Mánudagur, 22. desember 2008
Hausatalning upphlaupsmanna
Efnahagshrun er afsætt. Þjóð sem glímir við samdrátt þjóðartekna, fallandi gengi gjaldmiðils og vaxandi atvinnuleysi er í vanda. Mat á stöðu viðkomandi þjóðar er einkum háð tveim þáttum. Annars vegar hvernig nágrannaþjóðir standa sig og hins vegar hver staðan var fyrir kreppu. Þjóð með háar þjóðartekjur á mann hefur borð fyrir báru sem þjóð með lágar þjóðartekjur hefur ekki. Þjóðartekjur á mann á Íslandi voru 40,400 dollarar árið 2007. Meðaltalið fyrir Evrópusambandsþjóðir var 32,700 dollarar, um fimmtungi lægra en hér á landi.
Tökum Bretland sem dæmi. Þjóðartekjur á mann þar í landi voru 35, 000 dollarar. Gjaldmiðill Breta hefur fallið verulega undanfarið. Á hálfu öðru ári hefur pundið fallið um 25 prósent gagnvart dollar, 30 prósent á móti evru og heil 45 prósent andspænis japönsku yeni. Hressileg lækkun pundsins hefur hvorki leitt til upphlaups stjórnmálamanna né í almennri umræðu. Bretar eru giska kátir með pundið sitt.
Atvinnuleysi er sex prósent og fer hækkandi í Bretlandi. Handan við sundið gera Írar ráð fyrir 12 prósent atvinnuleysi.
Fyrir tveim árum kostaði breskt pund 142 íslenskar krónur. Í dag kostar pundið 181 krónu. Munurinn er liðlega 27 prósent. Evran kostaði fyrir tveim árum 95 krónur en í dag 171 krónu og er það 80 prósent munur. Dollarinn hefur hækkað um 70 prósent á tveim árum.
Þróun gjaldmiðla er háð mörgum þáttum og engin leið er að spá fyrir um hana. Roger Bootledálkahöfundur á Daily Telegraph vísar í rannsókn á vegum Englandsbanka sem sagði að engin vísindi gætu sagt til um með neinni vissu hvernig gjaldmiðlar þróuðust.
Íslenska krónan tekur knappari dýfur en flestir aðrir gjaldmiðlar. En það er ekki vegna þess að krónan sem mynt sé illa af guði gerð. Krónan er gjaldmiðill í efnahagskerfi sem fer í gegnum sveiflur. Sumir vilja kenna krónunni um sveiflurnar en það er ekki trúverðugur málflutningur að láta að því liggja að annar gjaldmiðill myndi gera íslenskt efnahagslíf stöðugt. Skörin færist upp á bekkinn þegar talsmenn kauphallarfyrirtækja gera atlögu að krónunni. Eða er íslenskur hlutabréfamarkaður ekki dálítið sveiflukenndur?
Örvæntingin sem greip marga í kjölfar bankahrunsins líður hjá. Krónan nær sér á strik og efnahagslífið sömuleiðis. Evrópusinnar og hælbítar krónunnar munu standa berstrípaðir, rúnir trausti og tiltrú sem maklegt er.
Athugasemdir
Þetta var furðulegur lestur.
Það hefur líklega farið fram hjá þér að krónan var fáránlega vitlaust skráð allt árið 2007 a la -stýrivextir/jöklabréf...þannig að ég er ekki hissa á að við skorum hátt með meðaltekjur á mann. Langar að benda þér á eina greinina sem Þorvaldur Gylfason skrifaði um þetta mál í Fréttablaðið áður en hrunið varð þar sem hann benti á að það væri orðið eitthv. skrítið í þjóðfélaginu þegar meðaltekjurnar væru orðnar hærri en í Bandaríkjunum. Enda kom það á daginn. Erum nú meðal annars að súpa seyðið af því hvernig vitlausir ráðamenn brugðust EKKI við vandamálunum.
Þú segir að örvæntingin líði hjá og allt verði gott sól í heiði o.sv.frv. það á kannski að einhverju leiti við þína kynslóð en ekki mína þ.e. unga íbúðarkaupendur en okkur á að grilla þar sem áfallnar verðbætur eru komnar til að vera þökk sé þessarri yndislegu krónu þinni. Já ég segi þinni því hún verður ekki mín mikið lengur. Því ég ætla ekki að sætta mig við að margra ára erfiði við eignamyndun sé hirt af mér á einni nóttu meðan þín kynslóð er að semja um skuldaniðurfærslu á eignarhaldsfélögunum.
Ég mun freista minnar gæfu í eðlilegu þjóðfélagi þar sem engum dytti þessi þjófnaður í hug, mínum ungu börnum verður ekki boðið upp á það sama og mér hefur verið boðið upp á síðustu vikur af pólítík fáránleikans,viðskiptalífi ránfuglanna og fjölmiðlum strengjabrúðuleikhússins.
Sævar (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 00:23
Sæll Sævar
Athyglisvert er hvernig þú setur dæmið upp, að tiltekin kynslóð beri ábyrgð öðrum kynslóðum fremur á hruninu. Ég veit ekki hvort það gengur almennilega upp. Stjórnmálamennirnir sem bera almennu ábyrgðina á að veita viðskiptalífinu meira frelsi en það réði við eru flestir í kringum sextugt og þar yfir. Úrásarvíkingarnir sem klúðruðu svo hressilega eru í kringum fertugt, með frávikum upp og niður. Sjálfur er ég að hallast í fimmtugt.
Hvort sem maður er ungur eða gamall ber maður ábyrgð á sínum gjörðum. Það er hæpið að fela sig á bakvið kynslóðir.
Páll Vilhjálmsson, 23.12.2008 kl. 00:39
Sæll.
Kærar þakkir fyrir pistla þína sem ég les jafnan. Mér þykja skrif þín bera af í bloggheimum hér á landi.
Fróðlegt væri að fá rökstuðning þinn fyrir því að hér verði ástandið ekki jafn hrikalegt og margir, sennilega flestir, telja á næstu misserum.
Kveðja og þakkir
Karl.
Karl (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 08:23
Þjóðarbúið er algjörlega gjaldþrota og var raunar orðið það fyrir amk. tveimur árum. Allt heimsins happy talk fær ei þessarri óþægilegu staðreynt leynt. Það tókst ótrúlega lengi að ljúga þetta fallít kerfi áfram og hámarka þannig skaðann af óhjákvæmilegu og opinberu gjaldþroti.
Það er eiginlega sama hvert litið er, allir geirar eru á kafi í skuldum langt umfram greiðslugetu. Hið opinbera sjálft skuldaði 500 milljarða áður en bankarnir hrundu og var ákaflega mikilli lygaorku eytt í að dylja það. Skiljanlega hefur gengið illa að finna aðila til að lána því gjaldþrota búi. Landsvirkjun og OR skulda samanlagt yfir 500 milljarða og rekstur þeirra er því grátbroslegur brandari með tryllingslega vitlaus fjárfestingarævintýri á hvínandi kúpunni. Alþjóðleg álfyrirtæki eru þar að auki á hraðri leið á hausinn og því útséð um að hér verða ekki neinar stóriðjuframkvæmdir næstu árin amk. Líklega er að álverksmiðjum hér verði lokað einni af annarri. Sjávarútvegurinn er síðan enn eitt fallít dæmið með skuldir upp fyrir haus.
Þúsundir milljarða munu síðan falla á skattgreiðendur vegna gjaldþrots bankakerfisins og erlendir kröfuhafar munu án efa hirða leifar bankakerfisins upp í skuldir en áður verða þeir settir á hausinn öðru sinni á einu ári.
Hér er allt að sigla hratt í þrot og ég geri ráð fyrir amk. 12-15% atvinnuleysi með vorinu og algjöru hruni húsnæðisbólunnar, þó varla falli hún um 97% eins og hlutabréfamarkaðurinn. Góðar stundir.
Baldur Fjölnisson, 23.12.2008 kl. 19:18
Páll það stendur ekki steinn yfir steini í þessum pistli þínum.
Þú virðist ekkert þekkja til ESB. Ættir að kynna þer það áður en þú skrifar svona.
Árni Björn Guðjónsson (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 19:34
Sælir allir saman
Tæknilega skilgreiningin á kreppu er samdráttur efnahagsstarfsemi tvo ársfjórðunga í röð. Flestöll hagkerfi á Vesturlöndum, raunar heiminum öllum, eru þegar komin í kreppu eða á hraðleið þangað.
Bankahrunið bættist ofaná okkar kreppu. Bankarnir fóru á hausinn og nú er verið að þrífa eftir þá. Við munum ræða ítarlega bæði hér á blogginu og alls staðar í þjóðfélaginu hvernig staðið er að tiltektinni. En við erum að ræða tiltekt en ekki að íslenska hagkerfið sé komið aftur á steinöld.
Punkturinn sem ég var að reyna að vekja máls á er að við erum í efnahagssamdrætti með bankahrunsviðbót en ekki Tsjernobyl ástandi þar sem allt kvikt drepst. Útrásin var fyllerí hjá bönkum og all mörgum öðrum en þjóðin almennt og yfirleitt var ekki í stanslausu partíi. Þegar hagkerfi útrásarinnar sleppti var fólk að velta fyrir sér þessum venjulegu hlutum; spara fyrir næstu utanlandsferð, endurnýjun á bílnum o.s.frv.
Einhverjir skuldsettu sig langt um efni fram, en það hefur fólk gert áður og jafnan farið flatt á því.
Talað hefur verið um að við verðum að skrúfa lífskjörin aftur um 3-4 ár. Var neyð á Íslandi fyrir þrem til fjórum árum? Og jafnvel þó við förum aftur fyrir aldamótin síðustu? Nei, velmegunin sem við bjuggum við fyrir daga útrásarinnar var litin öfundaraugum af öðrum þjóðum.
Þegar það rennur upp fyrir fólki að við munum lifa prýðilegu lífi þegar búið er að skera af okkur fitulag útrásarinnar þá hættir fólk að láta eins og heimsendir sé í nánd.
Langtímavandamál okkar er að endurreisa orðspor Íslendinga erlendis. Það er efni í annan pistil.
Páll Vilhjálmsson, 23.12.2008 kl. 21:54
Einhver glöggur náungi hjá ríkisskattstjóra fann út að stór faktor í þessu hruni hefði verið að menn hefðu ekki skilið vel muninn á milljónum og milljörðum og er það sjálfsagt ekki fjarri lagi. Almenningur hefur lengi verið terroríseraður af fólki án raunverulegrar menntunar með gervigráður úr kranaháskólum og er enn. Í þessu skyni hafa sorglegir vitleysingar verið menntamálaráðherrar hér síðustu 2-3 áratugina og árangurinn verið eftir því. Og við sitjum uppi með það. Núna þurfa treglæsir og tregskrifandi álþingismenn, sem peningar og ruslveitur hafa logið inn á fólk, sérstaka aðstoðarmenn til að yfirfara bullið áður en það er gert opinbert enda skila allir þessir gerviháskólar sem sagt frá sér vitsmunalegu undirmálsfólki með falskar gráður sem því nemur. Kröfurnar hafa verið færðar niður til að fela atvinnuleysi og hverju sem er sturtað í gegnum þessa gerviháskóla með fyrirsjáanlegum afleiðingum eins og hver maður sér. Góðar stundir.
Baldur Fjölnisson, 23.12.2008 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.