Fimmtudagur, 7. maí 2009
ESB-hneigð fjölmiðla
Ritstjórnir hugsa í fréttum og frekar einföldum fréttum en flóknum. Þróun, ferli og hægfara breytingar eiga ekki upp á pallborðið hjá blaðamönnum. Mælanleg atriði eins og sigur eða ósigur, aðildarumsókn eða ekki, prósentuniðurstöður eða ríkisfjárhalli eru einingar sem geta orðið að fréttum.
Eðli Evrópusambandsins, saga þess og samhengi við alþjóðlega þróun eru viðfangsefni sem erfitt er að koma mælikvörðum á eða setja upp í jöfnuna annað hvort eða og því er þetta lélegt fréttaefni. Sama gildir um eðli og vægi fullveldis. Dæmigerður blaðamaður spyr: Hver er fréttin? Og ef ekki er hægt að svar í einni setningu tapar blaðamaðurinn áhuga.
Annað atriði sem skýrir ESB-hneigð fjölmiðla á Íslandi er að stjórnendur þeirra eru aðildarsinnar, Þorsteinn Pálsson á Fréttablaðinu og Ólafur Stephensen á Morgunblaðinu, og eftir höfðinu dansa limirnir. Ríkisfréttabatteríið er formlega ekki með skoðun, þar eru ekki skrifaðir leiðarar, en eins og umræðan um fjölmiðlafrumvarpið sýndi þá fylgja ríkisfréttamenn línunni sem gefin er skoðanafjölmiðlunum, dagblöðunum.
Þriðja atriðið er hjarðmennskueðli fjölmiðla. Rétt eins og blaðamenn muldu undir auðmennina, þeir voru jú sigurvegarar dagsins, þá trúa blaðamenn að aðildarsinnar muni hafa betur og vilja vera í sigurliðinu.
Fjórða atriðið er að fagleg staða íslenskra fjölmiðla og blaðamanna er lélegri en á byggðu bóli í þeim heimshluta sem við kennum okkur við. Hér er engin fjölmiðlagagnrýni og fagleg umræða blaðamanna er í skötulíki. Blaðamannafélag Íslands verðlaunar félagsmenn sem eru staðnir að ritstuldi og lygum. Þar hæfir skel kjafti, íslenskir blaðamenn og aðildarsinnar.
(Leiðrétting og fyrirvari: Lesandi vakti athygli á að Viðskiptablaðið eitt blaða heldur úti fjölmiðlagagnrýni í reglulegum pistlum Andrésar Magnússonar sem fetaði í fótsport Ólafs Teits Guðnasonar en fjölmiðlarýni hans hefur verið gefin út á bókum. Starf þeirra félaga er ljós í myrkri fjölmiðlarýninnar á Íslandi.)
Athugasemdir
Fjömiðlar fara sömu hamförum í ESB trúboðinu eins og þeir gerðu í virkjanáróðrinum í byrjun þessa áratugar.
Alcoa hét það þá en nú ESB. Sam þungi í fréttaflutning um allt ágætið en öndverð sjónamið heita áróður í Efstaleiti
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 22:39
Það er mjög sorgleg staðreynd, að dagblöðin bæði eru að hluta til áróðursmiðlar fyrir innlimun lands okkar og þjóðar inn í erlent
Svo eru Spegillinn í höndum Friðriks Páls og einkum Gunnars Gunnarssonar, Vikulokin í höndum Hallgríms Thorsteinsson og þáttur Hjálmars Sverinssonar (allir á Rúv) miklar Evrópubandalagsbækistöðvar – sem og Silfur Egils. Sérvaldir málskrafsmenn eru þar alls staðar í meiri hluta Evrópubandalagssinnar og bera marga vitleysuna á borð, sem erfitt er að andmæla, af því að andmælaréttur gefst nánast enginn. Leiðandi spurningar eða gefnar forsendur sumra þeirra (eins og einna átakanlegast birtist hjá Hjálmari og Gunnari) eru ótrúlega áberandi, og svo má áfram telja. (Þá eru Sjónvarpsfréttamenn ennfremur viðsjálir.)
Það verður að leita aftur á Sturlungaöld til að finna hiðstæður þessa.
Jón Valur Jensson, 7.5.2009 kl. 22:46
Sæll Páll minn.
Enn er það sama gamla tuggann um hversu voðalega slæmir (og hlutdrægnir!) fjölmiðlar eru.
Það er ekkert nýtt undir sólinni. Þegar núverandi formaður einangrunarsinnaklúbbsins, Ragnar Arnalds, var að tapa baráttunni gegn EES samningnum árið 1993 reit hann grein í Morgunblaðið þar sem hann kenndi heimildarþáttum sem RÚV sýndi um EES-samninginn um hvernig fór. Sakaði hann fjölmiðla sem voru honum ekki sammála um hlutdrægni - rétt eins og þú gerir nú.
Greinina má lesa á timarit.is - Morgunblaðið 20. janúar 1993 bls. 14.
Sömu gömlu tuggurnar. Sömu gömlu einangrunarsinnarnir.
Jónas (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 22:49
Hér fór heilmikið forgörðum af innleggi mínu. Ég sagði:
... dagblöðin bæði eru að hluta til áróðursmiðlar fyrir innlimun lands okkar og þjóðar inn í erlent stórveldi og ræddi það svo, hvernig ALDREI eru skrifaðir leiðarar í dagblöðin tvö sem mæli GEGN EB-aðild eða innlimun, einungs með.
Þorsteinn Pálsson hefur sér við hlið fólk sem skrifar eins og hann um þessi mál, jafnvel svo ágætur maður sem Auðunn Arnórsson hefur látið véla sig inn á þessa EB-línu, sem íslenzkt verkafólk og sjómenn og landsbyggðarfólk er yfirleitt á móti, ekki með.
En nú emk þreyttr ok læt þetta örlitla ágrip úr glataða hlutanum nægja.
Verð í Útvarpi Sögu með minn vikulega pistil á morgun kl. 12.40–13.00 (kem þar yfirleitt inn á Evrópubandalagsmál, enda eru fullveldisréttindi okkar í húfi, og ekki leizt mér gæfulega á yfirlýsingar Steingríms J. í dag í tilefni skoðanakönnunar.).
Jón Valur Jensson, 7.5.2009 kl. 22:57
Jónas:
Það væri nær að kalla þá einangrunarsinnar sem virðast halda að tollabandalagið og verðandi stórríkið Evrópusambandið sé allur heimurinn og vilja einangra okkur innan þess.
Hjörtur J. Guðmundsson, 7.5.2009 kl. 23:08
Enn eitt gott dæmi er hvernig fjölmiðlar æra almenning með þögn sinni um allt sem ekki er ESB, má finna hér. Þar kemur grein frá Lofti Þorsteinssyni, sem spjallar um fríverslunarsamning EFTA við Kanada. Þetta er stórfrétt og mjög þess verðug að verða rædd....en fjölmiðlamenn vilja ekki deyfa athygli almennings frá ESB áróðri sínum.
Það er gríðarleg synd að horfa á að nú er, þrátt fyrir allt sem gengið hefur á Íslandi, enn verið heilaþvo þjóðina....og hún er að leyfa því að gerast.
VAKNIÐ !
Haraldur Baldursson, 7.5.2009 kl. 23:13
Þetta er svo satt hjá þér Páll....það liggur við að maður sjái hvernig blaðamennskunni hrakar dag frá degi.
TARA, 8.5.2009 kl. 00:12
Í "einangrun" okkar fengum við fríverzlunarsamning við kanada og getum fengið annan slíkan við Kína, þann þriðja við Japan og þann fjórða við Indland. Ekkert af þessu hefðum við fengið með því að láta innlimast í Evrópubandalagið.
ER EINHVER HÉR SEM TREYSTIR SÉR TIL AÐ ANDMÆLA ÞVÍ?
Innlimun í 28–30 þjóða bandalag í heimi hátt í 200 ríkja er EINANGRUNARSTEFNA. Það er ennfremur AÐ VINNA GEGN ÁUNNUM FULLVELDISRÉTTINDUM OKKAR. Og í 3. lagi er það ÓFORSJÁL STEFNA VEGNA UPPDRÁTTARSÝKI EB af völdum fólksfækkunar landanna, já, stórhættulegrar fólksfækkunar í menningarumhverfi Evrópu. Í 4. lagi STEFNIR ÞAÐ FJÖRGEGGI UNDIRSTÖÐUNÁTTÚRUAUÐLINDA OKKAR Í HÆTTU.
Þeir, sem eru reiðubúnir til að hætta öllu þessu til, eru annaðhvort ekki byrjaðir að hugsa þetta mál eða lata styrast af einhverju öðru en þjóðarhagsmunum okkar.
Jón Valur Jensson, 8.5.2009 kl. 01:26
Stundum líður manni eins hænu í búri sem fær bara það korn sem henni ber og ekkert annað...mötunin er svo yfirgengileg.
Er svarið að taka upp fallið merki Helga Hóseasonar ?
Íslenskir fjölmiðlar eru miðstýrðir af ESB sinnum, fréttir eru síaðar út frá ESB-aðildar vægi.
Haraldur Baldursson, 8.5.2009 kl. 09:04
Ég tek heilshugar undir þessa færslu hjá þér Páll.
Ég hef búið í þremur ESB löndum. Ég er evrópusinni, hlyntur miklu samstarfi við ESB (og fleiri) og ég hef unnið í verkefnum á vegum ESB og sótt þangað fundi og tekið þátt í verkefnum þar. Það er margt gott í ESB. Ég er samt, eftir að hafa skoðað málin og metið framtíðarhorfur, alfarið á móti inngöngu Íslands í ESB.
Ástæðan fyrir því að ég vil ekki að Ísland verði innlimað í ESB er einmitt sú hægfara þróun sem ESB kjarninn stefnir að, þ.e.a.s. að búa til eins konar Bandaríki Evrópu. Einnig sú hægfara efnahagslega og menningarlega hnignun sem mun að mínu mati eiga sér stað á Íslandi ef við göngum í ESB.
Þetta eru ekki hlutir sem skipta máli í núinu og eiga því ekki upp á pallborðið í umræðunni í fjölmiðlum. Þetta skiptir hins vegar öllu máli fyirr framtíðina og er eitthvað sem fólk þarf að átta sig á ef það tekur (nánast?) óafturkræfa ákvörðun um inngöngu í ESB.
Staða Íslands í Bandaríkjum Evrópu (BE) verður í besta falli eins og Alaska í BNA. Ef BE (Bandaríki Evrópu) vill reisa herstöð á Íslandi, þá verður það gert. Ef þeir vilja loka herstöð á Íslandi, þá verður það gert. Ísland verður verstöð (auðlindanýting) en unga fólkið flytur burt og arðurinn fer burt. Menningunni hnignar og þjónustuframboð verður fábreyttara. Opinbert mál verður eitthvert Evrópumálið (þýska, franska, enska?). Og það verður ekki liðið að þjóðin reyni að segja skilið við BE.
Ég tel reyndar að vilji margra í ESB til að fá ný ríki inn í ESB komi til af því að þeir vilj með því koma í veg fyrir frekari þróun í átt að Bandaríkjum Evrópu og að sama skapi er stífni annarra gagnvart því að fá fleiri þjóðir inn komin til af því að það tefur fyrir stofnun BE. Af þessum ástæðum er ekki ólíklegt að ESB geti þróast í ytra og innra svæði. Þ.e.a.s. að kjarninn (Þýskaland, Frakkland og fl.) myndi Bandaríki Evrópu (og Bretar telja sig þá væntanlega verða að vera með, þvert á eigið geð, til að koma í veg fyrir að þessi tvö ríki verði andstæður póll við Bretland), en ytri ramminn verði meira í líkingu við EES sem Ísland er þegar í. Það er margt sem mælir með því að EES sé betra fyrirkomulag fyrir margar ESB þjóðir heldur en þátttaka í EES.
Um þetta má rita langt mál, en læt þetta nægja í bili.
Þorsteinn Helgi Steinarsson, 8.5.2009 kl. 09:06
Sæll Páll og takk fyrir pistilinn.
Mér finnst alveg óskiljanlegt hversu lítil umræða fer fram á Íslandi um fjölmiðla. Það er engu líkara en blaðamenn reyni að koma í veg fyrir hana.
Ég hef búið í þremur Evrópuöndum og hef víða farið. Ég tek undir það sem þú segir. Ég þekki ekkert land í Evrópu þar sem fjölmiðlun er svona hrikalega léleg eins og hér á Íslandi.
Sérstaklega eru blöðin alveg afleit. Fréttirnar eru yfirborðskenndar og allir birta sömu fréttirnar. Líka ljósvakamiðlarnir! Það bara skil ég ekki! Að auki tek ég eftir því að fréttir blaðanna eru nú mun verr skrifaðar en áður. Þetta hefur breyst hratt til hins verra.
Kannski eru óreyndir krakkar ráðnir í störfin nú fyrir skítalaun frekar en alvöru blaðamenn? Mig grunar það. Að minnsta kosti voru til hér alvöru blaðamenn. Þeir virðast hreinlega hafa gufað upp. Það er skelfing að lesa sumt af þessu. Líka vekur athygli mína hvað illa þýddar fréttir af fræga fólkinu og frá útlöndum fá mikið vægi í blöðunum.
Ég tel líka út frá því sem ég þekki erlendis frá að óhugsandi væri annars staðar en á Íslandi að einn af helstu höfundum útrásarinnar sem hefur sett þjóðina á hausinn ræki enn fjölmiðla. Fréttir Stöðvar 2 eru kannski ekki mikið verri en ríkissjónvarpið en Fréttablaðið er ömurlegt blað.
En ég lýsi aftur yfir furðu minni á því hversu lítið er fjallað um fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn hér. Sérstaklega í ljósi þess að öflugir fjölmiðlar eru aldrei mikilvægari en á svo dramatískum tímum. Ég sé ekki betur en að fjölmiðlarnir séu að bregðast aftur. Kannski eru auðmennirnir einfaldlega búnir að eyðileggja þá? Er allt hæfa fólkið flúið eða búið að reka það? Spyr sá sem ekki veit.
Kveðja
Karl
Karl (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 09:53
Ég verð að segja að blaðamennska hér er afskaplega slöpp og ógagnrýnin. Blaðamennska gengur eftir forskriftinni; "hafa skal það sem betur selst".
Blaðamennska hér á landi og fjölmiðlaðar hér á landi eru gegnsýrðir af viðhorfum Samfylkingarinnar, og Samfylkingarelítunnar og mjög hlutdrægir Samfylkingunni í hag. Það sér hver meðalgreindur mannapi.
Eitt sinn hömpuðu fjölmiðlar hér útrásinni og útrásarvíkingunum, nú er málið ESB og viðhorf er tala fyrir eindreginni innlimun Íslands í ESB, af því að menn halda að þá séu þeir í sigurliðinu.
Blaðamenn hér á landi spyrja aldrei gagnrýninna spurninga, heldur taka þeir einungis viðtöl og birta þau svo ótuggin. G
Gott dæmi um ógagngrýnina blaðamennsku er þegar Olli Rehn stækkunarstjóri ESB sagði; "að Ísland yrði mikill fengur fyrir ESB" hér í nóvember í fyrra.
Blaðamenn kokgleyptur við þessu og sögðu nánast "vááá" og litu á þetta sem einskonar traustsyfirlýsingu við okkur af hálfu ESB og birtu þetta gagngrýnislaust.
Ef góð blaðamennska hefði ráðið för í þessu viðtali, hefði Olli Rehn verið spurður að því, hvað hann ætti við með "að Ísland yrði mikill fengur fyrir ESB". Hvað átti hann við? Að Ísland væri eins og hver annar ránsfengur fyrir ESB, eða að ESB ætlaði að hagnast á okkur eða misnota okkur sér í hag?
Við fáum aldrei svar við þessum orðum Olli Rehn, því blaðamenn spurða hann aldrei nánar út í þetta.
En það virðist hinsvegar vera svo, að aðild að ESB komi í staðinn fyrir hlutabréfa og útrásaræði Íslendinga, og allir vilja vera í sigurliðinu, enda er hjarðeðli Íslendinga landlægt.
Svo er það að aðildarsinnar kalla andstæðinga ESB fyrir "einangrunasinna" eða "heimastjórnarfólk" til að gera málstað og skoðanir þessara aðila ótrúverðugan.
Ég legg því til að á móti verði þeir sem hlyntir eru aðild að ESB verði kallaðir "landsölusinnar" enda má telja víst að ESB mun gleypa okkur með húð og hári og við fáum ekkert um það ráðið. Menn verða að hafa í huga að ESB eru engin góðgerðarsamtök.
Haraldur Þ. Magnússon (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 10:24
Ég bjó í Þýskalandi um tíma og fannst áberandi hve lítið var af erlendum fréttum í þarlendum fjölmiðlum. Þá var sláandi hve miklu meira var um slíkar fréttir í íslenskum fjölmiðlum t.d. Morgunblaðinu á þeim tíma. Jafnvel fréttir af stórfelldum náttúruhamförum í Evrópu komu seint og einungis sem smáfrétt hjá þýskum. Morgunblaðið birti á þessum tíma oft fréttir frá eigin fréttasmiðum á ýmsum afkimum heimsins og vitnaði í fréttir Spiegel, Le Mond og The Economist. Nú er tíðin önnur. Fréttirnar virðast sóttar í enskumælandi netmiðla að miklu leyti. T.d. þegar fréttir um lánveitingar AGS til Íslands voru á döfinni (hvort og hvenær lánið yrði veitt) og allir stóðu á öndinni eftir nýjum fréttum frá höfuðstöðvum þeirra í NY, þá komu fréttirnar sem vörðuðu Ísland fyrst í erlendum netfjölmiðlum og íslensku fjölmiðlarnir átu þær upp eftir þeim. Fyrirsagnirnar voru eitthvað á þessa lund: "Financial Times segir að IMF muni afgreiða lánið í þessari viku". Jafnvel var vitnað í íslenska ráðherra gegnum erlenda fjölmiðla. Niðurlæging íslenskrar fjölmiðlunar verður ekki meiri. Stærstu fréttirnar sem allir biðu eftir vor (oft illa) þýddar fréttir úr enskumælandi fjölmiðlum. Sama má segja um gagnrýna hugsun á íslenskt samfélag fyrir hrun. Helst var það Morgunblaðið sem þýddi gagnrýnisfréttir frá Norðurlöndum. Ekki kom gagnrýnin innanlands, nema þá helst á það að Morgunblaðið skyldi vera að eltast við svona neikvæðar erlendar fréttir.
Núna má ekki heyra minnst á gagnrýni á ESB aðild án þess að lenda í skítkasti. Viðvörunarorð eru afgreidd sem ómerkilegur hræðluáróður svipað og hjá þeim sem vöruðu við þenslunni á sínum tíma. Þeir sem svo láta virðast ekki ætla að læra að staldra við og hlusta og hugsa sjálfstætt. Lítið er um gagnrýni á ESB í fréttamiðlum nema hjá þeim sem senda inn greinar og blogga. Mikið er um lofsöng um ESB í fjölmiðlum svipað og hjá klappliði útrásarinnar á sínum tíma. Skildi þetta vera sama fólkið?
Þorsteinn Helgi Steinarsson, 8.5.2009 kl. 10:35
Já Þorsteinn, mig grunar að þetta sé sama fólkið. Enda virðist heldur ekki neinn áberandi áhugi að ræða þátt Samfylkingarinnar í hruninu. Ekkert um Björgvin G. og Ingibjörgu S., þau voru víst bara einhversstaðar annarsstaðar...
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 14:04
Ég er sammála því sem Þorsteinn Helgi segir.
Mogginn var á sínum tíma með mjög góðar erlendar fréttir. Þær hafa hins vegar breyst mjög til hins verra og eru núna aðallega þýðingar úr ensku. Áður fyrr var þetta miklu fjölbreyttara og bara verulega gott, a.m.k. sambærilegt við alvörublöð erlendis.
Kannski er búið segja þessum blaðmönnum upp til að spara peninga eða eru þeir flúnir? Mér finnst vanta alla umræðu um þetta og fjölmiðla almennt á Íslandi. Þetta er í raun og veru stórmál. Er ekki alveg sérrstaklega mikil þörf fyrir almennilega fjölmiðla hér á Íslandi?
Karl (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.