Hagfræðiprófessorinn og lögmæti nýauðvaldsins

Á rómuðum borgarafundi í Háskólabíói í gær var Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor aðalræðumaður og hjó á báðar hendur. Þorvaldur gerði ekki grein fyrir sínum þætti í atburðarásinni sem leiddi til bankahrunsins og yfirvofandi þjóðargjaldþrots. Hagfræðiprófessorinn hefur í starfi og skrifum ljáð nýauðvaldinu lögmæti sem var forsenda þess að það varð að þjóðfélagsafli sem engin bönd héldu. Menn eins og Þorvaldur voru meðvirkir nýauðvaldinu. Eftir hrunið verða þeir meðvirku óðara að mótmælendum. 

 

Þorvaldur brýndi fyrir fundargestum að stjórnmál og viðskipti færu illa saman og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að einkavæða banka í hendur manna sem kunna ekki að reka banka. Áður en bankarnir féllu brugðust fjölmiðlar.

Hagfræðiprófessorinn hefur um árabil skrifað greinar Fréttablaðið, flaggskip Baugsútgáfunnar. Það er engum blöðum um það að fletta að Baugur kann ekki að gefa út blöð. Fréttablaðið þverbrýtur skráðar og óskráðar siðareglur blaðamanna og hefur orðið bert að því að ljúga blákalt að lesendum.

Sem reglulegur pistlahöfundur í Fréttablaðinu gefur Þorvaldur blaðinu faglegt lögmæti. Raunar hefur hann gengið skrefinu lengra og tekið undir með Baugsliðinu að lögreglurannsóknin sem hófst síðsumars 2002 hafi verið skipulögð af forsætisráðherra. Þorvaldur skrifaði pistil í Fréttablaðið þar sem hann sagðist hafa fengið upplýsingar frá ónafngreindum heimildamanni, sem hann hitti í flugvél, að fyrirfram væri búið að ákveða hverja ætti að ákæra í Baugsmálinu. Málsvörn Baugsmanna greip fleiprið fegins hendi og Baugsmiðlar mjólkuðu hvert orð Þorvaldar í áróðursstríðinu. Hagfræðiprófessorinn var kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglunni og bar fyrir sig að vera blaðamaður sem mætti ekki greina frá heimild sinni.

Þorvaldur er nátengdur Samfylkingunni, gott ef ekki Seðlabankastjóraefni flokksins. Samfylkingin hefur allt frá Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur 9. febrúar 2003 veitt Baugi og nýauðvaldinu pólitískt skjól. Með því að bera blak af Baugi, berjast blóðugri baráttu gegn fjölmiðlafrumvarpinu og hafa þar sigur með fulltingi forseta lýðveldisins var markvisst grafið undan þeim sem vildu reisa nýauðvaldinu skorður.

Hrunadans útrásarinnar var stiginn við undirleik manna eins og Þorvaldar Gylfasonar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Það er ekki lítið sem þú eignar Þorvaldi. Það er alltaf gaman að kíkja á blogið þitt til að komast úr raunveruleikanum.

Egill M. Friðriksson, 25.11.2008 kl. 23:29

2 identicon

Við skulum ekki að reyna "persónugera" neitt hér, það er víst "taboo". Ekki það að röksemdarfærslur þínar komist nálægt þeim sem eru fluttar gegn Davíði Oddssyni, yfirlögfræðingi Seðlabanka Íslands og brúðumeistara. Þetta minnir mig meira á þau rök að Hörður Torfa sé að mótmæla til að selja bækur..

Atli Stefán Yngvason (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 23:51

3 identicon

Og hvað er það efnislega sem er rangt í skrifum Páls sem þið 2 hér að framan getið bent á, svona til að ljá ykkar skrifum örlítinn trúverðuleikablæ?

joð (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 01:22

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Var skeptísk á fundinn vegna nærveru Þorvaldar, ekki af sömu ástæðum og þú. Hins vegar tengdi ég ekki fyrir skrif hans, (sem ég hef sennilega ekki fylgst nógu vel með) og núverandi ástand. Mér fannst hann tala vel en þetta er sannarlega umhugsunarefni.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.11.2008 kl. 02:31

5 identicon

Þetta er auðvitað hárrétt hjá Páli eins og allir vita sem fylgst hafa eitthvað með hér á landi síðustu árin.

Ég tel nú samt að þjónkun samfylkingarinnar við auðvaldið sé mun stærra mál en skrif Þorvaldar sem oft eru alveg prýðileg. Baugur, Samfylkingin og forsetinn sameinuðust t.d. um að eyðileggja fjölmiðlun á Íslandi. Enn sitjum við uppi með þann skaða. Eins ótrúlegt og það nú er eru fjölmiðlarnir enn í höndum fjárglæframanna sem settu þjóðina á hausinn.

Eins er líka rétt að vekja athygli á því hvernig Samfylkingin og Baugsmiðlarnir beittu sér í Baugsmálinu. Þar var líka unninn gríðarlegur skaði sem þjóðin situr enn uppi með eins og allir sæmilega hugsandi menn sjá nú. Baugsmálið var aðeins hluti af mun stærra máli sem nú er að koma í ljós.  

Karl (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 08:24

6 Smámynd: Sævar Helgason

"Hagfræðiprófessorinn hefur um árabil skrifað greinar Fréttablaðið, flaggskip Baugsútgáfunnar. Það er engum blöðum um það að fletta að Baugur kann ekki að gefa út blöð. Fréttablaðið þverbrýtur skráðar og óskráðar siðareglur blaðamanna og hefur orðið bert að því að ljúga blákalt að lesendum."

Gamla auð og valdastéttin átti og gaf út Morgunblaðið í um 90 ár.  Vegna auðs eigenda var blaðið stórt og mikið og hafði algjöra yfirburðastöðu á fjölmiðlamarkaði. Aldrei kom til álita að setja sértæk fjölmiðlalög vegna þessa. Mbl. var miskunalaust notað til skoðanamyndunar og aðeins þær féttir sagðar sem hentuðu eigendum og þeirra hagsmunum.- um annað var þagað- Allt þetta hefur verið nú verið upplýst. Þegar Fréttablaðið kemur á markað er það helsti styrkur þess að það er borið í hvert hús, ókeypis. En galli var á að sumra mati. það voru ekki hinir réttu auðmenn sem áttu blaðið -Gamla auð og valdstéttin fylltist skelfingu- var að fjara undan ?   Flokkurinn barðist hatramlega fyrir að sett yrðu lög á svona ósvinnu og allt yrði sem fyrr- Það misstókst.  Menn skiptust í hópa með eða á móti "Baugsmiðlum"

En fyrirlestur prófessors Þorvaldar Gylfasonar var alveg magnaður- Flokksmennirnir sátu hnýpnir við háborðið í Háskólabíoi undir ræðunni...

Sævar Helgason, 26.11.2008 kl. 09:08

7 identicon

Ég er að milklu leyti sammála þér um að Þorvaldur sé vargur í véum eins og fleiri Gylfungar. Rétt að hann var meðvirkur í útrásinni en Davíðsklíkan var það líka. Ég sagði í grein í Mogga árið 2004 að mér væri beygur af Baugi og stæði stuggur af blárri hönd. Báðar auðvaldsmafíunnar eiga sinn þátt í hruni Íslands. En á Íslandi má víst ekki gagnrýna einkaframtakið, skuldinni skal stöðugt skellt á ríkið enda sögðu þeir skoðanabræður Þorvaldur og Hannes Hólmsteinn að markaðurinn væri heilagur. Þú veist kannski að ég vitnaði í grein eftir þig í grein minni Miðjan harða í Tímariti Máls og Menningar.

Stefán Snævarr (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 11:13

8 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Svo sannarlega var Þorvaldur og öll Samfylkingin meðvirk nýauðvaldinu. Ekkert rangt í lýsingu þinn á skrifum og gerðum þessa fólks, þótt það vilji nú sveipa sig helgi sakleysisins.

Það er hins vegar rangt hjá Sævari Helgasyni að allt hefði orðið eins og fyrr, ef fjölmiðlalögin hefðu tekið gildi. Lögin voru ekki sértæk fyrir Baugsmiðla, þau hefðu gilt um Morgunblaðið eins og alla aðra fjölmiðla.

Ragnhildur Kolka, 26.11.2008 kl. 11:51

9 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Var ekki Baugsveldið sem Þorvaldur sver sig í ætt við aðal fjármagnsuppspretta Samfylkingarinnar?

Hinn sannleiksleitandi Össur Skarphéðinsson getur upplýst það ef hann kærir sig um.

(Svo ekki sé talað um Þórunni Sveinbjarnardóttur)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.11.2008 kl. 13:44

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er skemmtilega flippuð samsæriskenning. Ætli blaðberar Fréttablaðsins séu líka samsekir?

Þorsteinn Siglaugsson, 26.11.2008 kl. 15:45

11 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Athyglisverð athugasemd. Mér hefur á stundum fundist Þorvaldur tala undarlega en aldrei fyrr hef ég séð hann buslað jafn mikið og fría sjálfan sig og á þessum fundi.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 26.11.2008 kl. 17:13

12 identicon

"Með því að bera blak af Baugi, berjast blóðugri baráttu gegn fjölmiðlafrumvarpinu og hafa þar sigur með fulltingi forseta lýðveldisins var markvisst grafið undan þeim sem vildu reisa nýauðvaldinu skorður" er sagt. Hverjir voru það sem vildu reisa nýauðvaldinu skorður? Mér þætti afskaplega gott að fá að vita það því tilvist þeirra hefur algjörlega farið fram hjá mér.

Hildur Agnarsdóttit (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 17:23

13 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Þorvaldur Gylfason skrifaði þetta 2005:

"Það er ekki prívatmál einkageirans, hversu miklar skuldir hann hefur steypt sér í erlendis. Ef þungi skuldabyrðarinnar lækkar gengi krónunnar, svo sem við má búast innan tíðar, þá mun skuldabyrðin þyngjast enn frekar, og skatttekjur ríkisins munu þá trúlega dragast saman. Ríkið þarf þá að jafna metin með nýjum álögum, einnig á þá, sem ekki hafa lifað um efni fram. Einkaskuldir geta komið þjóðarbúskapnum í koll ekki síður en ríkisskuldir, því að einkageirinn er ekki óskeikull frekar en ríkið. Við þessari hættu hefur ríkisstjórnin aldrei varað, svo að eftir væri tekið. Hún hefur þvert á móti gert lítið úr áhyggjum manna af síauknum skuldum og baðað sig í skærum ljóma lífskjarabótanna – allt á raðgreiðslum. "

Mars 2006:

"Langtímaskuldirnar rufu 100 prósenta múrinn 2003 og eru nú komnar upp í tæp 250 prósent af landsframleiðslunni samkvæmt glænýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Heildarskuldir þjóðarbúsins – langtímaskuldir auk skammtímaskulda – eru enn meiri, eða 294 prósent af landsframleiðslu. Á móti þessum skuldum standa eignir, rétt er það, en þær eru fjórðungi minni en skuldirnar, svo að hrein staða þjóðarbúsins við útlönd er neikvæð sem því nemur."

Október 2006:

"Kort af eignarhaldi íslenzkra fyrirtækja úreldast hratt, því að fyrirtækin og eignarhlutir í þeim eru sífellt að skipta um hendur, svo að fáir hirða um slíka kortagerð. Samt eru of flókin og of náin víxltengsl í eignarhaldi fyrirtækja alvarlegur hættuvaldur í efnahagslífi þjóðar, því að of flókin og náin tengsl draga úr viðnámsþrótti fyrirtækjanna frammi fyrir skakkaföllum."

"Seðlabankinn hefur vanrækt að byggja upp gjaldeyrisforða sinn til mótvægis við aukningu skammtímaskuldanna. Ef erlendir lánardrottnar kippa að sér hendinni og neita að framlengja lán til Íslands eins og gerðist í Taílandi 1997, til þess þarf ekki nema nokkrar neikvæðar umsagnir erlendra bankagreiningardeilda líkt og í vor leið, þá dugir gjaldeyrisforðinn ekki til að greiða nema lítið brot af skuldunum"

Ágúst 2007:

"Tökum púlsinn. Landsframleiðsla á mann á Íslandi 2006 nam 55.000 Bandaríkjadollurum á skráðu gengi krónunnar; meðalgengið var 70 krónur fyrir dollarann það ár. Í Bandaríkjunum nam framleiðsla á mann til samanburðar 43.000 dollurum. Á þessu ári (2007) nemur áætluð landsframleiðsla á mann hér heima 66.000 dollurum á núverandi gengi, sem er 60 krónur fyrir dollarann (júlí). Dettur nokkrum heilvita manni í hug, að Íslendingar séu allt í einu orðnir miklu ríkari en Bandaríkjamenn með allt sitt? Varla. Skýringin á misræminu er auðvitað sú, að gengi krónunnar er of hátt skráð eins og jafnan fyrr og hlýtur því að eiga eftir að lækka."

"Kaup á íbúðum, húsum og bílum liggja stundum nálægt mörkum neyzlu

og fjárfestingar. Óvíst er um endursöluvirði slíkra eigna, ef gengi krónunnar fellur, heimili og fyrirtæki komast í kröggur og kranarnir stöðvast – til dæmis þau heimili og fyrirtæki, sem hafa freistazt til að taka lán við lágum vöxtum í erlendri mynt, þótt tekjuöflun þeirra sé öll í íslenzkum krónum."

"Alþingi og Fjármálaeftirlitið hefðu að réttu lagi átt að reisa skorður við vafasömum lánveitingum viðskiptabankanna, svo sem tíðkast víða í nálægum löndum, með sömu rökum og Alþingi og Landlæknisembættið reisa sjálfsagðar skorður við skottulækningum."

"Síðustu ár hefur innstreymi erlends lánsfjár í gegnum nýfrjálsa banka og til verklegra framkvæmda ýtt enn frekar undir of hátt gengi krónunnar. Ef einhver álitlegur hluti þess skammtímalánsfjár, sem hefur streymt hingað heim að undanförnu, skiptir um skoðun og streymir út aftur, fellur gengið líkt

og gerðist fyrir áratug við svipaðar aðstæður í Suðaustur-Asíu. Þar var ríkið ekki helzti sökudólgurinn, heldur einkageirinn, sem sást ekki fyrir í lántökum og framkvæmdum – og komst í þrot með illum afleiðingum. Skammtímaskuldir bankakerfisins jukust langt umfram gjaldeyrisforða seðlabankanna, svo að erlendir lánardrottnar kipptu að sér hendinni og knúðu þannig fram gengisfall"

Nóvember 2007:

"Eru bankarnir of stórir til að standa á eigin fótum eða falla? – eins og sagt var á sinni tíð um Samband íslenzkra samvinnufélaga. Ég segi nei. Bankarnir verða að standa á eigin fótum. Þeir geta ekki verið þekktir fyrir að hlaupa undir pilsfald ríkisins."

"Í annan stað eru íslenzku bankarnir nú með annan fótinn í útlöndum. Hví skyldu íslenzkir skattgreiðendur þurfa að ábyrgjast viðskipti bankanna erlendis? Útrás bankanna til annarra landa hlaut að fela í sér afsal ríkisábyrgðar. Þessu afsali þurfa bankarnir nú að gefnu tilefni að gangast við vafningalaust. Í þriðja lagi getur aðeins ein björgunaraðgerð komið til greina af hálfu ríkisins, skyldu bankarnir komast í kröggur og kalla eftir hjálp. Það er tímabundin endurþjóðnýting af því tagi, sem grípa þurfti til í bankakreppunni á Norðurlöndum 1988-93 og nú síðast fyrir nokkrum dögum á Bretlandi. Hafi bankarnir farið sér svo óðslega, að þeir reynist „hreinlega gjaldþrota,“ eins og Jón Ásgeir Jóhannesson ýjaði að, hlýtur einkavæðing þeirra að teljast hafa mistekizt svo hrapallega, að nauðsyn beri til að koma bönkunum í betri hendur og draga núverandi eigendur þeirra til ábyrgðar frekar en skattgreiðendur eða aðra saklausa vegfarendur."

Þetta er hluti af aðvörunum Þorvaldar. Þarna gagnrýnir hann bæði mikla skuldasöfnun bankanna og að hvorki ríkið né Seðlabankinn hafi veitt neitt aðhald. Það hefur nú þegar komið fram að Seðlabankinn gat beitt sér fyrir með því að hækka bindiskyldu og hafa áhrif á lausafjár bankanna. Þrátt fyrir það vill seðlabankastjóri þó meina að Seðlabankinn hafi ekki haft nein völd.

Þorvaldur hefur áfram gagnrýnt núverandi stjórnvöld fyrir þeirra aðgerðarleysi þrátt fyrir að þú teljir hann vera nátengdum Samfylkingunni. Ef skoðaðar eru þessar greinar sem hann hefur skrifað sést svart á hvítu að meirihluti þess er nú þegar búinn að gerast. Ég sé hann hvergi hampa fyrrverandi eigendum bankanna eða hvernig útrásinni var viðhaldið - þvert á móti gagnrýnir hann skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja (og þar með banka) síðustu ár sem er nú að koma í bakið á Íslendingum.

Það eina sem fram kemur í grein þinni er spuni. Spuni sem á að tryggja að gamlir og úreltir Sjálfstæðismenn nái að halda völdum.

Egill M. Friðriksson, 26.11.2008 kl. 17:26

14 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Páll minn, þessi færsla þín er helgeggjuð! Bókstaflega tjúlluð! Hatur þitt á Baugi og Samfylkingunni er að leiða þig í alvarlegar ógöngur - og þú ert að verða eigin málstað allra skaðlegastur. Það er mín skoðun. Gaman væri að þú svaraðir kommentunum að ofan, sérstaklega um blaðberana!

Þú ert þó ekki farinn að drekka vatnið hans Jóns Ólafssonar!!?

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.11.2008 kl. 20:22

15 identicon

Það stendur þarna að ofan við nafnið þitt að þú sért BLAÐAMAÐUR, ég held að þú ættir frekar að vera kallaður spunameistari. Fyrir menn sem eru ekki útúrsýrðir af hundúreltri flokkspólítík sjálfstæðisflokksins sjá það með lestri síðustu árin, eins og síðasti ræðumaður tekur svo vel saman, að það sem þú skrifar er alger vitleysa.

Ef sjálfstæðismenn eru virkilega farnir að ganga svo langt í vörnum að spinna og ljúga vegna getuleysi þingmanna sinna held ég að þeir ættu bara að fara að pakka og snúa sér að einhverju öðru.

Þórður Ingi Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 20:37

16 identicon

Það er lítið á langloku eða tjúll kommentum að græða, sem hrekja hvorki eitt né neitt af því sem Páll skrifar. Segja aðeins hvaða stjórmálaflokk þessir aðilar tilheyra og þá í hvaða átt þeirra hatur beinist.

Þorvaldur Gylfason er Samfylkingarmaður eins og þeir gerast verstir, og hefur ekki farið dult með hatur sitt á Sjálfstæðismönnum og sér í lagi Davíð Oddssyni, og þá helst í því starfi sem hann er ítrekað orðaður við sem arftaki hans.

Þorvaldur Gylfason veit jafn vel og aðrir Samfylkingarmenn sem hafað tjáð sig hér að óvinur þjóðarinnar No.1, Jón Ásgeir og Baugur er helstu stuðningsaðilar flokksins þeirra og jafnframt sagður í raun eigandi hans.

Þorvaldur Gylfason hefur ítrekað gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir stefnu þeirra og Seðlabankans í fjármálastjórnun þjóðarbúsins, og einn að mest hvernig tökum þau tóku gamla Glitnisbanka, sem og herskari annara hagfræðisnillinga.

En aðeins Davíð Oddsson og stjórnvöld hafa vottorð nýaðlaðs Nóbelsverðlaunahafa í Ameríku, sem sagði í grein ekki fyrir löngu að í málefnum gamla Glitnisbankans hefðu menn farið hárrétt að og gert það eina rétta í stöðunni.

Toppið það!

Handviss þykist ég samt vera um að beturvitar úr bloggheimum, sem og Þorvaldur Gylfason í broddi fylkingar hagfræðisnillinganna, telja sig vita mikið betur.

joð (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 20:52

17 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hefur Þorvaldur Gylfason einhvers staðar lýst yfir stuðningi við Samfylkinguna? Er hann flokksbundinn í Samfylkingunni? Er EITTHVAÐ sem tengir hann Samfylkingunni órofa böndum?

Helst er það ættin. Sonur Gylfa Þ. Gíslasonar, bróðir Vilmundar Gylfasonar. Gæti bent til þess að hann hafi Kratísk gen í blóðinu - en so what? Þrjátíu og eitthvað prósent þjóðarinnar "heldur með" Samfylkingunni - eru það þá allt Baugsslefandi landráðamenn?? Er fólk átómatískt illmenni á vegum Baugs við það að vilja styðja við lýðræðislega jafnaðarmennsku?

Og eru allir sem skrifa í Fréttablaðið, þótt oftar en einu sinni sé, raving lunatics í vinnu hjá Baugi? Getur verið að það sé fullt af fólki sem skrifar "reglulega" í Fréttablaðið sem hefur engan áhuga á því að vera kallað Baugsliðar? 

Páll Vilhjálmsson skrifaði reglulega í málgagn Alþýðubandalagsins. Er hann þá ekki ógeðslegur Kommi? Páll Vilhjálmsson skrifaði reglulega í Helgarpóstinn. Er hann þá ekki ógeðslegur Kommúnískur æsifréttamaður? 

Ég hef verið blaðamaður á málgögnum Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins, á "æsifréttablöðunum" Helgarpóstinum, Pressunni og DV, á Degi-Tímanum, sem flokkaður var undir framsóknarmennsku, skrifaði þar "reglulega" og svo var ég á RÚV Sjónvarpi, sem kallað er Bláskjár - hvaða ógeðslega ófreskja er ég þá?

Svona þvæla þjónar ekki málstað færsluhöfundar, svo mikið er víst. Ef ég ætla að koma viðhorfagrein á prent er líklegt að ég myndi leita þangað sem lesturinn er mestur og auk þess minnsti biðtíminn eftir birtingu. Það er það eina sem skiptir máli, ekki hver er eigandi fjölmiðilsins, enda teldi ég að það væru orð mín sem skiptu máli en ekki eignarhaldið á "pappírnum". Mér dytti ekki í hug að álykta að fólk í andlegu jafnvægi myndi fara að stimpla mig t.d. Baugsliða og Samfylkingarmann (ég er óflokksbundinn og tilheyri engum flokki) bara af því að ég veldi kannski Fréttablaðið umfram Morgunblað (Árvakurs og Bjögganna!!). 

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.11.2008 kl. 23:17

18 identicon

joð: Ertu svona "blog troll"? Það svo sem skiptir engu máli, þú ert ekki samræðuhæfur hvort sem er :)

Einu rökin sem þú kemur með eru : "það er ekki hægt að hrekja það sem Páll segir því allir hérna eru kommar eða vinir Jón Ásgeirs!"

Atli Stefán Yngvason (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 23:36

19 identicon

Páll var virkur Samfylkingarmaður seinast þegar ég vissi, svo ég treysti honum ágætlega til að segja okkur hvort að td. Þorvaldur er það líka. Sem er að vísu eitthvað sem er og var ágætlega þekkt. Eins og um svo marga aðra sem deila þeirri ágætu stjórnmálaskoðun með honum.

En endileg fáðu skriflega yfirlýsingu frá Þorvaldi ef þú efast og krefst þess til sönnunar.

Páll að ég held var Alþýðubandalagsmaður, en hann getur betur sagt þér allt um hans stjórnmálaskoðanir fyrr og nú.

Hér koma þín orð:

" Hatur þitt á Baugi og Samfylkingunni er að leiða þig í alvarlegar ógöngur "

Hvað fær þig til að kasta fram fullyrðingu eins og að hann hati einhvern?

Hefur hann sérstaklega gefið út þá yfirlýsingu?

Hafa td. þín gagnrýnin skrif þá sjálfvirkt með slíkar tilfinningar að gera?

Hvað hefur gagnrýnin skrif Páls eitthvað með hatur að gera, ef td. skrif Þorvaldar hafa ekkert með slíkt að gera?

Gæti velvilji ekki hvatt menn til að tjá sig líka á gagnrýninn hátt?

Þú ert væntalega svona ritskjækja, þas. ef þú hefur skipt jafn oft um skoðanir

á mönnum, málefnum og þinni sannfæringu og vinnustaðirnir eru margir. "Only in it for the money" heitir það víst á útlenskunni.

Nema náttúrulega að þú ert bara blaðamaður sem hefur þurft að taka fullt tillit til skoðana og hagsmuni eigenda eins og alkunna er að menn verða að gera í því faginu seinustu misserin. (Ekki illa meint.)

En auðvitað er alger óþarfi að vera að þessum endalausu flokkun manna eins og þú bendir svo réttilega á. Ég er td. óflokksbundinn og verið sem slíkur alla tíð. Og ég kaus ekki Sjálfstæðisflokkinn í afliðnum kosningum.

Ég ber mikla virðingu fyrir manni eins og Páli sem leyfir sér að segja það sem hann hugsar, og sem slíkur var einn af örfáum sem treysti sér til að gagnrýna Baugsmenn þegar aðrir huglausari þögðu, en hafa hátt núna.

Það þarf ekki að draga hann og þá í þann auma dilk að einungis um hatur til Baugsmanna er að ræða sem ræður ferð. Lít á það frekar sem föðurlandsást.

Þú átt líka mína virðingu að þora að segja þína meiningu, þótt það hugnist ekki öllum.

. . . . .

Atli. Takk fyrir að undirstrika svona ágætlega málefnafátækina sem lýsti sér vel í djúpu innleggi þínu um að "Davíð er miklu verri en...", sem eitthvað svar við skrifum Páls.

joð (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:18

20 identicon

Viðbót:

Atli. Getur þú ímyndað þér hvers konar sjúkur drullusokkur lætur slíkan viðbjóð frá sér á bloggsíðuna sína?

"Mér finnst ljótt að segja það, en ég vona að Davíð Oddsson sé kominn með krabbamein aftur, því það er það eina sem afsakar hegðun hans í efnahagskreppu Íslendinga og ræðu hans í gær."

http://atliy.blog.is/blog/atliy/entry/716943/ (Atli)

Að vísu hef ég spurt þig áður af sömu spurningu að ég tel miðað við barnaleg viðbrögðin.

joð (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:28

21 identicon

Vona að þessi virki, ef ekki þá er hægt að klikka á undirskrift Atla.

http://atliy.blog.is/blog/atliy/

joð (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:31

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Joð. Það er einmitt frekar af velvilja sem ég er að hnýta í Pál, eða hnippa í hann, af því að mér finnast skrif hans hafa farið útfyrir skynsamleg mörk í þessari færslu. Við erum fyrrum starfsfélagar og ég þekki hann ágætlega. Pilla mín um "hatur" er kannski nokkuð sterk og einkum í eyru fólks sem hefur ekki fylgst með "reglulegum" skrifum Páls nú um árabil. Þannig að þú kynnir þér bara þau skrif hans, Joð, og þá grípur þú hvað ég meina.

Ég er nefnilega eins og hann afar krítískur á tiltekna athafnamenn og auðjöfra og ég er eins og hann afar krítískur á tiltekna pólitíkusa og samtök. Ég er bara ósammála honum um hversu ofsafengin krítíkin á að vera og hversu víða samtryggingarspilling nær. Hann einbeitir sér að Baugi (og Jóni Ólafssyni um langt skeið) og Samfylkingunni. Ég er krítískur á Baug en líka mörg önnur fyrirtæki og forstjóra. Og ég er krítískur á Samfylkinguna, en sé miklu meiri þjóðfélagslega vá í fyrri og yfirstandandi gjörðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem í helmingaskiptasambandi sínu mótuðu þá formúlu sem leiddi til Hrunsins Mikla.

Þegar ég segi að Páll hafi í þessari færslu gengið of langt þá er ég kannski fyrst og fremst að hafa áhyggjur af því að fólk (og þá annað en téður Þorvaldur Gylfason) sé brennimerkt af því að það skrifar í tiltekin fjölmiðil og/eða að það tilheyri tiltekinni stjórnmálaskoðun. Það má benda á að um nokkurt skeið skrifaði Hannes Hólmsteinn reglulega í Fréttablaðið - er hann þá Baugsmaður? Páll, ég og aðrir skrifum hér reglulega á bloggi Moggans; erum við þá Bjöggamenn?

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.11.2008 kl. 00:44

23 identicon

Takk Friðrik. Það er gott og gilt að minna menn á þegar við höldum að það gæti gert gagn. Enda á þessi vettvangur að nýtast ma. sem slíkur að mínu mati, og þá án dónaskapar og leiðinda, sem er jú full oft raunin. Hitt er bara skemmtilegt þar sem fólk er alveg hætt að hittast við eldhúsborðin og rökræða um menn og málefni. Því miður. Les ykkur Pál reglulega og hef haft bæði gagn og gaman af, enda báðir afar ritfærir menn með sterkar skoðanir.

Atla les ég aldrei aftur.

joð (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:56

24 Smámynd: Egill M. Friðriksson

"Þorvaldur Gylfason veit jafn vel og aðrir Samfylkingarmenn sem hafað tjáð sig hér að óvinur þjóðarinnar No.1, Jón Ásgeir og Baugur er helstu stuðningsaðilar flokksins þeirra og jafnframt sagður í raun eigandi hans.

Þorvaldur Gylfason hefur ítrekað gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir stefnu þeirra og Seðlabankans í fjármálastjórnun þjóðarbúsins, og einn að mest hvernig tökum þau tóku gamla Glitnisbanka, sem og herskari annara hagfræðisnillinga.

En aðeins Davíð Oddsson og stjórnvöld hafa vottorð nýaðlaðs Nóbelsverðlaunahafa í Ameríku, sem sagði í grein ekki fyrir löngu að í málefnum gamla Glitnisbankans hefðu menn farið hárrétt að og gert það eina rétta í stöðunni."

Þetta er ekkert mjög erfitt Joð. Þú einfaldlega lest textann sem ég afritaði úr skrifum Þorvaldar og þá sérðu svart á hvítu að það sem hann varaði við hefur nú gerst. Hann getur verið Samfylkingarmaður, Sjálfstæðismaður eða kommi mín vegna - en það breytir ekki þeim orðum sem hann setti fram allavega 3 árum áður fyrir hrun bankanna sem hafa algjörlega ræst!

Ég veit ekki hvort Baugsmenn séu persónulegir stuðningsaðilar Samfylkingarinnar. Þú berð fram þá skoðun án raka sem er í fínu lagi, það gerir það að verkum að færri taka mark á þér. En ef svo er, þá þykir mér fyndið að ritstjóri Fréttablaðsins sé Sjálfstæðismaður (nema eitthvað hafi breyst). Og Jóhannes, faðir Jón Ásgeirs hefur verið yfirlýstur Sjálfstæðismaður.

Hvað varðar Glitni og nóbelsverðlaunahafann Paul Krugman. Ég er ekki hagfræðingur en það er nokkuð augljóst að allar lánalínur stoppuðu á Landsbankann eftir að Glitnir var þjóðnýttur. Það segir mér bara að sú leið hafi verið mistök. Hún var eflaust ekki auðveld ákvörðunin að taka og umdeild, en almennt eru hagfræðingar á því að sú leið sé mistök.

Krugman skrifaði 2 línur á blogið sitt þar sem hann segist vera sammála því að ríki taki ekki bara skuldir heldur líka eignir ólíkt því sem var að gerast í Bandaríkjunum. Hvort hann hafi kynnt sér bankakerfið hérlendis veit ég ekki og því set ég fyrirvara við þetta 2 línu blog hans! En fyrir utan það er enginn hagfræðingur fullkominn, og þó þú fáir nóbelinn þá er ekki þar með sagt að skoðun þín sé alltaf rétt. Og þetta breytir engu um þá gagnrýni sem Seðlabankinn hefur fengið frá þeim hagfræðingum sem ég taldi upp.

Egill M. Friðriksson, 27.11.2008 kl. 01:28

25 identicon

Egill. Akkúrat enginn hagfræðingur er fullkominn, og hagfræði er víðs fjærri að vera einhver stóri sannleikur. Ég ætla að veðja á Nóbelsverðlaunahafann frekar en alla íslenska hagfræðinga til samans.

Kannski þurfa snillingar ekki mikinn tíma að sjá hvað er rétt eða rangt, án þess að ég hafi hugmynd um hversu mikið maðurinn setti sig inn í mál hér. Mér er samt til efs að menn fái Nóbelinn í hagfræði með að blaðra einhverja vitleysu ábyrgðarlaust. Menn taka mark á honum býst ég við, sem virðist omvent við Þorvald Gylfason, eins og glögglega hefur komið í ljós. Því miður.

En menn breyta ekki fortíðinni með að segjast hafað vitað allt áður, og það segir heldur ekkert um hvort að þeir hafi eitthvað með að segja hvað skal gera núna? Ekki veit ég.

Kannski skaut Þorvaldur allt undan sér þegar hann ma. hugnaðist Baugsmönnum giska vel, með söguna um tveggja manna talið um borð í flugvélinni, þar sem hann þóttist hafað fengið útlistun langt á undan öðrum hverjir yrðu saksóttir í Baugsmálinu (sem heldur þurfti ekki mikla sérfræðiþekkingu að sjá fyrir um), án þess að getað sannað fullyrðingar sínar?

Kannski er hann vanmetinn snillingur?

"Lobbi" á Baugsmiðlinum Útvarpi Sögu segist líka hafða séð allt fyrir í mörg ár. Og enginn tók heldur mark á honum. Ekki batnaði það þegar einhver benti á grein sem hann skrifaði fyrir ári síðan sem sýndi að þá var hann á allt annari skoðun en þeirri sem hann segist vera í dag.

Kannski fer pólitík mjög illa með fræði eins og hagfræði, þegar hún er látin ráða för?

Hversu margir skyldu þeir annars hafa verið hagfræðingarnir að störfum í öllum bönkunum, Seðlabankanum og stórfyrirtækjunum sem núna eru með allt niðrum sig af því að ekki sáu þá þetta ekki fyrir? Mas. ég hef alltaf fullyrt að þessi blessuðu útrásarvíkingastunt væru hreinar og beinar blekkingar og Jón Ásgeir loddari dauðans, og að þetta myndi gera landið á endanumað því NÁSKERI sem það er. Án hagfræðimenntunar. Ég var voða voða vitlaus og Baugshatari að auki, ekki síst vegna þess að ég vissi að heiðarleikinn væri ekki fastur ferðafélagi gulldrengs í einkaþotunni.

Lánalínur voru löngu ónýtar áður en Glitnir hrundi. Með íslenska bankakerfinu hafði verið fylgst vel með erlendis frá og margir búnir að sjá í gegnum ruglið og það fyrir nokkrum árum. Seðlabankinn gerði örugglega stórkostleg mistök að hafa ekki stoppað þá af strax þegar þeir sáu í hvert stefndi. Seinast í febrúar. Og enn stærri hefðu mistökin orðið ef bankinn hefði farið eftir ráðleggingum Þorvaldar og fleiri um hvernig æatti að meðhöndla Glitnismálið.

Hvers vegna Seðlabnkinn treysti sér ekki í að stoppa þá strax, hlýtur eftir að verðað ljóstrað upp fyrr en seinna, og ekki kæmi mér á óvart að skýringin tengdist einmitt Samfylkingunni og Jóni Ásgeiri einn að helst. Öll sagan er örugglega ekki sögð.

Jón Ásgeir er líka sagður Sjálfstæðismaður, ef það segir eitthvað? Það breytir ekki því að stórfyrirtæki hafa styrkt alla flokka til að tryggja sér gott veður hjá hverjum þeirra. Baugur líka, þótt sumir nutu betur gjafmildinnar en aðrir. Sama hafa þeir gert fyrir einhverja frambjóðendur í ýmsum flokkum. Nótulaus viðskipti. Á þessu þrýfst landlæg spillingin og hefur alltaf gert.

Ætli það sé einhver tilviljun hvernig er komið fyrir þjóðinni? Sýnist pistill Páls útlista ágætlega hluta vandans.

joð (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 02:44

26 identicon

Mér finnst einna áhugaverðast í pistli Páls að hann minnist ekki einu orði á innihald greina Þorvaldar - það eitt að þær hafi birst í Fréttablaðinu á víst að duga til að dæma hann sem einhvers konar útrásarklappstýru, eða hvað það er nú sem Páll er að reyna að klína á hann.

Samantekt Egils M. Friðrikssonar sýnir síðan vel af hverju Páll hefur engan áhuga á að ræða skrif Þorvaldar efnislega - það passar ekki við áróðurinn.

P.S. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lengi vel skrifað greinar sem birst hafa í Fréttablaðinu. Hvað segir sú staðreynd, ein og sér, um hann? Ræðið.

Salómon (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 02:53

27 identicon

joð: Tilgangur greinar minnar var ekki að óska þess að Davíð fengi krabbamein, heldur til að benda á það að mistök hans í embætti seðlabankastjóra væru svipuð mistökum hans í veikindum sínum um árið. En þú getur auðvitað (mis)skilið þetta á þinn hátt og nýtt þér þetta sem rök gegn mér og ráðist á persónu mína. Ég var líka búinn að svara athugasemd þinni. Þú er flottur gaur, gangi þér vel að blogga.

Atli Stefán Yngvason (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 12:41

28 identicon

Atli. Færsuna þína las ég ekki lengra en þar sem þú óskaðir "að Davíð væri kominn með krabbamein". Og síðan hef ég ekki kynnt mér meira þín skrif, né séð þá svarið sem þú hefur þá væntalega skilið eftir fyrir mig.

Það sem er svo spennandi við vetvang eins og þennan eru einmitt skoðanaskipti.

En samt verða menn að gæta þess að gera það á eðlilegan og heiðarlegan hátt.

Þú átt að gagnrýna það sem þér þykir vera gagnrýni vert. Og Davíð á örugglega skilið góða gusu af henni.

Mitt hlutverk er ekki að ráðast á þig og eða gera tortryggilegan. Þú gerir það sjálfur með svona skrifum. Og örugglega getur gert mun beittari og betur á hófstilltari hátt. Páll og Friðrik Þór eru góð dæmi um slíka penna.

Óska þér góðs gengis í bloggi sem öðru sem þú tekur þér fyrir hendur.

Kv.

joð (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 14:08

29 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Umræður vegna færslunnar eru athyglisverðar og ber að þakka þær.

Nokkur atriði, ef ég gleymi einhverju stóru verð ég ábyggilega minntur á það, sem má taka fram í tilefni af athugasemdum.

Ég var í Alþýðubandalaginu og stofnfélagi Samfylkingarinnar. Ég var fyrsti formaður Samfylkingarfélags Seltirninga. Ég sagði mig úr Samfylkingunni fyrir síðustu kosningar. Aðalástæðurnar úrsagnar eru tvær: Annars vegar fylgisspekt Samfylkingarinnar við Baug, í fjölmiðlafrumvarpinu og fleiri málum, og hins vegar Evrópuáherslur Samfylkingarinnar.

Í blogginu að ofan reyni ég að benda á að menn eins og Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við HÍ og málsmetandi maður, gáfu Baugi lögmæti með beinum og óbeinum stuðningi. Baugur er, þegar allt kemur til alls, fjölskyldufyrirtæki feðga sem kalla ekki allt ömmu sína í viðskiptum og viðskiptasiðferði. Með hjálp Þorvaldar og fjöldamargra annarra, Hreins Loftssonar o.s. frv., varð Baugur þjóðfélagsafl. Þeir sem gerðu Baugi kleift að verða þjóðfélagsafl bera ábyrgð. Ef þeir hinir sömu ætla núna að mótmæla stöðu mála, sem hefur orðið til vegna Baugs et. al., ættu að stunda í leiðinni einhverja sjálfsgagnrýni.

Blaðberar Fréttablaðsins bera selja vöðvaafl sitt til útgáfunnar. Blaðamenn, pistlahöfundar og ritstjórar verða að mæta með dómgreindina í vinnuna en ekki blaðberar. Siðareglur taka til dómgreindar ekki vöðva.

Lifið heil

páll 

Páll Vilhjálmsson, 27.11.2008 kl. 21:15

30 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Leiðrétting á síðustu málsgrein: Orðið bera á að falla niður. Setningin er rétt svona: Blaðberar Fréttablaðsins selja vöðvaafl sitt til útgáfunnar.

Páll Vilhjálmsson, 27.11.2008 kl. 21:22

31 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Þakka þér fyrir tilsvörin Páll. Þetta með vöðvana er fínt svar.

Helst að þú hafir gleymt spurningunni um hvort það geri Hannes Hólmstein Gissurarson að Baugsliða að hafa skrifað reglulega í Baugsmiðilinn Fréttablaðið. Nema þú túlkir greinar hans sem dómgreinarlaust vöðvaafl, sem svosem kemur til greina!

Og hitt, hvort þeir sem skrifa reglulega í Moggann séu Bjöggaliðar.

Þess utan sé ég að þú horfir stöku sinnum til annarra flokka en Samfylkingarinnar, sbr. undirtekt þína undir athyglisverða grein Gunnars Axels í dag, en þar er skotið á Árna Mathiesen fjármálaráðherra - og er Árni þó hvorki í Samfylkingunni né talinn til hersveita Baugs.

Friðrik Þór Guðmundsson, 28.11.2008 kl. 12:58

32 identicon

Satt að segja fannst mér þegar Hannes Hólmsteinn fór að skrifa reglulega í Fréttablaðið, að hann væri eiginlega búinn að eyðileggja þau skýru óskráðu mörk sem giltu áður. Var eins og hvítur hrafn á hrafnaþingi.

Hann held ég hafi ekki byrjað á skrifunum fyrr en fremur seint, og þá töluvert eftir að Þorsteinn Pálsson kom að ritstjórninni, sem mörgum þótti að væri til þess að reyna að brúa gjánna á milli manna eins og Hannesar og blaðsins.

joð (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband