Hrunið býr til þriggja flokka kerfi

Gamla fjórflokkakerfið með einum eða tveim viðhengjum ætlar að hverfa í kjölfar hrunsins. Stjórnmálakerfið sem við höfum búið við nær öll lýðveldisárin er við það að taka stakkaskiptum. Fái Framsóknarflokkurinn útreiðina sem kannanir spá, engan mann kjörinn í Reykjavík og afgangsálversfylgi á Austurlandi, er flokkurinn búinn að vera. Líklega skiptist hann á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á næsta kjörtímabili - Vinstri grænir eru búnir að sækja sinn hluta.

Eitt sterkasta vopn Sjálfstæðisflokksins var ótti kjósenda við þriggja flokka vinstristjórn. Glundroðakenningin leyfði Sjálfstæðisflokknum að vera stór án þess að hafa ýkja mótaða stefnu. Þegar hann einnig með sterkan foringja þurfti hann alls enga stefnu. Þeir tímar eru liðnir og flokkurinn mun þurfa að kafa ofaní sjálfan sig eftir kosningar og finna út hvað hann stendur fyrir.

Fyrirsjáanlegt þriggja flokka kerfi á eftir að slípast. Það er til dæmis ekki trúlegt að til langframa verði þrír flokkar allir með fylgi á bilinu 23 - 30 prósent. Samfylkingin er líkleg til að verða minnsti flokkurinn af þessum þrem. Bæði er fylgi flokksins með óheppilega dreifingu, óeðlilega hátt fylgi í þéttbýli en lítið í dreifbýli, og svo er hitt að flokkurinn er að upplagi tækifærisinnaður.

Jóhanna Sigurðardóttir er límið sem heldur Samfylkingunni saman. Þegar hún hættir eftir tvö ár tekur við eyðimerkurganga sem dregur fylgið niður í 10 - 15 prósent.

 


mbl.is VG í sókn - Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Mér finnst líklegra að hér myndist varanlegt 5 flokka kerfi. Frjálslyndi flokkurinn rann á rassinn vegna þess að hann óx ekki úr grasi. Ef vitrari maður en Guðjón hefði tekið við forystu á sínum tíma þá væri flokkurinn öflugur núna. Æskilegt væri að hafa 2 til hægri, 2 til vinstri og einn á miðjunni.

Baldur Hermannsson, 16.4.2009 kl. 23:11

2 identicon

Staðreyndin er einfaldlega þessi: Fólk óttast alls ekki vinstristjórn og einmitt þess vegna yfirgefum við fyrruim kjósendur Sjálfstæðisflokksins þann flokk með góðri trú og von um betra líf en það sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð okkur upp á.

Stefán (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 10:33

3 Smámynd: Baldur Hermannsson

Ég óttast hvorki hægri stjórnir né vinstri. Ég kýs Sjálfstæðisflokkinn í þeirri vissu að hann sé flokka hæfastur til að skapa okkur gott og stöndugt samfélag.

Baldur Hermannsson, 17.4.2009 kl. 10:48

4 identicon

Baldur Hermannsson er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að skapa hér gott og stöndugt samfélag? Í hvaða raunveruleika býrð þú eiginlega?

Ína (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 11:14

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Sama þjóðfélagi og þú. Það væri fíflska að dæma Sjálfstæðisflokkinn af bankahruninu. Vissulega bar hann pólitíska ábyrgð, ásamt fleirum, á löggjöf um einkavæðingu bankanna, og sú löggjöf reyndist ekki nógu vel unnin - en við dæmum ekki nokkurn aðila af einum mistökum. Það hefur líka lengi legið fyrir að aðrir flokkar, td Samfylking, lagðist gegn dreifðri eignaraðild.

Fyrir einkavæðinguna var Ísland eitt öflugasta og besta þjóðfélag heims, þökk sé Sjálfstæðisflokknum. Við kjósum Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda og endurheimtum fyrri styrk. Vinstri stjórn mun aðeins keyra okkur dýpra í vesöldina.

Baldur Hermannsson, 17.4.2009 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband