Föstudagur, 15. maí 2009
Vinstri græn uppgjöf
Andstæðingar og aðildarsinnar Íslands að Evrópusambandinu eru sammála um eitt; að innganga Íslands myndi hafa verulegar breytingar í för með sér. Andstæðingar telja fullveldinu hætta búin og að margt fari á verri veg ef svo óheppilega vildi til að við færum inni. Aðildarsinnar tóna sjónarmið um að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Sambandsins en utan.
Andstæðingar inngöngu hafa gerólíkt mat á sögu Íslands, stöðu landsins og framtíðarhorfum en aðildarsinnar hafa. Þess vegna er spurningin um inngöngu grundvallarmál í pólitík sem engin málamiðlun er til um; annað hvort er maður andvígur inngöngu eða hlynntur.
Sumir reyna að tefla fram þeirri málamiðlun að við eigum að gera samning til að sjá hvað okkur býðst. Þessi nálgun er sérstaklega óevrópsk og í hrópandi andstöðu við umræðu annarra þjóða sem hafa velt fyrir sér inngöngu. Aðrar þjóðir spyrja hvort þær eigi heima í Evrópusambandinu út frá heildstæðu mati á stöðu sinni gagnvart Sambandinu og hvernig Evrópusamruninn blasir við séð frá bæjarhól viðkomandi þjóðar. Vitanlega koma við sögu efnahagslegir hagsmunir en þeir eru ekki í forgrunni.
Vinstri grænir samþykktu af valdapólitískum ástæðum að taka þátt í að sækja um inngöngu, til að komast í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Undir engum kringumstæðum er þetta málamiðlun. Vinstri grænir gáfust einfaldlega upp á meginsjónarmiðum sínum og seldu sannfæringu sína fyrir þátttöku í valdstjórninni.
Stjórnmálaflokkur sem selur sannfæringu sína er einskins nýtur.
Athugasemdir
Ég held að vandi fólks eins og Páls Vilhjálmssonar sé kannski fyrst og fremst það að hann er er haldinn einhvers konar þráhyggju, eða ofsóknarbrjálæði. Þetta snýst ekkert um sögu Íslands eða fullveldi, því að sú sögumynd sem hann hefur tileinkað sér snýst ekkert um sögu Íslands -- heldur hvernig hann ímyndar sér hana -- og fullveldi er nokkuð sem er mjög óljóst og sveigjanlegt í raun. En í huga hans hefur læst sú hugmynd að ef -- eða kannski þegar -- Ísland gengur í ESB þá hrynji heimurinn, þrátt fyrir það að hann vinnur á daginn í stofnun sem gerir lítið annað en að mæla með samstarfi við ESB. Því reynir hann að hengja mann og annan fyrir að svíkja málstaðinn á kvöldin þegar hann snýr heim -- ásakar þá um svik og pretti -- en heldur áfram að auglýsa evrópska styrki á daginn (um leið og hann ásakar þá sem þiggja þá um að vera á mála hjá ESB á kvöldin þegar hann byrjar að blogga). En svona er líf þeirra sem sjá heiminn í svart-hvítu -- við erum annaðhvort hlynnt eða andvíg og þeir sem eru hlynntir eru svikarar en hinir eru englar.
Guðmundur (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 00:05
Samskipti við ESB, hvort heldur styrkir eða annað, eru tæplega það sama og innganga í Evrópusambandið.
Páll Vilhjálmsson, 16.5.2009 kl. 00:10
Flott grein hjá þér Páll.
Haltu áfram með hárbeitta pistla þína og láttu ekki svona ómálefnalega gagnrýni slá þig útaf laginu.
Sjálfur ligg ég oft undir ámæli líka vegna þess að ég bý núna í ESB landinu Spáni og að mati sumra má ég þá ekkert vera á móti ESB og heldur ekki hafa þá skoðun að hagsmunum Íslands sé miklu betur borgið utan Bandalagsins.
Ég blæs á svona gagnrýni og segi oft að fólki væri hollara að hlusta á þá sem hafa búið undir ESB og heyra hvað þeir hafa að segja.
Málið er að því meira sem ég kynni mér ESB innan frá því vænna þykir mér um Ísland og því meiri andstyggð fæ ég á þessu miðstýrða og ólýðræðislega spillingarapparati skriffinnanna, sem engu skilar
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 01:06
Það er varla hægt að segja að VG hafi selt sig fyrir valdastóla. Samfylkingin átti engan trúverðugan valkost um stjórnarmyndun.
Steingrímur var í mjög sterkri stöðu til þess að krefjast tvöfaldrar atkvæðagreiðslu.
Réttara er að segja að flokkurinn hafi ekki nennt að berjast fyrir stefnumálinu.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 01:11
Athyglisvert þetta innlegg frá Hans.
Jón Valur Jensson, 16.5.2009 kl. 03:51
Já, þið segið nokkuð. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og byggt hana á samtölum við menn innanbúðar í Vg, að Samfylkingin hafi stillt Vg upp við vegg í ESB-málinu. Af hálfu Vg leiddi Ögmundur undanhaldið en Steingrímur J. fylgdi í humátt eftir.
Það sem kemur mér helst á óvart er að þroskaðir stjórnmálamenn eins og þeir tveir ofannefndu átti sig ekki á þeim skaða sem þeir valda flokknum með því að selja meginprinsippin.
Ekkert sem Vg gerir í ríkisstjórn réttlætir það að fórna fullveldinu. Ekkert verk þessarar ríkisstjórnar verður afdrifaríkara fyrir framtíð Íslands en afstaðan sem tekin verður í Evrópusambandsinngöngu.
Og það er hárrétt hjá Hans að Samfylkingin hafði engan trúverðugan valkost.
Maður klórar sér í kollinum.
Páll Vilhjálmsson, 16.5.2009 kl. 09:46
Nei, þetta er ekki svona svart og hvítt. Mundu að Ísland er nú þegar auka-aðili af ESB og erum hugsanlega meira í ESB en t.d. Bretar og kannski meira aðlagaðir stofnunum ESB en mörg nýrri aðildaríkin. Heildarhagsmuna matið sem þú talar um fór fram fyrir um 40 árum síðan með EFTA og staðfest fest í sessi með EES fyrir um 20 árum síðan. ESB er því engin vendipunktur, vötnin byrjuðu að falla til Dýrafjarðar fyrir löngu síðan.
ESB er því rökrétt áframhald á stefnu sem unnið hefur verið eftir í langan tíma, þarna er engin bylting bara eðlileg þróun. Frá EES hvað er ósamið um 4 kaflar af 35 aðildaratriðum.
Það þarf kannski að rukka þig um er þín framtíðarsýn fyrir Ísland fyrst sú sem fylgd hefur verið frá byrjun sjöunda áratugs síðustualdar er svona vitlaus. Eigum við að elta menninna sem yfirgáfur okkur, reyna að sleikja okkur upp við kanann aftur? Taka Kúbu á þetta? Og vera upp á náð og miskun vinveitts olíuríkis og einn best borguðu störfin eru í ferðamannaþjónustu eins og vændi?
Fyrst íslensk samráðs pólitík fær þig til að klóra þér í kollinum þá hlýturðu að hafa betri hugmynd?
Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 10:49
Ég tek undir það með mönnum hér að þú, Páll, er með þráhyggju gagnvart ESB málum og nærð aldrei að fá neina heildarsýn- og vilt um leið að almenningurinn fái ekki heldur þessa heildarsýn sem aðeins fæst að afloknum aðildarviðræðum.
Helstu þráhyggjur þínar: Baugur og þeirra slekti, Fréttablaðið, Samfylkingin og ESB. Fleiri má nefna en látum þessar duga.
Það væri mun áhugaverðara ef þú létir eitt yfir alla ganga og veittist að Morgunblaðinu vegna ritskoðunnar, Sjálfstæðisflokknum vegna spillingar o.s.frv.
En Páll velur sér andstæðinga út frá fyrirframákveðnum pólitískum línum og það gerir málflutning hans broslegan.
Ég hló mikið þegar Páli var boðið í Silfrið um daginn og dæsti og fussaði yfir þeirri staðreynd að meirhluti þjóðarinna skv. könnunum vill fara í aðildarviðræður við ESB.
Síðan reynir hann að hrauna yfir V.G. fyrir að fara að vilja þjóðarinnar og auka þar með mátt fólksins og rétta þannig við ömurlegan lýðræðishalla.
Páll, það er eitt að philosófera um réttmæti Íslands í ESB en það er allt önnur ella að velta fyrir sér réttmæti þess að almenningur á Íslandi, kjósendur, fái að hafa áhrif á það með því að kjósa um það sjálfir.
Það er aðalatriðið og þó að sumir líkt og Páll treysti ekki þjóðinni fyrir slíku stórmáli þá er það ekki vandamál þjóðarinnar heldur prívat vandamáls Páls og hroka hans.
Friðrik (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 12:38
Þegar dulnefndir menn skrifa í fyrstu persónu eintölu álit á nafngreindum mönnum eru þeir í stöðu geldingsins sem reynir að gera konu gagn. Alveg sama hvað þeir hamast girðir náttúrulegt hugleysi þeirra fyrir að það verði barn í brók.
