Sunnudagur, 9. nóvember 2008
Mótmæli, leiðtogar og lukkuriddarar
Laugardagsmótmælin á Austurvelli eru sjálfsagður réttur þeirra sem að þeim standa og taka þátt. Að sama skapi er sá litli hópur sem notar tækifærið til skemmdarverka utan laga og réttar. Um það hljóta flestir að vera sammála.
Ég hef ekki tekið þátt í mómælunum, sumpart vegna þess að ég hef ekki áttað mig á hverju er verið að mótmæla og að hluta vegna þess að reiður mannfjöldi hefur óþægilega návist. Ég hef þó reynt að fylgjast með umræðunni um mótmælin. Nokkurt púður fer í að ræða hversu margir mættu.
Maður spyr sig: Skiptir máli hvort þeir eru tvö þúsund eða fimm þúsund sem mótmæla? Líður þeim betur sem neyta réttar síns til að mótmæla ef fleiri mæta í gönguna? Er þetta uppákoma hvers réttmæti ræðst af fjölda?
Mótmælin hefðu þótt misheppnuð ef aðeins örfáar hræður hefðu mætt en marka þáttaskil ef fimmtíu þúsund manns hefðu stillt upp. Hvorugt gerðist. Tvö þúsund manns er virðulegur fjöldi og ekkert sem skipuleggjendur þurfa að skammast sín fyrir. Fjöldi þátttakenda gæti skipt máli ef mótmælin krefðust tiltekinna úrbóta og að gripið yrði til ákveðinna aðgerða. Eftir því sem best verður séð er slíku ekki til að dreifa.
Laugardagsmótmælin virðast vera regnhlífarsamtök Líklega kennir þar ýmissa grasa. Kannski er mikilvægasta hlutverk mótmælanna að bjóða samkennd þeim sem þurfa útrás fyrir tilfinningar sínar. Skipuleggjendur vinna þarft verk að búa til þennan vettvang og reyna eftir bestu getu að halda mótmælum innan marka laga.
Enn á eftir að koma í ljós hvort mótmælin leiði til varanlegra pólitískra breytinga. Íslenska flokkakerfið er sveigjanlegt eins og atvinnulífið. Ef það verður í samfélaginu til hópur fólks sem telur sig þurfa málssvara á þingi er tiltölulega einfalt mál að skipuleggja sig og stofna stjórnmálaflokk. Kosturinn við lýðræði á lítilli eyju er að stjórnmál eru í seilingarfjarlægð hverjum þeim sem hefur áhuga. Seinni tíma stjórnmálasaga staðfestir þetta.
Stundum leiðir kreppuástand fram sanna leiðtoga. Jafnframt er deginum ljósara að hverskyns lukkuriddarar sjá tækifæri í upplausninni sem nú ríkir. Við skulum muna að leiðtogaefni eru ekki á hverju strái en lukkuriddarar eru margir.
Athugasemdir
Hef farið á tvo laugardagsfundi.
Frá mínum bæjardyrum séð eru ræðurnar sem þarna eru fluttar ansk mikil sáluhjálp reiðu fólki vegna þess hvernig komið er.
Enginn hefur axlað ábyrgð, enginn hefur sagt af sér, enginn hefur verið rekinn.
Ræður Einars Más Guðmundssonar eru þess eðlis að þeim ætti að sjónvarpa beint til allra landsmanna. Hann skammar ráðamenn og bankamenn og stjórmálamenn og hlífir engum.
Það virkilega róar meðan beðið er eftir að hausar taki að fjúka.
101 (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 17:49
Það voru amk. 4000 manns þarna Páll- ekki trúa fjölmiðlunum og löggunni! Í annan stað hafa þessi mótmæli verið að þróast á lýðræðislegan hátt - kröfurnar eru að verða skýrari - ákveðnari: Burt með ríkisstjórnina. Hreinsa til í kerfinu. Enga finnska leið. Koma með nýjar hugmyndir. Fara nýjar leiðir. Þú ættir bara að mæta næst.
María Kristjánsdóttir, 9.11.2008 kl. 18:00
Sæll Páll.
Mótmælin í gær voru frábær sérstaklega ræðurnar hjá Sigurbjörgu og Einari Má- jafnast á við bestu pistlana þína í andagift. Kolfinna og foreldrar ekki sjáanlegir og því lítið um lukkuriddara.
En hver hefur sinn háttinn á við mótmæli - blogg, mótmælafundir, fánahylling Bónusgríssins, sniðganga ákveðinna verslana o.s.frv.
En Páll, á tímum sem þessum þar sem ríkisstjórnin, stofnanir hennar og fjármálagæludýrin þeirra hafa kollsteypt landinu og allt stefnir í opnun stærsta skuldafangelsins sögunnar með tiheyrandi frelsissviptingju og einangrun þá verður hver einasti kjaftur að mótmæla og koma þessu óhæfa liði frá. Aðeins þannig getum við horft framan í okkur sjálf og aðrar þjóðir í framtíðinni. Af hverju fáum við ekki neyðarlán eins og t.d. Úkraína? Jú, af því að sama liðið er enn við stjórnvölinn og er algjörlega óhæft í samningum t.a.m. varðandi útfærslu á því hvernig við komumst á sómasamlegan hátt frá IceSlave landráðunum. Við verðum að þiggja milligöngu vinaþjóða um lausn þessara mála.
Okkur hjónunum sem höfum nú talist frekar blá hingað til er nóg boðið. Ef við gerum ekki neitt er fyrirsjáanlegt fimm til tíu ára atvinnuleysi m.t.h. þunglyndi og ömurleika og það ætla ég ekki að bjóða fjölskyldu minni upp á og fer frekar úr landi.
Sjáumst næsta laugardag kl:15 á Austurvelli í friðsamlegum mótmælum.
Kv, Torfi
Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 18:15
Palli einn í heiminu segir "ég hef ekki áttað mig á hverju er verið að mótmæla". Það er vegna þess að þú lifir í öðrum heimi en fólk almennt. Þú ert ringlaður vegna þess að þinn veruleiki hefur hrunið. Opnaðu augun.
Andri (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 18:17
Sæl María og Torfi
Mér heyrist samstaða vera að myndast um að við göngum til kosninga innan skamms tíma, þó ekki fyrir jól, heldur með vorinu. Væri það ekki eðlilegur tími til að stjórnmálaflokkarnir meti sína stöðu og hvaða lausnir þeir vilja bjóða okkur? Og - vitanlega - þeir sem telja flokkana ekki vettvang fyrir sig hafa tíma og ráðrúm til að skipuleggja nýtt framboð?
Þjóðarsamstaða um kosningar í vor. Er það ekki málið?
Páll Vilhjálmsson, 9.11.2008 kl. 18:21
Besta leiðin til að komast að því hvað er að gerast - í staðinn fyrir að fimbulfamamba á fordómafullan hátt um það - er að mæta!
Mæting kl. 15 stundvíslega á Austurvöll laugardaginn 15. desember nk.
Passaðu þig bara að þú flokkist nú ekki með skrílnum, haltu þig á "öruggum" stað.
ps. og taktu með mótmælaspjald með þeim texta sem hentar þér - láttu ekki aðra velkjast í vafa um hverju þú ´sert að mótmæla.
Viðar Eggertsson, 9.11.2008 kl. 18:23
Sæll Páll.
Þessi stjórn veldur meiri skaða með hverjum deginum sem líður, því miður. Hún vill hvorki heyra né né sjá jafnvel þótt það sé öskrað í eyrað í henni og stappað fyrir framan hana af ágætum hagfræðingum og skynsömu fólki. Hér hefur ekki verið utanríkisráðherra í á annan mánuð af því að samstarfsmenn hennar hafa ekki djörfung í leysa hana af á sómasamlegan hátt þegar öllum er ljóst að hún þarf á góðri hvíld að halda. Landið hefur ekki verið frontað á meðan. Það á að bara að keyra þetta í gegn á gömlu klíkunni eins og vanalega og þreyta laxinn. Kosningar í vor koma of seint i svona ástandi - en kannski tekur fólkið í flokkunum sönsum, hver veit?
Kv, Torfi
Torfi Hjartarson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 18:36
Fyrirgefðu, átti auðvitað að vera: 15. nóvember nk.
Síðan má bæta við næstu laugardögum þar á eftir.
Viðar Eggertsson, 9.11.2008 kl. 19:54
Sæll Páll,
Við búum í lýðræðisríki Páll!
Jón Þórisson (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 20:49
Mér finnst vafasamt að tala um "skemmdarverk" í tengslum við mótmælin á laugardaginn. Svona álíka heimskulegt og þegar fréttastofa Stöðvar 2 talaði um "óeirðir". Einn fáni var dreginn að hún á Alþingishúsinu. Þar skemmdist ekkert. Nokkrar hræður fleygðu eggjum á Alþingishúsið. Það eina sem skemmdist þar voru eggin sjálf. Svo má þess vegna líta á eggjakastið sem stuðning við eggjaframleiðendur í landinu ef maður vill vera jákvæður.
Guðmundur (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 21:52
Jú, Guðmundur, ég hefði betur skrifað strákapör eða kjánalæti en skemmdarverk.
Páll Vilhjálmsson, 9.11.2008 kl. 22:04
Páll í hvaða landi býrð þú,ertu ekki með.?
Númi (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 23:37
En hvert leiðir þessi umræða?? Ég er að verða króniskur bloggari og hef aldrei áður komið mér inn á þennan vettvang. En mér líkar það að hægt sé að ræða hér með ágætum hópum manna og kvenna um málefni líðandi stundar. En mér líkar illa þegar fólk er með ásakanir og fúkyrði til þess sem stjórnar viðkomandi síðu.
Við þurfum öll að sýna kurteysi og virðingu fyrir öðrum, annars erum við engu betri en þeir sem eru nú að stýra vorri þjóð og þeir sem stýrðu bönkum landsins á svo skelfilegan hátt og raun ber vitni.
Ég stend fyllilega með þeim sem mótmæla og við verðum að halda upp um okkur buxurnar og standa ekki með þær á hælunum.
Við þurfum kannski núna að rifja upp sögu okkar þjóðar og þeirrar baráttu sem við stóðum í ekki fyrir svo margt löngu. Þetta er á tímum foreldra margra okkar og ábyggilega nokkra þeirra sem eru að koma sínum skoðunum í ljós hér á blogginu og á mótmælendafundum í miðbæ Reykjavíkur.
Við getum ekki verið bara heima og látið þetta yfir okkur dynja, án þess að gera neitt í því.
Þó svo ég fari ekki niður á Austurvöll og mótmæli, þá geri ég það hér og nú. Hef einnig sent Birni Bjarnasyni fyrirspurn (þar sem það er í boði á hans bloggi) og hef ekki fengið gáfulegt svar eða svar við mínum spurningum. Ég geri svo sem ekki heldur ráð fyrir því að hann svari mér. Það er hans ekki mitt.
Þar sem þetta er umræðan hér og nú, vil ég segja að lokum.
STÖNDUM SAMAN, VINNUM SAMAN EINS OG ÞJÓÐ, EKKI EINS OG ÓALDARLÍÐUR. OG SÍÐAST EN EKKI SÍST, BERUM VIRÐINGU FYRIR HVORT ÖÐRU OG VERUM EKKI MEÐ FÚKYRÐI Í HVORT ANNAÐ. AMEN
Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 10.11.2008 kl. 09:15
Sæll Páll
Ég ætlaði að senda þér dálitlar skammir en hef litlu að bæta við það sem komið er en vil leggja áherslu á að þú mætir á þessum fundum til þess að heyra hvað þar er sagt. Ekki flytja fjölmiðlar þér fréttir af því. Hefurðu hugleitt það hvers vegna fjölmiðlar virðast reyna að þagga niður í þeim reiðu röddum sem hljóma nú um allt þjóðfélagið? Leggjum okkar fram um að stuðla að því að unnið verði úr þessari vitleysu af viti. Og kosningar eigi síðar en á útmánuðum, helst fyrr!
Þorgrímur Gestsson (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.