Þriðjudagur, 26. maí 2009
Ónýt kynslóð stjórnenda, 30 - 60 ára
Heil kynslóð stjórnenda í íslensku atvinnulífi er að stærstum hluta ónýt. Útrásarkynslóðin er á aldrinum 30 - 60 ára og það var hún sem kom þjóðinni á vonarvöl. Aðeins fáeinir af þessari kynslóð eru með óflekkaðar hendur og þá er helst að finna í frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækjum.
Ríkisvaldið, sem núna á flest fyrirtækja landsins, þarf að gera tvennt til að bæta fyrir ónýtu kynslóðina. Í fyrsta lagi að virkja stjórnendur sem eru í nágrenni sjötugs og fá þá til verka við endurreisnina. Í öðru lagi að flytja kunnáttufólk frá opinbera geiranum inn í atvinnulífið.
Loks þarf að stórefla endurmenntunarkerfið til að ónýta kynslóðin geti fengið endurnýjun lífdaga að loknu námi þar sem viðskiptasiðferði er skylduáfangi.
Athugasemdir
Sammála. Það er ansi stór hópur.
Finnur Bárðarson, 26.5.2009 kl. 20:34
....aðeins of djúpt tekið á árinni...þetta fólk er enn verðmætt og sjálfum finnst mér rangt að horfa til þess að útiloka þetta fólk. Stór hluti þessa hóps beindi hreinlega gáfunum eftir leið sem leiddi okkur öll að hyldýpinu. Með því að marka leiðina að nýju með breyttum áherslum getur einmitt þessi hópur tekið þátt í að vinna okkur út úr þessu. Ég tel reyndar mikið um vert að breyta nálguninni í uppgjöri liðinna ára frá því að slá upp gálgum í það að koma hér á legg Sannleiksnefnd í anda þess sem Suður-Afríkumen gerðu. Uppgjör í blóði og fangelsisdómum er ekki leiðin fram á við.
Haraldur Baldursson, 26.5.2009 kl. 20:36
Einhvern vísi að menningarbyltingu. Yngri stjórnendur taki sér reku og pál í hönd og vinni ærlegt handtak.
Sumir þessara stjórnenda vita ekki hvað snýr aftur eða fram á peningaseðli því þeir hafa alla tíð notað greiðslukort og jafnvel aldrei þurft að borga fyrir sig.
Segi nú bara si sona.
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 20:38
Ég er af þessari kynslóð og er með viðskiptamenntun og var í þokkalegu starfi. Ég get staðfest það að megnið af þessu fólki veit ekkert hvað það er að gera og hefur ekkert í stjórnunarstörf að gera aftur. Best væri að virkja þennan mannauð í einhverskonar samfélagsvinnu. Hugsunarhátturinn sem okkur var innrættur í háskólum hér á landi er erfitt að taka til baka. Markmiðið er að græða sem mest án þess að það skipti máli hver treðst undir. Ég er hræddur um að megnið af fólkinu sem er var að útskrifast á bilinu 2000 til 2006 sé í raun ónýtt og eigi ekki að koma nálægt fjámálafyrirtækjum eða tengdri starfsemi aftur.
Gunnar Arnarsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 21:05
það er mikið til í þessu Páll.
Tími æskudýrkunar er líklega liðinn, í bili.
Það voru stundum furðulegar fréttirnar úr bankageiranum undanfarin ár, þegar fólki yfir fimmtugu vara bara sagt upp og krakkar ráðnir í þeirra stað.
Vonandi lærist okkur að nýta styrk og reynslu allra aldurshópa hér eftir.
Páll Blöndal, 26.5.2009 kl. 22:23
Athyglisverð nálgun hjá Páli. Vil þó benda á að þúsundir manna á aldrinum 30-60 hafa góða menntun sem nýtast myndi vel í atvinnurekstri, en komu þó hvergi nærri útrásarbröltinu. Vil líka benda á annað: brennt barn forðast eldinn.
Baldur Hermannsson, 26.5.2009 kl. 22:40
Er þetta nú ekki fullmikill einföldun að stimpla heila kynslóð sem ónýta aðeins vegna þess að hún er á sama aldri og svonefndir útrásarvíkingar?
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 23:23
Páll ég hélt að Össur væri einn fárra sem bloggaði á nóttunni.
Sigurður Þorsteinsson, 26.5.2009 kl. 23:27
Þetta er alþekkt vandamál. Hér í Bandaríkjunum hafa menn brugðist við með að koma á fót stofnun sem nefnist SCORE og er hluti af Small Business Administration SBA. Meðlimir SCORE eru eldri ´uppgjafa´ viðskiptajörvar, með víðtæka reynslu um hverskonar viðskipti,stofnun og rekstur fyrirtækja á alheimsvísu. Fyrirtæki sem njóta aðstoðar þessara heiðursmanna og kvenna standa sig mun betur í öldugangi lífsins en önnur fyrirtæki. Aðstoðin er ókeypis. Það eru allar upplýsingar að finna á netinu um þessa starfsemi. Ég gæti trúað að islendingar gætu nýtt sér þetta, Eg mun með glöðu geði aðstoða, hafi menn áhuga. Netfang bjorn@clearwire.net
Björn Emilsson, 27.5.2009 kl. 05:06
Stór orð Páll. Líklegt að stjórnendur og stjórnmálamenn þessarar kynslóðar séu stórlega skaðaðir, þó ekki vilji ég nota orðið "ónýtir".
Tel að það verði ekki (aldrei) hægt að byggja upp traust né trúnað, nema með öflugu, skilvirku eftirlitskerfi, gegnsæi og dreifingu valds (þráseta valds bönnuð lengur en 8 ár)
Veit að þetta eru fín orð og duga skammt ef hugur fylgir ekki máli. Tel samt að skortur á öllu þrennu ofangreindu sé megin ástæða fyrir hörmungum þeim sem þessi kynslóð ásamt eftirlifendum og uppalendum, upplifa nú árið 2009.
Viðskiptasiðferði, eða siðferði almennt er varla kennt né numið, það ER eða er ekki. Spurning um lífsgildi fólks og þann "ramma" sem samfélagið sættist á að sé ásættanlegur til þess að stuðla að réttlátu og sanngjörnum lífskjörum þjóðfélagsþegnanna allra.
Með innilegri von um betri tíð .......
Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.5.2009 kl. 05:49
Vek athygli á því sem GUNNAR segir hér að ofan. Stórmerkilegt að lesa þetta.
Það sama á við um drjúgan hluta þeirra manna og kvenna sem eru í stjórnmálum hér á landi. Nýja fólkið breytir þar litlu, flest þetta fólk hefur aldrei unnið heiðarlega vinnu og tilheyrir pólitískri elítu sem hefur tryggt þessu fólki störf og áhrif innan flokka og hjá hinu opinbera.
Við þurfum alvöru stjórnmálamenn, fólk sem er í tengslum við lífið í landinu.
Það er hneyksli að á þingi skuli sitja fólk sem þáði styrki frá fyrirtækjum auðmanna. Það er algjört hneyksli að fólk sem þáði peninga af glæpamönnum sitji í ríkisstjórn Íslands. Það er engu að síður staðreynd. Þ
þar bera mesta ábyrgð kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.
Ábending Páls er rétt, en þetta á líka við um stjórnmálamennina. Kerfið allt þarf að hreinsa út og ágætt væri að byrja á því að koma út þingmönnum og ráðherrum sem þáðu peninga af glæpalýðnum sem sett hefur Ísland á hausinn.
Karl (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 09:11
Karl, mér dettur í hug sú hugmynd Rússa í stríðslok að drepa hvern einasta karlmann í Þýskalandi, gamla, unga og nýfædda. Þar fór fremstur í flokki kommúniskur rithöfundur sem var mikill vinur Halldórs Laxness - Ilja Ehrenburg minnir mig hann héti.
Baldur Hermannsson, 27.5.2009 kl. 09:25
Hef verið að velta fyrir mér málinu undanfarið, á nokkuð svipuðum nótum. Fjármála- og útrásarkerfið var yfirfullt af hámenntuðu fólki, t.d. viðskiptafræðingum, hagfræðingum, viðskiptaverkfræðingum, lögfræðingum, endurskoðendum o.sfrv. Í bankana var sogað allt menntaðasta fólkið frá Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og fleiri aðilum og greitt hátt kaup.
Hvernig gat allt þetta menntafólk stýrt fjármála- og viðskiptalífinu í þetta risavaxna gjaldþrot?
Axel Jóhann Axelsson, 27.5.2009 kl. 09:54
Axel, ég gæti best trúað því að Gunnar Arnarsson hitti naglann á höfuðið í sinni athugasemd. Þetta snýst allt um innrætingu og hugarfar.
Baldur Hermannsson, 27.5.2009 kl. 10:04
Er mjög á því að Gunnar hafi algjörlega rétt fyrir sér, en það sem er kannski meira áhyggjuefni nú, er að ég held ekki að það sé neitt að breytast sú hugsun og rökfræði sem notast var við á þessum árum sem um ræðir.
Þarf ekki háskólasamfélagið að taka sig til gagngerar endurskoðunnar? Ég hef bent á það t.d varðandi kennslu í læknadeild svo og hjukrunar og ljósmæðradeild að þar vantar eitthvað mikið upp á að hlutirnir séu í lagi.
Ég tel það nefnilega alveg óhæfa kennslu þegar nýútskrifað fólk með mikil fræði í kollinum þora svo ekki að starfa nema við hátæknisjúkrahús. Því er hreinlega ekki kennt að bjarga sér hér á landi og við þær aðstæður sem landsbyggðar fólk býr við, í það minnsta eru menn ekki að átta sig á því að stór hluti þjóðarinnar býr ekki í næsta nágrenni við slíka hátækni.
Og ef svo heldur áfram stendur landsbyggðin uppi læknislaus, því þar hef ég trú á að meðalaldur fari hratt vaxandi meðal þeirra sem hafa þar fasta búsetu og starfa.
(IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 10:52
Þvílík dómsdags þvæla!
Flesta kynslóðir þessa lands hafa gengið í gegnum hremmingartíma. Ef við gefum okkur það að þú hafir rétt fyrir þér, þá þarftu að færa aldursviðmiðið niður á við, í 25 eða jafnvel 20. Stór hluti þess aldurs hóps tók annaðhvort þátt eða var að mennta sig til að taka þátt skv. þinni skilgreiningu. Eldri stjórnendur (á aldrinum 50-70 ára lifðu og hrærðust í gamla flokkspólitíska fyrirgreiðslufyrirkomulaginu, og ef það er á leiðinni aftur það hafa þessi menn og konur sannanlega haldgóða reynslu sem kynslóð.
Ég tel að tími rekstrar þenkjandi stjórnenda sé loks komin aftur, tími braskaranna er liðinn í bili, kynslóðin þín skilgreinir ekki hvoru megin girðingar þú fellur, það gerir þú sjálfur.
Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 11:01
Konum, sem búnar voru að starfa í Íslandsbanka áratugum saman, var sagt upp störfum fyrir nokkrum árum. Yfirmaðurinn sagði í partýi frá því að það þyrfti að ráða yngra fólk í staðinn. Eldra fólkið kynni að þjónusta en það þyrfti yngra fólk til að selja! Þjónusta skilaði ekki arði!
Rósa (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 11:03
Góð saga Rósa - og vafalaust sönn.
Baldur Hermannsson, 27.5.2009 kl. 11:05
Núna finnst mér þú vera kominn dálítið út í móa.
Þó að handfylli manna (þessir umtöluðu 30) hafi spilað rassinn úr buxum þjóðarinnar er ekki þar með sagt að allir stjórnendur ca. 2ja kynslóða aðhyllist þeirra sjónarmið. Það að hafa starfað í því umhverfi sem var er ekki það sama og að hafa tileinkað sér þankaganginn eða hugmyndafræðina. Ég held að það gagnstæða sé nær lagi. Líklegt er að þeir stjórnendur sem hafa verið í framlínunni, og eru þar enn, á meðan á blússinu stóð hafi séð afleiðingarnar og séu mögulega hæfari stjórnendur fyrir vikið.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 27.5.2009 kl. 13:24
Vandinn er ekki skortur á stjórnendum, af þeim er nóg , og kannske allt of margir. Það sem vantar eru leiðtogar.
Björn Emilsson, 27.5.2009 kl. 14:03
Það vantar ekki leiðtoga, þvert á móti vantar maura, sem þó hugsa ekki eins og maurar.
ragnar (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 17:29
Háskólinn, viðskiptadeildir og aðrar deildir, kenna ekki gagnrýna hugsun, heldur er þetta einhvers konar "follow the leader" leikur, frá prófi til prófs, einni ritgerð til annarrar. Það er ekki fyrr en háskólanám er löngu afstaðið, sem gagnrýnin hugsun fer aftur að láta á sér kræla.
Í hverju fólust styrkir Kaupþings við Viðskiptadeild HÍ?
ragnar (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 17:33
Tek undir þessi orð hjá þér Páll. Það þarf að láta mikið af þessu liði byrja aftur á botninum - Vandamáli er að þetta fólk er í svo mikilli afneitun að líklegast er einfaldast að skipta því alveg út!
Kjartan Pétur Sigurðsson, 27.5.2009 kl. 18:12
Þetta á örugglega vel við marga blaðamenn sem sváfu á verðinum og spiluðu með en ég nefni eingin nöfn...
Res (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 21:10
Gaman að pistlunum þínum Páll - þó ég sé ekki sammála öllu. Ég er þér sammála um að viðskiptasiðfræði og almenn siðfræði (og heimspeki/gagnrýnin hugsun) eigi að vera skyldunámsáfangi. Þar sem ég stunda núna meistaranám í viðskiptasiðfræði í HÍ þá hlakka ég sérstaklega til að takast á við öll verkefnin sem bíða. Það er slæmt þegar þjóð vanmetur einstaklinga með reynslu og fellur í æskudýrkun. Við erum jú öll blaut á bak við eyrun þegar við erum ung. Nú er tækifæri til að snúa við blaðinu og hefja til vegs og virðingar gömul og góð gildi.
Guðrún Árnadóttir (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.