Páll Vilhjálmsson, 16.5.2009 kl. 12:50
Eru VG kannski tilbúnir að fara og sameina flokk sinn í eina sæng við Samfylkingu, Steingrímur ætlar sér að komast undan því að taka afstöðu í ESB málinu og vera stikkfrí, og láta stjórnarandstöðuna sjá um málið, og þegar fram í sækir mun hann yppa öxlum og segja, við sátum hjá í þessu máli, ömurleg niðurstaða hjá Steingrím, segir eitt gerir annað.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 16.5.2009 kl. 12:56
Gallinn við aðildarsinna er sá, að þeir virðast ekki lesa sína helstu leiðtoga. Í grein í Fréttablaðinu í morgun (laugardaginn 16. maí) er viðtal við Auðunn Arnórsson, höfund nýrrar bókar um aðildarviðræður. Þar segir hann að af 35 köflum sem semja þarf um, er ósamið um 15. Þar af eru 6 erfiðir kaflar sem innihalda meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, ásamt efnahags- og myntbandalagi. 9 kaflar segir hann vera miðlungserfiða, þar á meðal matvælaöryggi, orku- og umhverfismál, ásamt félags- og atvinnumálum svo eitthvað sé nefnt. Í sama blaði fyrir tæpum hálfum mánuði var grein eftir Eirík Bergmann um aðildarumsókn. Þar segir að það sé ekkert á borðinu að byrja á því að fara og spjalla um skilmála, þú sækir um, og svo er rætt um skilmálana. Þetta er ég ekki viss um að margir þeir sem vilja "sjá hvað við fáum" átti sig á.
Mikið er talað um aðild að ESB OG upptöku evru. Þarna er alls ekki samasem merki á milli. Það munu þurfa að líða minnst tvö ár frá því að formlega er gengið í sambandið þar til að í fyrsta lagi er hægt að taka upp evru. Og þá að uppfylltum Maastricht skilyrðum. Hann var aumkvunarverður málflutningur forsætisráðherra í Kastljósi í vikunni þegar hagfræðingar bentu á að það tæki okkur 30 ár að uppfylla Maastricht skilyrðin. Hún hljómaði eins og lítill krakki þegar hún fullyrti: við munum uppfylla skilyrðin. Hún ætti kannski að upplýsa þjóð sína hvernig í ósköpunum hún ætlar að fara að því.
Sigríður Jósefsdóttir, 16.5.2009 kl. 14:26
Steingrímur J. hefur opinberað getuleysi sitt í stjórnmálum. Ekki bjóst ég við að Steingrímur lægi kylliflatur fyrir Sandfylkingunni í ESB-málinu, eftir hástefndar yfirlýsingar um ESB-andstöðu sína, en svona fer þegar ráðherrastólar villa mönnum sýn.
Mest er ég þó hissa á Borgarahreyfingunni, "lýðræðisfylkingunni", þeir byrja þingmennsku sína á að svíkja gefin loforð um að þjóðin eigi að fá að segja sitt í öllum málum.
Tómas Ibsen Halldórsson, 16.5.2009 kl. 14:29
Tvennt við þessa umræðu kemur aldrei fram:
1. Það er látið í veðri vaka að aðrar Evrópuþjóðir geti varla beðið eftir því að við göngum í ESB. Er þeim ekki bara slétt sama hvort við göngum inn eða ekki.
2. Það er eins og við fáum eitthvað að velja það sem okkur líkar og skilja hitt eftir ef farið verður út í umsókn. Verður þetta ekki bara ein stór skítasamloka sem við verðum öll að kingja í heilu lagi?
Steinarr Kr. , 16.5.2009 kl. 15:53
Flott innleggið hér frá þeim vel gefna Vestfirðingi Sigríði Jósefsdóttur.
Páll, það er einfaldast að útiloka nafnleysingja frá umræðunni. Það er heldur ekki sanngjarnt, að EB-dindlar geti fengið að spilla fyrir sjálfstæði landsins með skotgrafahernaði undir ýmsum dulnefnum, eins og til að láta líta svo út sem þeir séu svo fjölmennir. Í reynd er þjóðin ekki áköf í EB-áttina í þessu máli, það sást á viðhorfskönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem birt var á bls. 4 í Fréttablaðinu 24. maí: Jafnvel í Reykjavík norður, þar sem Samfylkingin naut 33% stuðnings, kom áberandi áhugaleysi kjósenda á Evrópubandalaginu glöggt í ljós (og var í takt við aðrar slíkar úr öðrum kjördæmum, sem hafa birtust í blaðinu). Svarendur gáfu þar málefnum einkunn í "mikilvægisröð", og hvar kemur EB fram á þeim lista? Jú, í 6. sæti, en röðin er þannig: 1) efnahagsmál, 2) velferðarmál, 3) menntamál, 4) skattamál, 5) fiskveiðimál, 6) Evrópumál, 7) samgöngumál. – Sjáið t.d. þetta síðasta: Fiskveiðimál eru mikilvægari en Evrópumál.
Magnús Bjarnason fer hér með fleipur og fals, þegar hann sagði t.d.: "Frá EES hvað er ósamið um 4 kaflar af 35 aðildaratriðum," og lét eins og við höfum þar með tekið við megninu af lagagerðum Evrópubandalagsins – sem er alrangt, því að eins og segir í ritinu Tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Skýrsla Evrópunefndar, Rv. 2007, s. 56: "langstærstur hluti þeirra gerða sem samþykktar eru af ESB varða framkvæmd sameiginlegrar sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu þess, auk þess sem fjöldi gerða er samþykktur á ári hverju um framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu ESB, þ.m.t. tollamál." – En eins og allir eiga að vita, höfum við EKKI meðtekið sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu Evrópubandalagsins.
Jón Valur Jensson, 16.5.2009 kl. 16:59
Takk fyrir góðan pistil Páll
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 16.5.2009 kl. 17:44
Hvaða fullveldi er alltaf verið að tala um? Ekki held ég að Danir, Bretar, Svíjar eða Finnar hafi taðpað miklu fullveldi, þetta eru enn sömu löndin og sömu Danirnir, Bretarnir, Svíjarnir og Finnarnir. Ef þú ert að meina að pólitíkusar geti ekki lengur hyglað vinum sínum að það sé að missa fullveldi, þá er jú eitthvað til í því, en ég sakna þess ekki fyrir fimm aura. Ég tel það kærkomið að losa okkur þessa þjóð undan misvitru pólitíkusunum sem hygla vinum sínum eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert hingað til.
Valsól (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 19:26
Það er nú ekki svo, "Valsól", að Evrópubandalags-pólitíkusar hafi ekki getað hyglað vinum sínum, því að meira en nóg hefur verið af slíkri spillingu í þessu bandalagi (EB), m.a. í forsetatíð Romanos Prodi í framkvæmdastjórninni, en hann tók þó við eftir svo mikið spillingar- og vinavæðingar-hneyksli, að sjálft Evrópuþingið setti af alla framkvæmdastjórnina (árið 1999) vegna þeirrar spillingar (sbr. hér). Þótt ýsmir í framkvæmdastjórninni yrðu svo skiaðir í hana aftur, breytir það ekki því, að þetta er fyllilega á við mestu hneyksli hérlendis.
Við höfnum ekki stjórnskipan okkar og þjóðréttarlega sterkri stöðu lýðveldisins vegna misnotkunar einhverra manna á valdi sínu og leggjumst ekki marflöt þess vegna undir erlent vald, sem einnig er spillingu og öðrum freistingum undirorpið, heldur tugtum við hina brotlegu til, kjósum þá ekki aftur til trúaðarstarfa og bætum bæði stjórnsýslu okkar og siðferði stjórnmálanna. Í á átt hefur viðleitni okkar einmitt stefnt síðustu mánuðina.
Ekki gefast upp, Íslendingar! – Aldrei að víkja!
Jón Valur Jensson, 16.5.2009 kl. 20:47
Páll, það er langur vegur frá aðildarumsókn að aðild. Það er rétt að fara og sækja um því annars verður endalaust rifist um þetta. Ég vil sjá hvað gæti komið út úr slíkum samningi áður en ég ákveð mig. Held að svo sé um flesta.
Allavega verðum við að byggja upp nýtt þjóðfélag með lægri vöxtum, almennilegri mynt og lægra matarverði. Eins þarf fólk að hafa efni á því að reka heimili en það er varla hægt fyrir marga í dag. Það er ömurlegt ástand í landinu og ef aðild að ESB getur breytt lífsgæðum okkar til hins betra þá segi ég já!
Unga fólkið okkar fer úr landi ef ástandið lagast ekki. Einfalt.
Ína (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 22:47
Við verðum að skoða innlegg eins og þetta frá Ínu af fullri samúð.
Samt er ekkert hægt að semja við Evrópubandalagið um lægra matarverð hér á landi. Bandalagið gerir ekki út flutningaskip með sérfargjöldum, rekur ekki matvælakeðjur og stundar ekki útflutning á matvælum. Það lækkar ekki verð á íslenzkum landbúnaðarvörum, þvert á móti hækkar það verðið á þeim með því að banna jafnháar beingreiðslur til framleiðenda eins og þær, sem við höfum ástundað. Niðurgreiðslurnar, sem það gæfi landinu, væru líka ævinlega einungis hluti af því árgjaldi, sem við yrðum að borga bandalaginu, og á móti þeim niðurgreiðslum yrðum við að borga meira í viðbót úr eigin vasa, eins og fram kemur í skýrslu Evrópunefndar, Tengsl Íslands og Evrópusambandsins, Rvík, marz 2007, s. 106:
"ESB greiðir nú um 40% af heildarstuðningi við finnskan landbúnað," afganginn borgar finnska ríkið, og af styrkjum til harðbýlla svæða (Least Favoured Area, LFA) "greiðir ESB um 30% þeirra" í Finnlandi, en finnsk yfirvöld 70%.
Látum þvi engan gylla þetta fyrir okkur, Ína. Flutningsgjöld og smár markaður hér á landi eiga stóran þátt í hærra verðlagi hér en víða í Evrópu, en þar að auki er rangt að miða matvælaverð hjá okkur við meðalverð í Evrópu; réttara er að miða það við matvælaverð í NV-hluta álfunnar: t.d. í Bretlandi, Hollandi, Þýzkalandi og á Norðurlöndunum, og þá kemur þetta ekkert svo hrikalega út hjá okkur, þegar tillit hefur verið tekið til langra og dýrkeyptra aðflutningsleiða og smæðar markaðarins.
Jón Valur Jensson, 16.5.2009 kl. 23:20
Páll
Það er almennt talið betra að sárna sannleikurinn en að hugga sig við lygina, líkt og þú gerir.
Svo við höldum áfram með málefnalegu samlíkingu þína um geldinga og að gera gagn...
Þá vilt Þú "gelda" lýðræðið með því að heimila ekki almenningi að koma beint að ESB málunum.
Hvað óttastu svona mikið? Að fólki gæti hreinlega líkað niðurstaðan...að hún gæti gagnast fólki og það kosið ESB aðild og geldingarnir (hinn þögli nafnlausi meirihluti) þannig barnað martröð þína :)
Það er ekki hægt að taka þig alvarlega þegar þú vilt útiloka áður óþekktar stærðir vegna fordóma og hroka og svipta þjóðina lýðræðislegum rétti sínum til að ákveða örlög sín.
Það er gamla Ísland; Ísland Sjálftökuflokksins og Davíðstímans. Sá tími er liðinn, sem betur fer, og kemur ekki aftur.
Íslandingar eru vaknaðir og sofna ekki aftur á verðinum gagnvart spilltum pólitíkusum og leigupennum Íhaldsins. Þeir skáru undan sér með aðferðafræði sinni, settu okkur á hausinn áður og þjóðin mun bylta þeim aftur ef nauðsyn krefur.
Power to the people
Friðrik (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 00:50
Steingrímur J. hefur farið undan á miklum flæmingi undanfarið. Fyrst er haldinn landsfundur VG, rétt fyrir kosningar. Þar er samþykkt einum rómi að vera á móti aðild að ESB í hvaða formi sem það er. Með þessi rök er farið í kosningabaráttuna. Þessi stefna skilaði VG miklu fylgi.
Að loknum kosningum er allt í einu breytt um kúrs. Steingrímur fer að höfða til þess að hver og einn eigi að kjósa eftir sinni samvisku. Þetta er ódýr flóttaleið. Þingmenn VG eiga að fylgja þeirri stefnu sem þeir lofuðu kjósendum sínum að fylgja kæmist VG í ríkisstjórn. Þetta tal um að hver og einn eigi að kjósa út frá samvisku sinni er bara rugl. Samviska fólksins sem lét kjósa sig og var lofað fyrir kosningar var sú að vera alfarið á móti. Stefnubreyting nokkrum dögum eftir kosningar eru bara svik við kjósendur og ekkert annað.
Ef þetta er línan sem er verið að gefa kjósendum VG, þá eru líkur á að það verði margir farnir að glamra í potta og pönnur í haust, og það verður ekki í takt við tónlistarstjórn Harðar Torfa í þetta skiptið.
joi (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 01:09
Því miðu áttuðu sig of fáir á því í nýafstöðnum kostningum að Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem er treystandi til að verja áframhaldandi sjálfstæði landsins.
Palli (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 07:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.