Krónan og sálarlíf útrásarinnar

Á miðöldum áttu synir þýskra fursta handgenginn mann sem tók við óbótaskömmum sem furstasonurinn átti inni. Sá handgengni var kallaður prügelknabe eða blórapungur. Krónan er blórapungur útrásarfurstanna og pólitískra stuðningsmanna þeirra í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Í stað þess að koma heiðarlega fram og játa mistök, líkt og Ásmundur Stefánsson bankastjóri Landsbankans, reynir útrásarliðið að sannfæra þjóðina að krónan sé blórapungurinn.

Útrásin var bernskubrek kjána sem fengu að leika sér með efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Fjölmiðlar lofsungu vitleysuna og forsetinn gerði þjóðina að athlægi með trúðslegum sjálfbirgingshætti þar sem útrásarauðmenn voru sagðir geta gengið á vatni.

Benedikt Jóhannesson forstjóri Talnakönnunar hefur tekið að sér kaghýða blórapunginn kortéri fyrir kosningar. Samkvæmt greiningu Benedikts blasir við okkur annað hrun ef við tökum ekki upp annan gjaldmiðil og göngum í Evrópusambandið.

Rök forstjórans eru þau að útlendingar treysta ekki Íslendingum. Það eru tvær hliðar á því máli. Vegna þess að krónan er lágt skráð hrúgast útlendingar til landsins og kaupa íslenskar vöru sem aldrei fyrr. Lítið vantraust þar. Þá segir Benedikt að útlendingar vilji losna við krónubréfin sín og það sé merki um vantraust. Útlendingarnir sem hafa fjárfest í slíkum bréfum gerðu það til að græða á þeim. Við höfum gjaldeyrishöft til að vinna gegn því að gengi krónunnar falli þegar útlendingarnir leysa til sín gróðann. Það er tæknilegt úrlausnarefni hvenær og hvernig við losum um gjaldeyrishöftin.

Benedikt, eins og margir aðildarsinnar, tapaði dómgreindinni í útrásinni þótt hann hafi ekki verið í framvarðasveitinni þar. Í upphafi útrásar var Benedikt smánaður af unglingunum í útrásinni þegar þeir lögðu undir sig fjölskyldusilfrið, Skeljung og Eimskip. Í lok útrásar situr Benedikt skaddaður og meiddur eftir að hafa tapað fúlgum í hlutabréfum. Dómgreind manna bilar af minna tilefni.

Írar eru með evru og allt niðurm sig efnahagslega. Lettar standa frammi fyrir þjóðargjaldþroti en þeirra gjaldmiðill er fasttengdur evru. Nýleg frétt í Telegraph segir að Pólverjar gætu bjargað sér frá fjármálakreppunni með því að láta gengið síga. Breska pundið hefur fallið um marga tugi prósenta og eru Bretar líklegir til að vinna sig fyrr úr kreppunni en meginlandsþjóðirnar.

Gjaldmiðlar eru ekki ónýtari en efnahagskerfin sem að þeim standa. Með krónunni getum við unnið okkur í gegnum kreppuna. Við megum hins vegar ekki hlusta á undanvillinga útrásarinnar. Þá fyrst yrðum við í vandræðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég geri mér grein fyrir því að evran er ekki mannakorn af himnum, en staðreyndin er samt sú að atvinnurekendur kvörtuðu yfir krónunni löngu fyrir bankahrunið. Við þurfum að hafa stöðugan og traustan gjaldmiðil sem heimurinn treystir, annars getum við ekki átt eðlileg samskipti við aðrar þjóðir.

Mér líst vel á að taka upp evru ef ESB samþykkir það. Verðum við ekki að láta á það reyna hvort okkur gæti staðið það til boða án þess að ganga í björgin?

Baldur Hermannsson, 19.4.2009 kl. 19:30

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Evran er Trojuhestur Evrópusinna. Ef þeir sem raunverulega eru þeirrar skoðunar að við þurfum að skipta um gjaldmiðil þá er dollar nærtækur kostur. Við þyrftum ekkert leyfi til þess. Við gætum líka tekið upp breskt pund.

Megnið af umræðunni er falsumræða þar sem falskar forsendur eru endurteknar í göbbelsku margfeldi í þeirri von að fólk trúi. Stöndum vaktina, Baldur.

Páll Vilhjálmsson, 19.4.2009 kl. 19:43

3 Smámynd: Baldur Hermannsson

Páll, ég er smeykur um að að vettlingatök, stefnuleysi og ráðleysi verði til þess að hér fari allt í kaldakol, þjóðin gefist upp og fari skríðandi á fjórum fótum hágrenjandi inn í ESB eftir 2-3 ár.

Baldur Hermannsson, 19.4.2009 kl. 20:07

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Nei, Baldur, við munum sem þjóð hrista þetta af okkur en það tekur tíma. Hrunið varð býsna mikið en eftir 3-4 ár horfum við um öxl veltum fyrir okkur hvers vegna svona margir fóru á taugum.

Páll Vilhjálmsson, 19.4.2009 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband