingar frjálshyggju hafi gert sitt besta til að telja fólki trú um að svo hafi verið.
Ívar (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 13:48
Ég er svona í stórum dráttum sammála þér Páll.
Kommúnistum sást yfir eitt mjög mikilvægt atriði það er að maðurinn hefur mannlegt eðli og það er ekki hægt að líta á hann sem stjórnlaust verkfæri.
Frjálshyggjuforkólfum var svo um að fella niður öll höft og ríkisafskipti að þeim sást yfir eitt mjög vikilvægt atriðið þ.e. að maðurinn hefur eðli sem heiti græðgi sem nær þvert á allar stjórnmálaskoðanir og pólitík. Græðgi tekur án þess að spyrja. Við erum því miður að klóra okkur í kollinum og sleikja sárin efir að hafa látið frjálshyggjuna gefa græðginni lausan tauminn.
Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 16:54
Nú er illt í efni. Frjálshyggjan dauð, sósíalismi með mannúðlegri ásjónu löngu dauður, sósíalismi með hinni ásjónunni dauður fyrir 20 árum og samvinnustefnan hrokkin uppaf um svipað leyti. Hvað er þá eftir, kratismi?
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.