Ríkisvæðingin, Marx og markaðurinn

Karl Marx dásamaði markaðinn fyrir kraft umsköpunar, þar sem kapítalisminn umturnaði lénsskipulaginu og stéttskiptu samfélagi gildanna. Þótt ekki verði sagt að við stöndum á viðlíka tímamótum og við upphaf iðnbyltingar erum við engu að síður á vegamótum.

Markaðurinn hér heima, í merkingunni íslenskt viðskiptalíf, sundraði sjálfum sér í græðgisorgíu. Það er bláköld staðreynd. Þegar fallnir kaupahéðnar snökta í fjölmiðlum um ríkisvæðingu eru þeir í bernskri afneitun ofdekraða smádrengsins sem tæmdi sælgætiskrukkuna en ásakar aðra um að fylla hana ekki nógu hratt.

Ríkið eignast rekstur vítt og breitt. Það sem ríkið þarf að gera strax er að skilgreina hvaða rekstur er mikilvægur í þjóðhagslegu tilliti, s.s. fjármálaþjónusta og flugsamgöngur, og aukageta þar sem litlu breytir hver reki s.s. bókabúðir, bílaumboð og þess háttar. Aukagetuna á að setja í gjaldþrot og selja hæstbjóðanda þrotabúið. Bull um að verðmæti fari forgörðum þegar aukagetan er sett í þrot á ekki að hlusta á. Hver sem er getur rekið bókabúð og bílaumboð og engu breytir hvort fleiri eða færri eru um hituna þar sem tiltölulega einfalt er að koma á virkri samkeppni á þessum markaði.

Þjóðhagslega mikilvæga starfsemi á ríkið að eiga þangað til að markaðurinn er aftur fullveðja.

Ef skynsamlega er að verki staðið mun úr rústunum vaxa heilbrigt atvinnulíf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju talar fólk ekki um þjóðnýtingu

"Ríksvæðing" var búið til af einhverjum fréttamanni með lélegan orðaforða. 

Orðið þjóðnýting hefur lengi verið til í málinu en allt of lítið beitt en það er önnur saga.

Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 16:58

2 Smámynd: Baldur Hermannsson

Það er gaman að setja þessa hluti í stærra samhengi. Hugsum ekki í áratugum eða öldum, heldur þúsöldum. Kommúnisminn er hruninn - en hver segir að kapítalisminn muni lifa lengi úr þessu? Vill mannkynið raunverulega búa við sjúklega græðgisvæðingu og risabólur sem springa framan í menn þegar minnst varir? Kannski er kominn tími til að hugsa allt dæmið upp á nýtt og leggja drög að algerlega nýjum hugmyndum.

Baldur Hermannsson, 19.5.2009 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband