Pólitísk evra í kreppu

Þjóðverjar keyptu sameiningu þýsku ríkjanna með því að fórna gjaldmiðlinum, þýska markinu. Frakkar kröfðu Þjóðverja um þess fórn til að tengja þýsku efnahagsvélina Evrópusambandinu órjúfanlegum böndum. Evran er pólitískt verkfæri og stendur frammi fyrir fyrstu prófrauninni á tíu ára afmæli sínu.

Evrópusambandið hefur þróast í skrykkjum frá stofnun Kol- og stálbandalagsins 1951. Oftar en ekki fæðir kreppuástand nýjar útfærslur á samstarfi meginlandsríkjanna. Rómarsáttmálinn frá 1957 var gerður í skugga kalda stríðsins og rúmum áratug síðar var samstarfið víkkað og dýpkað með Efnahagsbandalagi Evrópu í þann mund sem efnahagsundur eftirstríðsáranna rann sitt skeið.

Miðað við fyrri reynslu ætti yfirstandandi kreppa að kalla á nýjar útfærslu í Evrópusamstarfinu. Krafturinn er ekki sá sami í Evrópusambandinu og hann var. Þjóðaratkvæðagreiðslurnar í Frakklandi og Hollandi þar sem stjórnarskránni var hafnað grófu undan samrunaferlinu. Vandræðagangurinn sem þjóðaratkvæði Íra olli sambandinu er dregur einnig dilk á eftir sér.

Ef Evrópusambandinu tekst ekki að munstra þor og þrek til nýrra landvinninga í samrunaferlinu er hætt við stöðnun. Og stöðnun fyrir sundurleitan hóp 27 Evrópusambandsríkja er ávísun á afturför.

Ómögulegt er að segja til um hvað verður um evruna. Á hinn bóginn er nær óhugsandi að eftir kreppuna, sem mun standa yfir næstu 2-4 árin, verði ástandið óbreytt. Annað tveggja gerist: Evrusamstarfið liðast í sundur eða að aukin samruni efnahagskerfa Evrópusambandsþjóða verði ákveðinn og skipulagður.

Hvorugt mælir beinlínis með því að Ísland taki upp evru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Páll minn það eru allir í heiminum að súpa seiðið af vanda sem er risavaxinn jafnvel mestu iðnríkjunum. Myntir standa höllum fæti og nú reynir á samstarf þjóða. Ísland stendur samt verst.

Það getur vel verið að þú sjáir að þjóð án bankakerfis og og án myntar sé fær um að rífa kjaft og standa á eigin fótum einsog ekkert hafi í skorist. Það sé ég ekki fyrir mér. ( Davíð drambsami er erkitýpa íslands um þessar mundir)

Ef íslendingar gerast ekki heilshuga bandalagsmenn með evru og öllu tiltæku þá munu "hinir traustu innviðir" sem þó enn standa bresta. Það er tímaspursmál og ekkert svo langt í það.

Ég var einu sinni á móti ESB á þeim forsendum að Íslendingar ættu að vera "sjálfstæð" þjóð. Nú erum við afhjúpuð hún er ekki sjálfstæð þjóð og hefur ekki verið það hvað utanríkisstefnu snertir frá stríðslokum og mun ekki vera það um næstu aldir. Þá er betra að brjóta odd af oflæti sínu og koma sér í samstarf þeirra þjóða sem eru þó sjálfstæðar í raun og veru og mynda evrópusamstarfið í öllum sínum ófullkomleika og vandræðagangi.

Ég ætla ekki að reyna að sannfæra þig bara að veita einhliða áróðri þínum smá aðhald ef einhverjir aðrir en jábræður þínir nenna að lesa endalausar dilgjur þínar og þinna vina um fullkomlega eðlilegt bandalag menningarþjóða sem við eigum allt okkar undir að séu með okkur í blíðu og stríðu.

Ef við höfum sætt óréttlæti af hálfu ESB og Breta ( sem eru reyndar ekki heilshuga ESB sinnar) þá ber okkur fyrst og fremst að líta í eigin barm til að bæta stöðuna í stað þess að karpa yfir því að við séum einhver fórnarlömb annars en sjálfslýginnar sem er okkar aðal dauðasynd á eftir drambinu.

Gísli Ingvarsson, 7.2.2009 kl. 13:54

2 Smámynd: Benedikta E

Góði Gísli þú ættir að kynna þér reynslu aðildar-þjóða ESB - og hlusta á annað en áróðursmaskínur hérlendar fyrir aðild að bandalaginu -  sem eru á loforða bitlinga-mála hjá stækkunarstjóra bandalagsins-Vegna stjórnlausrar græðgi bandalagsins eftir auðlindum Íslands.

En varðandi evruna - vil ég segja það að - Evrópulöndin eru jafn misjöfn og þau eru mörg og um leið þarfir þeirra misjafnar.

Ætla að troða evrunni upp á öll Evrópulöndin - er jafn vitlaust og gefa eitt og sama lyfið við öllum sjúkdómum - það yrði minnihluti sjúklinga sem lifði það af.

Það eina vitlega sem við gerðum nú í Evrópumálunum er að segja okkur úr EES og það strax - Aðild okkar að EES hefur nú þegar leitt okkur í þvílíkar ógöngur að ekki er á bætandi.

Benedikta E, 7.2.2009 kl. 22:17

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Já Benedikta það er ekki lifandi vegur að kynna sér reynslu þjóða. Ég hef verði Íslendingur í yfir 50 ár og samt tel ég mig ekki þekkja neina reynslu nema mína og afstöðu sem af henni er sprotinn. Mér dettur ekki í hug að halda að ég og mín reynsla sé prótótýpa fyrir þjóðina sem samanstendur af 300 000 einstaklingum og fjölgandi vonandi.

ESB hefur fyrir sitt leyti samið úrsagnarferli fyrir aðildarríkin ( sem eru ekki þjóðir sumhver heldur þjóðasamteypur). Það merkilega gerðist að Írar neituðu að samþykkja þessar breytingar. Sennilega vegna arfa misskilnings og meistaralegs áróðurs gegn ESB. Þeir þurfa svo sannarlega að samþykkja þennan samning sem fyrst svo þeir geti sagt sig úr bandalaginu með reisn.

Varðandi evruna er ég þér ósammála vegna þess að við þurfum stöðugleika svo við getum glímt við grundvallarstjórnun á efnahagsmálum með raunhæfum rekstri en treysta ekki á lánaþensluna einsog við höfum gert hingað til og "leiðrétt" síðan með gengisfellingu. Við munum aldrei aftur komast í þá aðstöðu sem Seðlabankinn kom okkur í með því að hækka gengi krónunnar umfram raunverðmæti. Evran verður bylting til framfara en það verður sárt í byrjun.

Sama meðalið við sama vandanum sem er óstjórn og óraunhæfar lántökur gilda allstaðar og koma evrunni ekkert við. Hún er bara einn fasti sem menn verða að setja í samhengi hlutanna.

Þegar kemur að gagnrýni þinni á bitlinga og sýndarupphefð sem getur fylgt stöðum innan ESB verð ég líka svolítið efins. Þarna liggur nefnilega vaxtarbroddur drabseminnar sem er þjóðarlöstur okkar. Þeir ágætu fulltrúar þjóðarinnar sem komast að kjötkötlunum verða líklega þjóðinni hættulegastir. Missa jarðsambandið og verða ginningarfífl þeirra sem slyngari eru.

Tillaga þín um að segja okkur úr EES er hin eina heiðarlega afstaða sem er frambærileg núna. Ef næðist meirihluta samstaða um hana núna myndi ég styðja hana heilshugar þó persónulega telji ég hana ranga. Ég vil nefniega að menn taki alvarlega á hlutunum og beri ekki kápuna á báðum öxlum. EES er engin frambúðarlausn. Það er full aðild hinsvegar. Við getum alveg treyst því að stjórnmálamenn okkar verða ekkert gáfaðari utan bandlags en innan. Almenningur mun þó hafa víðtækari valmöguleika til aðhalds innan ESB.

Gísli Ingvarsson, 8.2.2009 kl. 13:36

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Gísli: Andstaða Íra við Lissabon samninginn byggðist aðallega á þrennu. Utanríkis- og varnarmálum, ramma fyrir lagasetningu um fóstureyðingar og ótta við aukin áhrif sambandsins á skattlagningu í atvinnurekstri í einstökum aðildarríkjum. Sér í lagi var það síðastnefnda þungt á metunum.

Ég held að leið til úrsagnar úr Evrópusambandinu hafi lítið sem ekkert blandast inn í umræðuna á Írlandi í fyrra. Ég vona bara að þeim farnist vel á komandi misserum og evran verði þeim ekki of þungt fótakefli.

Haraldur Hansson, 8.2.2009 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband