Föstudagur, 12. desember 2008
Án krónu væri ástandið verra - miklu verra
Krónan gerir okkur kleift að takast á við gerbreyttar aðstæður eftir bankahrunið. Ef við hefðum ekki eigin gjaldmiðil, heldur evru eða dollar, væri sú leið ein fær að skera niður útgjöld ríkisins. Við þyrftum að loka skólum og biðlistar yrðu eftir heilbrigðisþjónustu. Skattar myndu hækka mun meira en nú er gert ráð fyrir. Atvinnuleysi yrði margfalt á við það sem búist er við.
Írar glíma ekki við jafn djúptækan vanda og Íslendingar. Þeir hafa ekki eigin gjaldmiðil. Samkvæmt skýrslu sem fjallað var um í Irish Times í vikunni er búist við þriggja ára samdráttarskeiði á eyjunni grænu. Einn af hverjum tíu Írum verður atvinnulaus á næsta ári og 12 prósent atvinnuleysi er spáð fyrir árið 2010.
Ólíkt Írum kusu Bretar að halda pundinu sem hefur fallið töluvert gagnvart evru síðustu mánuði. Þar í landi prísa menn sig sæla að pundið geti lækkað til að gefa atvinnulífinu kost á að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Dálkahöfundurinn Anatole Kaletsky skrifar í The Times að gengisfall pundsins boði endurreisn bresks efnahagslífs og blæs á hugmyndir um að Bretar taki upp evru. Starfsbróðir hans á The Telegraph, Martin Vander Weyer, tekur í sama streng.
Ísland kemur við sögu í báðum greinunum. Augljóst er að sá fámenni hópur í Bretlandi sem óskar sér evru lítur til Íslands með vonarglampa í augum.
Bretar reyndu á eigin skinni hvernig gjaldmiðlasamstarf við meginlandsþjóðir Evrópu leiðir til efnahagslegra hörmunga. Í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar leiddi gjaldmiðlasamstarf við Evrópusambandaþjóðir til þess að pundið var alltof hátt skráð. Svarti miðvikudagurinn árið 1992 er enn í minnum hafður. Þá kippti John Major forsætisráðherra pundinu úr sambandi við evrópumyntir. Við það hrundi verðgildi pundsins en þegar frá leið var það upphaf að endurreisn bresks efnahagslífs.
Engar líkur eru á að Bretar taki upp evru á næstu árum.
Athugasemdir
Það hefur semsagt ekkert hvarflað að þér að krónan hafi átt þátt í að koma okkur í þetta rugl til að byrja með? Þú veist að bankarnir hefðu ekkert hrunið nema vegna þess að SÍ gat ekki staðið að baki þeim. Þú semsagt telur að það sé bara einskær óheppni að "alþjóðlegir hvirfilvindar" láta miklu meir til sín taka hérlendis en víðast hvar annars staðar? Mér finnst þetta frekar billegur málflutningur verð ég að viðurkenna.
Hólmfríður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 20:54
Að kenna krónunni um bankahrunið er eins og að kenna skammbyssu um morð. Krónan er verkfæri. Við ráðum yfir því verkfæri og getum beitt því af skynsemi en líka heimskulega. Evran er verkfæri sem við ráðum ekki yfir og munum aldrei gera.
Páll Vilhjálmsson, 12.12.2008 kl. 21:00
Ég tek nú undir með þér Páll - krónan er eins og árin og "árinni kennir illur ræðari". Það er búið að kvelja krónuna endalaust undanfarin ár - og reyndar alla tíð held ég! Síðustu árin hafa vextir og gengi haldist í hendur, allt of hátt hvoru tveggja - og það var ekki krónunni að kenna. Afleiðingin eru þessi krónubréf, 400 milljarðar evra sem sitja föst inn í kerfinu öllum til ama! Það er hins vegar staðreynd að stjórnvöld geta aldrei staðist freistinguna - og þrýstinginn - til að misnota vald sitt - gengisfelling=sjálfvirk kauplækkun og sjálfvirk fiskhækkun!
Ragnar
Ragnar Eiríksson (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 21:52
Þú gleymir því að það er verið að hækka skatta svoldið og kaupmáttur er að rýrna um fjölmörg % útaf gengisfalli sem hefði verið hægt að gera með sköttum ef verðlag væri stöðugt(þá færi peningurinn í ríkið en ekki til banka, heildsala og kaupmanna). Fyrir utan það að með stöðuga mynt hefði þennslan ekki orðið svona geigvænleg á síðustu árum þar sem vinur okkar allra í seðlabankanum hækkaði og hækkaði vexti (kannski fáum við atvinnuleysi út af þeim, í evrópu eru núna vextir að lækka til að koma atvinnulífinu og einstaklingum til góða) til þess að styrkja gengið til þess að lækka hér verðbólgu með því, með þeim afleiðingum sem við horfum á núna.
Og bíddu bara að hér þurfum við að draga illa saman í mennta og heilbrigðiskerfi áður en yfir líkur. Landspítalinn fær 1,7 miljarði minna áætlað var og við erum með 160 miljarða halla á fjárlögum og erum ekki einusinni byrjuð að borga vexti af Icesave lánum og AGS lánunum.
Ragnar R (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 22:28
Ég held að þetta sé alveg rétt hjá þér Páll, við verðum fljótari að ná okkur upp úr þessu ef við höfum krónuna sem við getum aðlagað að okkar forsemdum.
Ég hef verið að hugsa að þetta er fyrsta kreppan á Íslandi sem er til orðin fyrst og fremst af heimsku og græðgi, ég sé ekki að það sé hægt að kenna krónunni eða Davíð Oddsyni um ástandið. Davíð þá verandi forsætisráðherra mótmælti því með eftir mynnalegum hætti þegar bankastjórar fóru að taka sér ofurlaun, sagði það sennilega löglegt en siðlaust og tók út 300. þús.sem hann átti í KB banka.
Ragnar Gunnlaugsson, 12.12.2008 kl. 22:37
Vandamál Íra í tengslum við að geta ekki fellt gengið á gjaldmiðli sínum er m.a. það að þeir geta ekki rýrt virði skulda sinna eins og þarf að gera á samdráttarskeiði (=kreppu). Þegar öll verðmæti falla í verði er slíkt nauðsynlegt ef unnt á að vera að ná einhverju jafnvægi á endanum.
Íslendingar eru ekkert betur settir en Írar hvað það varðar, a.m.k. ekki sauðsvartur almúginn, með sína einstefnuverðtryggðu krónu, því ekki getum við fært niður skuldahöfuðstól okkar á því samdráttarskeiði (=kreppu) sem nú ríkir.
Ég ætla ekkert að halda því fram að krónunni sé um að kenna frekar én þú gerir, en það hefur ekki reynst í okkar valdi að fara rétt með hana og láta hana vinna með okkur. Hún mun ekki heldur hjálpa okkur (aftur, alla vega ekki sauðsvörtum almúganum og ekki sem þjóðfélagi) að rétta úr kútnum. Það eina sem við munum fá út úr tilraunum okkar til að beita verkfærinu krónunni á næstu misserum verður víxlverkun verðbólgu og verðtryggingar sem þenur enn meira út þetta arfavitlausa bólukerfi sem við búum við.
Ég vil sjá hagfræðilega útlistun á bæði kostum og göllum þess að annars vegar viðhalda krónunni og hins vegar taka upp annan gjaldmiðil. Útlistun unna af teymi hagfræðinga, ekki stjórnmálamanna og ekki blaðamanna (með tiltölulega hlutlausri en e.t.v. ekki alveg fullri virðingu fyrir báðum þeim stéttum) og án þess að tilfinningar og íhaldssemi komi þar við sögu. Ég vona innilega að sú vinna sé í fullum gangi, þó hún fari ekki fram fyrir opnum tjöldum.
Karl Ólafsson, 12.12.2008 kl. 22:48
Þrátt fyrir óskhyggju margra íslenzkra Evrópusambandssinna er Seðlabanki Evrópusambandsins ekki svokallaður lánveitandi til þrautavara eins og hefðbundnir seðlabankar. Þ.e. hann getur ekki komið bönkum á evrusvæðinu til aðstoðar sem lánveitandi ef þeir lenda í öngstræti með að fjármagna sig til lengri tíma. Til þess hefur hann hvorki nægjanlegt fjármagn né heimildir í lögum og sáttmálum Evrópusambandsins. Hlutverk hans er það eitt að stjórna peningaflæði innan evrusvæðisins. Seðlabankar aðildarríkja svæðins eru þess í stað áfram lánveitendur til þrautavara eins og áður.
Á þetta hefur reynt nokkrum sinnum að undanförnu og mun vafalítið sýna sig oftar á næstu vikum og mánuðum enda alþjóðlega fjármálakreppan einungis rétt að byrja innan Evrópusambandsins. Nýjasta dæmið um þetta getuleysi Seðlabanka Evrópusambandsins átti sér stað nýverið þegar bankinn neitaði að koma Seðlabanka Luxemburg til hjálpar við að aðstoða Landsbankann í Luxemburg sem er þarlendur banki. Þetta varð til þess að Landsbankinn í Luxemburg varð að leita eftir gjaldþrotaskiptum.
Svo fullyrða íslenzkir Evrópusambandssinnar að Seðlabanki Evrópusambandsins hefði komið íslenzku bönkunum til hjálpar ef Ísland hefði verið aðili að sambandinu. Je ræt!
http://sveiflan.blog.is/blog/sveiflan/entry/743092/
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.12.2008 kl. 23:48
Mér finnst að þú þurfir að reyna að komast í samband við veruleikan. Ha?
Bjarni Kristjánsson, 13.12.2008 kl. 00:20
Ef ekki væri krónan hefði IMF hér ekkert erindi þó allt annað væri eins, og við værum ekki að byrja á að fullnýta bjargir okkar og lánamöguleika bara til þess eins að koma krónunni á flot. -Allt IMF lánið og fylgilán eru bara aðeins og eingöngu til að bjarga krónunni - þess hefði ekki þurft ef engin væri hér krónan til að bjarga.
Helgi Jóhann Hauksson, 13.12.2008 kl. 00:21
Hjörtur, já það er rétt, sumir og e.t.v. margir ESB-sinnar hafa haldið þessu fram, en ... það út af fyrir sig slær ekki öll rök allra ESB-sinna út af borðinu á nokkurn hátt. Það er þessi alhæfingarumræða a báða bóga sem fer hvað mest í taugarnar á mér, því slík umræða verður aldrei málefnaleg. Ef ekki hefði verið króna hér hefðu vogunarsjóðir varla tekið sér stöðu gegn hinum íslenska gjaldmiðli, en þó ekki hefði verið hér króna hefðu okkar eigin snillingar eflaust siglt okkur í kaf eftir sem áður í útrásarrugli sínu.
Svo eru það ekki lengur bara ESB-sinnar sem tala um það að skipta um gjaldmiðil og eru þær raddir farnar að heyrast úr ótrúlegustu hornum og afkimum þjóðfélagsins.
Karl Ólafsson, 13.12.2008 kl. 00:41
Ef allir bankar á evrusvæðinu hefðu verið eins djarft reknir og gjaldþrota bankar Íslendinga sem fóru á hausinn inni í Evrópusambandinu, þá væru allar evruþjóðir í djúpum djúpum vandræðum. Enginn gjaldmiðill getur hjálpað þeim vonlausu.
Ég vil sjá hagfræðilega útlistun á bæði kostum og göllum þess að annars vegar viðhalda krónunni og hins vegar taka upp annan gjaldmiðil.
.
Þegar kjarnorkuverið á Three Mile Island í BNA fór í China Sydnrom þá átti það ekki að geta gerst. En hver var hin eiginlega ástæða fyrir því að þetta slys varð? Jú allar þær upplýsingar sem stjórnendur orkuversins fengu voru nefnilega of gamlar. Það hafði nefnilega myndast þriggja tíma biðröð (queue) í spool til prentara, svo mikið var streymið af upplýsingum úr tölvukerfum orkuversins. En allar upplýsingar komu til stjórnenda í gegnum prentara. Þeir fengi því úreltar upplýsingarÞetta verk þótti verkfræðileg snilli. En svo fór fram verkfræðileg úttekt á slysinu.
Eins er þetta með hagfræðina. Það þarf að passa sig á henni því hún er þúsund sinnum erfiðari en verðurfræðin því veðrinu er alveg sama um hverju þú munt spá um veðrið. Það mun ekki breyta hegðun sinni vegna veðurspáa. En hagfræðingar eru mjög góðir til að útskýra á morgun hversvegna það brást sem þeir sögðu í gær. Þessutan þá eru hagfræðingar aldrei sammála um einn né neitt og þeir eiga heldur ekki að vera sammála um einn né neitt. Það er styrkurinn við að hafa marga ólíkar skoðanir. En upplýsingar hagfæðinga eru alltaf gamlar.
EN: Gjaldmiðill er fyrst og fremst P Ó L I T Í K !
OG: Evran er sennilega stærsti pólitíski gjaldmiðill sem nokkurntímann hefur verið gefinn út.
EN: notkun gjaldmiðils er aðal málið. Hvernig ferðu með gjaldmiðilinn þinn!
Það var þessvegna ákaflega gaman að lesa það sem Göran Persson sagði m.a. um Davíðssönginn á Íslandi og um hagfræðina almennt
Engin fræðigrein ofmetnari en hagfræði?
„Seðlabanki þar sem ekki er til staðar í stjórninni einhver með þekkingu á alþjóðlegum stjórnmálum er illa staddur, það er mjög mikilvæg færni. Og sá sem nú stýrir bankanum er mjög hæfur á því sviði.“
og
„Bestu fjármálaráðherrarnir sem við höfum haft í Svíþjóð hafa verið stjórnmálamenn. Þegar lögð hefur verið áhersla á að fá í embættið fólk með hagfræðilegan bakgrunn hefur það endað í ringulreið.“
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 13.12.2008 kl. 02:12
Gunnar, ég er ekki alveg að kaupa þetta með seðlabankastjóra, sorrý. Davíð er bara ekki hæfur í núverandi starf, alveg sama hversu hæfur hann var sem borgarstjóri eða forsætisráðherra (á tímabili alla vega). Og Hannes ætti að sinna kennslustörfum frekar en að eyða löngum stundum í að skrifa lofgreinar sínar um Davið í anda lofsöngva um Turkmenbashi eða Kim Il Jun.
Og skyldu Svíar hafa prófað dýralækna í embætti fjármálaráðherra? Við getum e.t.v bent þeim á hversu vel það virkar.
Heyrði annars góða sögu af seðlabankastjóra Líbýu (held ég að það hafi verið) í dag. Hann sá óveðursský á lofti og setti bönkum landsins mjög þröngar skorður og beitti m.a. 30% bindiskyldu, verkfæri sem DO virðist ekki hafa vitað að hann réði yfir (alla vega kaus hann að telja það verkfæri ekki með í nýlegri frægri ræðu), við litlar vinsældir á þeim tíma. Nú er hann dýrkaður sem Guð, því fá lönd eiga nú sterkari banka.
En það sem þú segir hér:
"Ef allir bankar á evrusvæðinu hefðu verið eins djarft reknir og gjaldþrota bankar Íslendinga sem fóru á hausinn inni í Evrópusambandinu, þá væru allar evruþjóðir í djúpum djúpum vandræðum. Enginn gjaldmiðill getur hjálpað þeim vonlausu"
er hins vegar alveg hárrétt. Annar gjaldmiðill er ekki lausn allra mála, en fjandinn hafi það (afsakið bölvið), ég held að það sé okkar skásti kostur í dag. Og ég vil enn heyra meira af rökræðum hagfræðinga um kosti og galla. Allt í lagi þó þeir séu ósammála um eitthvað, á endanum verður að taka ákvarðanir og þær mega ekki vera slíkar snilldarákvarðanir eins og þær sem Geir hefur tekið síðustu misseri: "Best að gera bara ekki neitt!". Eða þær sem Hannes Hólmsteinn hefur predikað um: "Látum markaðinn leysa sín mál" Eh, við erum búin að prófa það held ég. Markaðurinn reyndist ekki traustsins verður.
Karl Ólafsson, 13.12.2008 kl. 03:12
Yfirhagfræðingur Seðalbankans Arnór Sighvatsston tók það út í frægri grein nokkurm viku áður en Davíð Oddsson fékk löglegt yfirvald yfir orðu hans að þá þegar var löngu ljóst að við höfðum beint umtalsvert fjárhagslegt tjón af krónunni, verulegt tjón langt umfram allan mögulegan hagnað af henni. - Og svo bættist þetta við nú.
Helgi Jóhann Hauksson, 13.12.2008 kl. 03:25
Þegar maður les skrif Páls er ótrúlegt að hér sé maður á ferð að skrifa eins og íslenska krónan og breska pundið séu hliðstæðir gjaldmiðlar, í stað þess að um er að ræða annarsvegar sögulega einn sterkasta gjaldmiðil heims, gjaldmiðil breska heimsveldisins, og hinsvegar krónuna þann minnst og veikasta sem til er sem er, og svo talar hann um breska pundið sem lausn Breta á efnahagslegri bæringu í Bretlandi og breska pundið í kringum 1992 semi fordæmi gagnvart efnahagslegu hruni okkar nú og íslensku krónunni.
Veit maðurinn ekki að enn hafa ekki komist á gjaldeyrisviðskipti milli íslenskra banka og annarra í heiminum nema í gegnum Seðlabanka Íslands og þaðan í gegnum JP Morgan í New York sem einu opnu gjaldeyris-glufu okkar við umheiminn? - Og fólk sem fengið hefur þóknanir og laun með ávísunum frá Evrópskum bönkum situr með þær og fær þeim enn ekki skipt í ísl bönkunum, þ.e. fær ekki að skipta gjaldeyrinum sínum fyrir krónur - því enginn bankanna er enn með nein bein viðskipti neina erlenda banka. - Allt krónunni að þakka.
Helgi Jóhann Hauksson, 13.12.2008 kl. 04:11
Heyrði annars góða sögu af seðlabankastjóra Líbýu (held ég að það hafi verið) í dag. Hann sá óveðursský á lofti og setti bönkum landsins mjög þröngar skorður og beitti m.a. 30% bindiskyldu
Mér vitanlega er Lybia ekki á evrópska efnahagssvæðinu þar sem bindiskylda yfir 2% er kærð á sekúndubroti sem samkeppnis- og viðskiptahindrun.
Á árinu 2003 lækkaði Seðlabanki Íslands bindiskyldu sína frá 4% niður í 2%. Þessi breyting var gerð að kröfu íslenska fjármálakerfisins sem æskir þess að fá samskonar starfsskilyrði og þekkist á meginlandi Evrópu þar sem bindiskyldan er einnig 2%. Áhrif breytinga á þessum reglum má sjá af neðangreindri mynd
Kaupþing: 28. maí 2004
Greining KB banka bls. 9 af 17 (núna gjaldþrota inni í ESB)
Þessi Davíðssöngur er það heimskulegasta sem ég hef heyrt frá Íslandi. Ennþá heimskulegra en greiningar íslenskra banka á því sem þeir kölluðu "Íslandsálagið". Ykkur hefði verið nær að hlusta á Davíð Oddsson allann tímann því þá skuldaði þjóðin ekki þessa miklu peninga núna. Þetta er sennilega stærstu mistök Íslandssögunnar þessi Davíðsárátta ykkar.
Þessi fjármálakreppa sem er í gangi er að stórum hluta til hægt að skrifa á reikning Evrópusambandsins því þeir hafa markvisst unnið að því að veikja magrar þrær sterku undirstöður sem þjóðirnar hafa byggt undir bankastarfsemi landa sinna í árhundruðir.
Evrópusambandið þvingaði svoleiðis Danmörku (2005) til að afnema það sem Danir kölluðu “hensættelser til tab” í fjármálastofnunum. Þetta var gamalt fyrirkomulag sem komið var á í Danmörku í kjölfarið á bankakreppum fyrri tíma og sem tryggði það að bankar settu til hliðar fjármagn til að mæta tapi sem KANSKI gæti komið fyrir í rekstrinum. Þetta tryggði einnig að bankar voru passasamir í lánveitingum til viðskiptavina og áttu alltaf stórar fúlgur á kistubotninum.
En þetta var dæmt sem "ólöglegur ríkisstuðningur" af Evrópusambandinu því bankarnir fengu skattafrádrátt út á það fjármagn sem þeir voru skyldaðir til að leggja fyrir til að mæta tapi. En þetta tryggði einnig varkárni í útlánum og hindraði þar með bólumyndun í fjármálageiranum. Þetta hefði til dæmis komið í veg fyrir gjaldþrot Roskilde Bank.
Evrópusambandið heldur eins og Sovétríkin héldu að þau vissu allt best og gætu allt best. Alveg eins og Sósíal-Demó-Kratar halda alltaf að allt fólk sé fífl. Þessvegna er bankakerfi ESB núna í rúst. Öllum gömlum dyggðum og hefðum var hent fyrir borð.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 13.12.2008 kl. 04:15
Þetta var merkilegur pistill. Sem sé krónan sem kom okkur í vandann (með góðri hjálp valinna manna), hún er nú það besta sem fyrir okkur hefur komið.
Þessi umfjöllum er með ólíkindum. Það er einfaldlega ekkert gott við krónuna (nema ef til vill notkun hennar núna þessar vikurnar). Þetta er handónýtur gjaldmiðill, sem hefur verið að fara upp og niður milli mánaða svo skiptir tveggja stafa tölum síðustu ár, kostnaður við að hafa hana fyrir almenning og fyrirtæki er gríðarlegur, hún kemur í veg fyrir að erlend fjármálafyrirtæki komist inn á markaðinn, ársreikningar eru litaðir að gengismun sem er að stærðum sem engin leið er til að skýra fyrir bigjum og viðskiptavinum og sv.fr. Ef einhverjum hefur dottið í hug að hún sé gott dæmi til sveiflujöfnunar eða til hagstjórnar, þó vona að ég hann sé hættur þeirri hugsun, dæmin sýna að hér ráða menn ekki við það, enda ef til vill ekki við því að búast þegar gjalmiðillinn er ekki stærri en svo að meðal vogunarsjóður erlendis getur leikið sér að honum.
Þegar fyrirtæki eru nú að gera plön fyrir næsta ár er staðan þessi: það er ekki til gengi sem hægt er að treysta og nota fyrir plön, það er engin leið að sjá fyrir um vaxtastig, eftirspurnin skipir ltilu máli vegna þess að gengið er ráðandi. Þetta leiðir til óvissu sem kemur í veg fyrir að starfsmenn eru ráðnir. Eina leiðin er að plana í Evrum og byrja að feta þá braut að skipta um gjaldmiðil í rekstri fyrirtækjanna.
Svona er einfaldlega staðan í dag innan fyrirtækjanna í dag. Krónan er orsök okkar vanda (rangt skráð gengi margra síðustu ára), erfiðleikar vegna jöklabréfa þar sem léleg stjórnun í Seðlanbanka og ríkinu réð ekki neitt við neitt vegna krónunnar.
Krónan er bara ónýtt plagg.
... en kanski eftir allt er hún samt ágæt þessar næstu 3 vikur, fyrir þá sem sitja í atvinnuleysinu vegna hennar.
eval (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 09:32
Þetta held ég að sé nákvæmlega kjarni málsins.
Væri hér Evra eða dollar þá væri enginn annar kostur í stöðunni núna en gríðarlegt atvinnuleysi. Í þess stað er hægt að lækka kjörin hjá öllum með verðminni krónu þannig að allir bera byrðarnar. Ekki bara þeir sem missa vinnuna.
Hvort viljum við heldur?
Ágúst H Bjarnason, 13.12.2008 kl. 16:18
Sæll Karl.
Talandi um að rugla saman eplum og appelsínum. ESB er á hraðri niðurleið eins og þú eflaust veist ef þá þú lest þér til. Ef þú kannt ekki við þetta land, farðu þá. Í guðanna BÆNUM. Annars skaltu reyna að standa með því sem hér er, eins og eðlilegt er. Lestu þér til um landráðamenn.
Vertu blessaður,
Dagga.
Dagga (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 16:38
Dagga ?? Var það eitthvað sem ég sagði sem kallaði á þetta?
Karl Ólafsson, 13.12.2008 kl. 17:38
Gunnar, ég vona að þú ætlir mér það ekki að ég telji Lýbíu til Evrópu, eða hvað? Átti þetta að vera smá skot á mig? Ég vona ekki því ég hef ekki séð að þú leggir í vana þinn slík ódýr skot.
Við hefðum betur hlustað á Davíð segir þú? Á hvað áttum við að hlusta? Ég viðurkenni fúslega að oft hef ég heyrt í Davíð og hugsað með mér að það sé nú enn fjandi mikið vit í kallinum, en svo eftir að hafa íhugað málin aðeins betur sér maður að oft felst meira í því sem hann segir ekki.
Jú, Davið varaði við þenslu og áhrifum hennar á verðbólgumarkmið SÍ. Til þess að vega á móti þessu hækkaði hann stýrivexti. Þegar það virkaði engan veginn þá bara hækkaði hann vextina meira og enn virkuðu þeir ekki. Ég efa ekki að hann hefði kallað yfir sig mikla fordæmingu hefði hann ekki lækkað bindiskylduna á sínum tíma og jafnvel hækkað hana þá og jafnvel aftur síðar, en mig grunar að við gætum verið honum þakklát í dag hefði hann tekið þann slag. Jú, hann tók út sínar 300þk til að mótmæla fyrirlitlegri sjálftöku bankastjórnenda eins banka og fyrir það á hann skilið smá hrós, en að öðru leyti fæ ég ekki séð að hann hafi frekar efni en margir aðrir að slá sér á brjóst og segja "Ég sagði ykkur þetta, þið hefðuð betur hlustað á mig!".
Karl Ólafsson, 13.12.2008 kl. 17:56
Ágúst, krónan er ekki verðminni í heildina á fasteignalánum þorra landsmanna. Krónunum fjölgar nefnilega til að vega upp á móti verðrýrnun hennar. Hvernig stuðlar það að jafnvægismyndun á nýjan leik? Á hvern hátt er fasteignakaupandi betur settur með það?
Atvinnuleysið núna er hvað? 6-7% eða ? Og stefnir í ? 10% ? Hversu lengi verðum við að snúa því við, með krónu eða ekki krónu? Ég er nokkuð viss um að um það megi deila endalaust. Atvinnustigið sem hér ríkti á þenslutímanum var ekki raunhæft og við sjáum öll núna að það var ekki innistæða fyrir því, er það ekki?
Karl Ólafsson, 13.12.2008 kl. 18:01
Það er með ólíkindum að hér sú menn að tjá sig sem neita að sjá að ofmetin króna kom okkur í þá skuldasúpu sem við erum staddir í, en vissulega getur verið að hún gefi aukið svigrúm til að krafla sig upp. En þó með því fororði að það sé á vissan hátt eins og dópsala á bakvið tjöldin í gegnum JP Morgan bankann.
Aðalmálið er að ef við viljum vera virk í viðskiptum heimsins þá þolir iðnaður og þjónusta á Íslandi ekki slíkar salíbunur sem krónan er búin að fara og kemur til með að fara. Lítum á það sem leið okkar að stöðugleika og jafnvægi að taka þátt í samvinnu á stóru myntsvæði. Helgi Jóhann skrifar manna best um Evrópumálin enda leggja þjóðrembur ekki í hann með einföldum klisjum.
Gunnlaugur B Ólafsson, 13.12.2008 kl. 23:51
Gott að vera búinn að finna skoðanabróðir í gjaldeyrismálum hér á blogginu. Góð grein Páll
Breska pundið og ísenska krónan eru mjög sambærileg nema að Bretar trúa á pundið en Íslendingar trúa ekki á krónuna. Það sem er svo grátlegt er að það er þetta trúleysi okkar sjálfra sem hefur farið verst með krónuna.
Guðmundur Jónsson, 15.12.2008 kl. 23:38
Gunnar, ég vona að þú ætlir mér það ekki að ég telji Lýbíu til Evrópu, eða hvað? Átti þetta að vera smá skot á mig? Ég vona ekki því ég hef ekki séð að þú leggir í vana þinn slík ódýr skot.
Kæri Karl. Libya er ekki undirorpið EES samningum. Það var mitt point. Er hægt að misskilja það ? Þeir geta sennilega innréttað sína bindiskyldu eins og þeim sýnist. En það getur Seðlabanki Íslands ekki lengur því hún mun verða kærð sem ólögleg viðskipta og samkeppnishindrun á forsendum EES samninganna ef hún svarar ekki til sambærilegs í ESB.
Hagkerfi Libýu er ekki nema 6 sinnum stærra en Íslands þó svo að þar búi 6,5 m. manns
Það er kanski hótfyndið að segja frá því, en arðsömustu bankar í heiminum núna eru bankar í Afríku. En Afríka er utan tollmúra ESB og því verður Ísland að halda áfram að ausa auðhæfum sínum ofaní holu í elliheimilinu ESB - þar sem 50% kjósenda í Þýskalandi veriða sextugir eða eldri í kosningunum á næsta ári.
Lýðræðið mun væntanlega vinna stóran sigur í þessum kosningum í Þýskalandi á næsta ári og nýjungar í atvinnusköpun og lækkun skatta á vinnandi fólki munu eðlilega verða efst á óskalistanum. Og svo til dæmis aukinn innflutningur á sjúkra- og hjúkrunarliði og þjónustufólki frá .... tja . . . hvaðan ? Leikskólar og kjör ungs fólks og skattgreiðenda sem búa til velmegun í framtíðinni munu einnig og ofureðlilega verða allra efst á óskalistanum þarna í gamla heiminum. En öll þessi stórauknu aldursumsvif í hinu vel þroskaða hagkerfi Þýskalands munu væntanlega verða þess valdandi að markmið Evrópusambandsins, sem eru kennd við borgina Lissabon í Portúgal og einnig við árið 2000 - oft nefnt Lissabon 2000 markmið ESB - munu nást miklu fyrr.
En af hverju skyldi ESB vera deyjandi efnahagssvæði? Wonder why? Ég veit það, en flestir vita það ekki.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 16.12.2008 kl. 05:37
Ok Gunnar, og mitt point var bara það að óvinsæl ákvörðun reynist stöku sinnum vera sú rétta. Það á vitanlega ekki við um allar óvinsælar ákvarðanir Vandamálið er að greina á milli. Ég geri vitanlega engan samanburð á Líbýu og Íslandi eða ESB löndum.
Ég tel að Seðlabanki Íslands hefði átt að taka þann slag og lækka ekki bindiskylduna í 2% 2003, heldur halda henni í 4% og jafnvel hækka hana í 6% þá eða einhverju síðar þegar ljóst var hvert stefndi með ógnarvaxtarhraða íslensku bankanna. Ég held að þeir hefðu ekki átt í vandræðum með að rökstyðja slíkar ráðstafanir. Athyglisvert að sjá reyndar í Kaupþingsskýrslunni sem þú vísar í að bindiskylda á Íslandi var 28% í kringum 1978. Fáir sem vilja fara aftur til þess tíma geri ég ráð fyrir, en einhvers staðar á milli öfga í tvær ólíkar áttir liggur e.t.v. gullinn meðalvegur.
Það tjóar lítið að rökræða um kosti og galla ESB eða aðildar Íslands að ESB við menn sem sjá ekkert nema svartagall í ESB í heild. Mér þykja greinar þínar margar hverjar afar áhugaverðar og sjónarmið þín oft á tíðum beitt og hnitmiðuð, en mér þykir þú stundum fara offari og tapa þér í blindu áróðursstríði gegn ESB og öllu sem það stendur fyrir. Við það gjaldfellur annars á stundum ágætur rökstuðningur þinn á sama máta og gerist hjá ofurtrúuðum ESB-sinnum.
Þessi málsgrein t.d.: "En af hverju skyldi ESB vera deyjandi efnahagssvæði? Wonder why? Ég veit það, en flestir vita það ekki. "
Nú kann vel að vera að ESB sem efnahagssvæði stefni í vandamál (eh, og hver er svo sem staða okkar sem efnahagssvæðis, mætti spyrja?) og vel má vera að þú sjáir þar og vitir eitthvað sem flestir vita ekki, en ég held að það sé óvarlegt að ætla ESB í heild sinni þá blindni og firru að það muni ekki taka á þeim vandamálum sem þar munu án efa og óhjákvæmilega koma upp. Þær lausnir verða e.t.v. ekki þær lausnir sem þú vilt sjá (hverjar eru þær annars aðrar en að leggja ESB þá niður?), en gæti ekki verið að í annarri, þriðju tilraun takist að ná jafnvægi að nýju? Verður það eitthvað sársaukafyllra en það sem við stefnum í hér? Ég hef ekki svörin, en þú hefur þau e.t.v.
Karl Ólafsson, 16.12.2008 kl. 22:26
Já en elsku Karl, ég sagði ykkur jú frá ókeypis eplunum frá Evrópusambandinu til leik- og barnaskólabarna í ESB. Eitt ókeypis epli á viku í 30 vikur ári í tvö ár (en verða þó að vera evrópsk epli only). Þetta getur nú varla orðið betra þar sem ESB er ekki efnahagsbandalag heldur er það fyrst og fremst pólitískt bandalag Frakka og Þjóðverja. Þegar menn skilja það þá munu þeir kanski hætta að hafa svona miklar efnahagslegar væntingar til ESB því það er álíka gáfulegt eins og að hafa efnahagslegar væntingar til NATO.
Þessutan þá er sleikipinna áróðurinn svo aflmikill á Íslandi að ég kæmist þar aldrei að með útsöluskiltið mitt- ég er ekki nógu fjársterkur. Þeir sem unnu við að koma fjármálakerfi Íslands í líkkistuna vinna núna að nýja viðfangsefni sínu, en það er að koma Íslandi og velferð Íslands í líkkistuna, fyrir fullt og allt. Gera Ísland að Ítalíu norðursins. Hvorki meira né minna.
Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 16.12.2008 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.