Föstudagur, 24. október 2008
Bankar brengla dómgreindina
Viðskiptaráðherra er hissa á launum bankastjóranna í nýju ríkisbönkunum. Félagsmálaráðherra krefst launalækkunar bankastjóranna. Í ljósi bankahrunsins, sem bankarnir sjálfir bera höfuðábyrgð á, vaknar spurningin hvernig í veröldinni dettur mönnum í hug að bankastjórar eigi að vera launahæstu embættismenn stjórnkerfisins?
Það virðist eitthvað við banka sem veldur bilun í dómgreindinni. Guðmundur Hauksson sparisjóðsstjóri SPRON keyrði sjóðinn í þrot. Þrátt fyrir að hafa í tví- eða þrígang gerður afturreka linnti Guðmundur ekki látunum fyrr en SPRON var kominn á hnén á leiðinni inn í Kaupþing. Málið reddaðist á síðasta kortérinu, Kaupþing féll áður en að gengið var frá yfirtökunni. Mörg hundruð manns töpuðu milljónum ofaná milljónir fyrir fíflskuna. Guðmundur situr keikur í sínu sæti og enginn andar að honum gagnrýni.
Aftur að nýju ríkisbönkunum. Engin skynsamleg rök hafa komið fyrir því að allri þrír þrotabankarnir voru endurreistir. Raunar hafa alls engin rök komið fyrir því að ríkið endurfjármagni þessa þrjá banka. Þeir eru ónýtir sem vörumerki. Ríkið er að fara í samkeppni við sjálft sig með tilheyrandi bruðli og óráðssíu. Það er verið að búa í haginn fyrir fjármálalegt stórslys.
Myndu önnur svið þjóðlífsins fá svipaða meðferð? Dettur einhverjum í hug að ríkið myndi endurreisa Stöð 2 ef hún færi í þrot? Myndi ríkið endurfjármagna Iceland Express ef félagið yrði gjaldþrota. Vitanlega ekki.
Hvað er þetta eiginlega með banka og dómgreindina?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.