Miðvikudagur, 6. desember 2006
Áskriftarblöð og fríblöð
Dagblöð í áskrift bera höfuð og herðar yfir fríblöð, hvort heldur sem mæld eru gæði blaðamennskunnar, alhliða umfjöllun, hlutfall milli frétta og auglýsinga eða trúverðugleiki. Á Norðurlöndum og í Vestur - Evrópu hafa fríblöð verið viðbót við áskrifarblöð en ekki komið í staðinn fyrir þau.
Eðli málsins samkvæmt eiga fríblöð meiri möguleika á útbreiðslu, þau eru einu sinni ókeypis. En það er enn langt í land með að fríblöðin velti áskriftarblöðum af stalli. Helst er að þau komi í staðinn fyrir lausasölublöð, sambanber að útgáfu DV var hætt eftir að Fréttablaðið kom í stað DV sem aukblaðið á mörgu heimilinu.
Ný fjölmiðlakönnun gefur ekki tilefni til að hafa í frammi glannalegar yfirlýsingar um að Morgunblaðið, sem eina áskriftarblaðið, eigi í vök að verjast gagnvart fríblöðunum tveim, Fréttablaðinu og Blaðinu.
Þrátt fyrir að vera borið ókeypis í hvert hús mælist Fréttablaðið aðeins með 66% meðallestur sem þýðir að verulegur fjöldi landsmanna hirðir ekki um að lesa blaðið þótt það komi ókeypis inn um póstlúguna. Meðallestur Morgunblaðsins er aðeins 20 prósentustigum minna en lestur Fréttablaðsins.
Hausatalning á lesendum sýnir aðeins hluta myndarinnar. Fólk les fríblöð hraðar, hefur minna álit á þeim og gefur lítið fyrir trúverðugleika þeirra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.