Fallandi gengi 365

Eins og það væri ekki nógu slæmt að einn reyndasti fréttamaður Stöðvar 2 hætti með látum í vikulok þá lækkaði gengi 365 hf. um 3,6 prósent í Kauphöllinni á föstudag. Frá áramótum hefur gengi fjölmiðlafyrirtækisins sem Baugur stjórnar lækkað um 45 prósent. Ekkert hlutafélag hefur lækkað jafn mikið. Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður 365 stendur frammi fyrir þrem kostum.

Á stuttum starfstíma 365 hf. hafa ekki skipst á skin og skúrir, heldur staðið yfir samfellt skúraveður sem er um það bil að sökkva þessu fjölmiðlaflaggskipi Baugs. Fjölmiðlamenn hafa hætt hjá fyrirtækinu, s.s. Páll Magnússon, Egill Helgason og núna fyrir helgi Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. Baugur hefur þurft að kaupa út stóra hluthafa sem hafa verið óánægðir með þróun mála. Fokk með útgáfutitla, samanber DV sem fór úr 365 hf. yfir í einkahlutafélag Jóns Ásgeirs, hefur grafið undan trúverðugleika félagsins á markaði.

Brestir í trúverðugleika 365 urðu sýnilegir um miðjan nýliðinn mánuð þegar tilkynnt var um kostunaraðila ensku knattspyrnunnar. Baugsfélögin Teymi, 10 - 11 og Vörður eru kostunaraðilar ásamt Icelandic Express, sem er í eigu helsta viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar. Aðrir höfðu ekki áhuga að kenna sig við enska boltann hjá 365.

Það kostaði um milljarð króna að kaupa enska boltann á uppboði og ávinningur af fjárfestingunni er hæpinn, svo ekki sé meira sagt. Knattspyrnuáhugamenn hafa í þúsundavís gefist upp á verðskrá 365 og horfa á enska boltann á Sky eða sleppa honum alveg.

Kostir stjórnarformannsins Jóns Ásgeirs eru þrír. Í fyrsta lagi að afskrá félagið af hlutabréfamarkaði og sameina það útgáfufélagi Jóns Ásgeirs sem gefur m.a. út DV og nokkur tímarit. Þá væri slæmt gengi ekki jafn augljóst og með niðurskurði kannski hægt að hægja á blæðingunni. Umræða um þessa leið komst svo langt í sumar að sérstök fréttatilkynning birtist frá 365 um að félagið yrði ekki afskráð.

Í öðru lagi er hægt að leita eftir sameiningu sjónvarpsrekstursins við Skjá einn. Á liðnum vetri stóðu margir starfsmenn 365 í þeirri trú að það yrði gert. Síminn/Skjár einn reyndist hins vegar ekki hafa áhuga. Núna þegar gengi 365 hefur lækkað um helming gæti orðið breyting þar á. Prenthluti 365 yrði þá líklega sameinaður einkahlutafélagi Jóns Ásgeirs.

Þriðja leiðin er að halda útgerðinni óbreyttri og láta önnur Baugsfyrirtæki létta undir með auglýsingum og kostunarsamningum. Spurningin er hve lengi það getur gengið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það er hægt að spara ansi marga milljarða með því að lækka gengi kerfisbundið og taka svo af markaði þar sem þá er hægt að kaupa bréf ódýrt og þegar yfirtökuskyldu er náð er miðað við gengi þá stundina...þannig þetta meikar perfect sense.

Karl Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2007 kl. 00:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband