Iðnbyltingin var kannski menningarbylting

Ekki tækninýjungar heldur hljóðlátar samfélagsbreytingar, sem fólust m.a. í því að börnum ríkra foreldra fjölgaði hlutfallslega, eru aðalforsendurnar fyrir iðnbyltingunni samkvæmt nýrri bók eftir hagfræðinginn Gregory Clark. Kenning Clark er á skjön við viðteknar hugmyndir um upphaf iðnbyltingarinnar.

Iðnbyltingin er tímasett í lok 18du aldar í Englandi og barst þaðan til Evrópu og Bandaríkjanna á 19du öld. Byltingin gjörbreytti lífsháttum fólks og lagði grunn að vestrænum samfélögum eins og þau eru í dag.

Tæknilegar nýjungar og breyting á stofnunum samfélagsins eru taldar helstu forsendur fyrir iðnbyltingunni. Í bókinni Farwell to alms tekur Clark annan pól í hæðina og leggur fram skýringu sem mun gjörbreyta skilningi okkar á tilurð nútímasamfélagins, þ.e. ef kenningin fær hljómgrunn.

Meðal heimilda Clark eru erfðaskrár efnaðra Englendinga. Hann telur sig geta sýnt fram á að börnum ríkra foreldra hafi frá miðöldum fjölgað hlutfallslega sem leiddi til þess að eiginleikar eins og ráðdeild, sjálfsagi og vinnusemi fluttust til neðri laga samfélagsins. Siðir og hættir efnafólks hafi kynslóð fram af kynslóð eflt sjálfsbjargarviðleitni æ stærri þjóðfélagshópa oplægt akurinn fyrir iðnbyltinguna.

Í kenningu Clark er afstaða til samfélagsþróunar sem er á hliðargötu félagslegs darwinisma. Af þeirri ástæðu einni má búast við líflegri ef ekki hatrammi umræðu um bókina Farwell to Alms.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hmm... við að lesa þessa stuttu lýsingu kemur nú bara eitt nafn upp í hugann: Max Weber.

Myndi sanntrúuðum Weberista finnast nokkuð nýtt eða frumlegt við að skilgreina stórkostlegar efnahagslegar og tæknilegar breytingar sem afurð hugarfars, gildismats og trúarskoðana. (Sem sagt, Karli Marx snúið á haus - hugmyndirnar eru ekki afurð efnahagslífsins heldur öfugt.)

Munurinn er bara sá að Weber þurfti ekki að nota neinn félagslegan dólga-darwinisma í sínu módeli... 

Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband