ESB og Ísland - kjarninn

Evrópusambandið er pólitískt samband, stofnað af sex meginlandsríkjum í lóðbeinu framhaldi af tveim heimsstyrjöldum. Samfylkingin og margir aðrir líta á ESB sem efnahagsbandalag. Það kemur fram í sjónarmiðum eins og: Athugum hvað við fáum, sjáum svo til. Þetta sjónarhorn er heimóttarlegt og mætir ískaldri fyrirlitningu í Brussel. Það þýðir ekkert fyrir okkur að sækja um inngöngu fyrr en stór meirihluti á þingi og meðal þjóðarinnar er fyrir sannfæringu um að Ísland eigi heima í Evrópusambandinu. Og það verður ekki vegna þess að við eigum fátt sameiginlegt með meginlandinu.

Ísland er ekki í neinum venjulegum skilningi hluti af evrópskri stjórnmálasögu. Um aldir vorum við hjálenda evrópsks smáríkis. Stóratburðir evrópskrar sögu hafa gagnólíka merkingu hér land. Þrjátíu ára stríðið á 17. öld var fyrsta stórstríð álfunnar; við fengum ræningjaheimsókn hingað sem gengur undir nafninu Tyrkjaránið. Í fyrri heimsstyrjöld var milljónum ungra manna slátrað á vígvöllum í Frakklandi; við náðum okkur í fullveldi. Í seinni heimsstyrjöld var aftur drepið í milljónavís og landmæri færð til í austur og vestur; Íslendingar stofnuðu lýðveldi.

Ísland hefur staðið fyrir utan ágreiningsmál Evrópu og hugmyndir um evrópska samheldni hafa enga vísun í íslenskan hugarheimi. Þvert á móti, við háðum okkar litlu saklausu landhelgisstríð gegn stórþjóðum Evrópu, Bretlandi og Vestur-Þýskalandi.

Íslendingar sem vilja sækja bjargráð okkar til Brussel eru í sporum manns sem gefst upp á vandræðaástandi á eigin heimili og sér það helst til ráða að sameinast annarri stærri fjölskyldu í fjarlægri sveit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágætis hugleiðing útfrá þessum sjónarhóli.

En hefur þú hugleitt á sama hátt hvers vegna Íslendingar hanga eins og hundur í roði  í NATÓ hernaðarbandalaginu ? Og með blóðugar hendur vegna þessa að sjálfsögðu.

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 23:17

2 identicon

Ég held að þetta snúist nú ekki um vandræðaástand á heimilinu heldur frekar hreint og beint heimilisofbeldi. Ef þolendurnir fá ekki rönd við þá bregðast þeir við með því að leita á náðir annarra. ESB er einfaldlega illskásti kosturinn að mati margra. Heiðarlegast hefði verið að kjósa beint á milli ESB, LÍÚ, IMF og BSRB.

En svo eru líka sumir sem sjá í hillingum spennandi og langvarandi samræðustjórnmál við kertaljós á kaffishúsum í Brussel og Strassbourg.

TH (IP-tala skráð) 26.4.2009 kl. 23:31

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Flott grein Páll. Fróðlegt er að velta því fyrir sér hvar við veljum að staðsetja okkur menningarlega...þá á ég ekki við hver spilar fiðlu hvar...ég á við hvar almenningur velur sér sína afþreyingu.
-Tónlist : USA, UK, ....ekki svo mikið Sænsk, Dönsk, Frönsk, þýsk,...
-Kvikmyndir : USA, UK, ....ekki svo mikið Sænsk, Dönsk, Frönsk, þýsk,...
-Sjónvarp : USA, UK, ....ekki svo mikið Sænsk, Dönsk, Frönsk, þýsk,...
-Erlendar bækur : Yfirgnæfandi meirihluti erlendra bóka í hillum bókabúiða er á ensku...oftar en ekki frá USA
-Internetið : Sækir almenningur almennt mikið í erlendar vefsíður sem ekki eru á ensku ?
-Fótbolti : England....lang stærst

Til góðs eða ills, velur fólk með fótunum....við erum að stórum hluta til að velja okkur menningu frá USA, eða frá UK (sem er langt frá meginlands menningunni).

Við teljumst til Evrópu, það er rétt...en við sækjum ansi stíft til vesturs líka. Afneitum ekki sjálfum okkur, eða því sem við erum að velja að vera. Við erum nefnilega stórfín

Haraldur Baldursson, 27.4.2009 kl. 09:35

4 identicon

VERUM VIÐ SJÁLF,EKKERT  E S B   RUGL.  ÉG ER SAMMÁLA STEINGRÍMI HERMANNSSYNI FYRRVERANDI FORSÆTISRÁÐHERRA,EN Í VIÐTALI Í HELGARBLAÐI DV ,SEGIR HANN::ÞÝSKALANDI ER AÐ TAKAST ÞAÐ SEM  HITLER TÓKST EKKI , AÐ LEGGJA UNDIR SIG  EVRÓPU  ,,:::heyr heyr Steingrímur.

Númi (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 10:11

5 identicon

Hugsjónin sem Evrópusambandið hvílir á eru sameiginlega pólitísk markmið um eitt markaðssvæði, efnahagslegan stöðugleika, frið og mannréttindi.

 Til viðbótar þessu þá er Ísland hluti af Evrópu og samfélagsgerð hér á landi er ekki mikið frábrugðin öðrum samfélögum í vestur-evrópu sem hafa mótast af stóratburðum evrópskrar sögu.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband