Þriðjudagur, 3. mars 2009
Fjárhagslegur krypplingur á opinberu framfæri
Eins og sakir standa er betra að vera fjárhagslegur krypplingur á opinberu framfæri en Gíbraltarklettur sem stendur einn og sér, skrifar goðsagafjárfestirinn Warren Buffet í nýju fréttabréfi. Buffet kvartar yfir pilsfaldakapítalistunum sem hlaupa hver sem betur getur í fang ríkisvaldsins.
Fjármálakreppan sem hófst í Bandaríkjunum fyrir hálfu öðru ári verður dýpri og víðtækari en kreppur liðinna áratuga. Auðævin sem þurrkast út og ógrynni peninga sem renna stríðum straumi úr ríkiskössum austan hafs og vestan í fjármálafyrirtæki sem mega ekki fara í gjaldþrot munu valda siðbreytingu í pólitískri umræðu og uppstokkun á efnahagskerfinu.
Frjálshyggja 19du aldar sem gekk í endurnýjun lífdaga í meðförum manna eins og Friedrich Hayek og Milton Friedman um miðja síðustu öld og fékk síðar pólitíska talsmenn í Ronald Reagan og Margréti Thatcher er dauð.
Tímabundið verða ríkisafskipti víðtæk en ekki verður um að ræða afturhvarf til skipulagsbúskapar í anda bresknorrænnar sósíaldemókratíu. Hagkerfið er of sundurleitt til að get orðið miðstýrt eins og það var á eftirstríðsárunum.
Í fyrirsjáanlegri togstreitu milli fjárhagslegrar íhaldssemi og íþyngjandi regluverki annars vegar og hins vegar athafnasemi efnahagslífsins verður málamiðlun sem hyglar skapandi smárekstri. Stærri einingar og ógagnsæ starfsemi, að ekki sé talað um flókið eignarhald, verða bannorð á meðan sjálfbær og samfélagslega ábyrgur rekstur er settur á stall.
Hvert samfélag verður með sína útgáfu af siðbreyttu efnahagskerfi. Hér á Íslandi mun umræðan á næstunni hverfast um það hvort við eigum að drekkja landi fyrir álver eða byggja upp fjölbreyttan smárekstur.
Athugasemdir
Það þarf að gera greinarmun á frjálsu markaðskerfi og kapítalisma. Kapítalisminn er ófreskja sem þarf að deyja. Smáfyrirtæki eru framtíðin. Fyrirtæki sem "mega ekki fara á hausinn" eiga að vera í samfélagslegri eigu. Þetta er ekki einu sinni skoðun, þetta er niðurstaða.
Doddi D (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 00:35
Doddi D: Þetta er samþykkt frá orði til orðs.
Og þetta er bara niðurstaða!
Árni Gunnarsson, 4.3.2009 kl. 11:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.