Föstudagur, 21. febrúar 2025
Morgunblaðið til bjargar blaðamennsku
Í bráðum 4 ár liggur byrlunar- og símamálið eins og mara á íslenskri blaðamennsku. Allt að sex til átta blaðamenn og þrír fjölmiðlar, með RÚV í fararbroddi, áttu aðild að byrlun, þjófnaði og afritun á síma. Fjölmiðlar sögðu fáar fréttir og tóku iðulega upp hanskann fyrir félaga sína á RÚV, Stundinni og Kjarnanum. Núna í febrúar ákveður Morgunblaðið að gera skil stærsta og alvarlegasta hneyksli íslenskrar fjölmiðlasögu. Heiðarleg blaðamennska á sér bandamann.
Umfjöllun Morgunblaðsins byggir á gögnum úr lögreglurannsókn sem var hætt, en ekki felld niður. Í yfirlýsingu lögreglu í haust kemur fram að brotið var á Páli skipstjóra Steingrímssyni, honum var byrlað, síma hans var stolið og símtækið afritað á RÚV. En þar sem blaðamenn voru ,,ósamvinnuþýðir" og höfðu eytt gögnum tókst ekki að sýna fram á hvaða blaðamenn frömdu tilgreind afbrot. Þáverandi eiginkona skipstjórans hefur játað að byrla, stela og færa Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV síma skipstjórans 4. maí 2021.
RÚV frumbirti enga frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Það gerðu aftur Stundin og Kjarninn samtímis 21. maí 2021, 17 dögum eftir að Þóra tók við síma skipstjórans og afritaði á símtæki sem hún keypti fyrir byrlun. Samráð RSK-miðla gekk út á að glæpurinn var framinn á Efstaleiti en afurðin flutt með leynd á Stundina og Kjarnans til birtingar. Heiðarlegir fjölmiðlar afla sér ekki frétta með þessum hætti.
Tilfallandi hóf að skrifa um byrlunar- og símamálið í nóvember 2021. Eftir nokkurra daga þögn frá blaðamönnum RSK-miðla birtust sama daginn, þann 18. nóvember, breiðsíður á Stundinni og Kjarnanum gegn tilfallandi skrifum. ,,Svar við ásökun um glæp," er fyrirsögnin hjá Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans sparaði ekki stóru orðin í Kjarnanum. ,,Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar," var yfirskrift málsvarnarinnar.
Síðar áttu bæði Þórður Snær og Aðalsteinn eftir að stefna tilfallandi fyrir dóm og krefjast bóta upp á nokkrar milljónir króna. Blaðamennirnir kalla það ,,kælingu" þegar þeir fá á sig málssókn, en þeim finnst sjálfsagt að herja á bloggara og tjáningarfrelsi hans.
Þórður Snær gerðist óopinber talsmaður RSK-blaðamanna. Tæpu ári eftir greinina um glæp í höfði tilfallandi Páls kom enn skýrari afneitun frá Þórði Snæ, sem nú er framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar: Sagan af manninum sem ekki var eitrað fyrir og blaðamönnum sem valdið vildi kæla. Ásamt afneitun á bláköldum staðreyndum slær ritstjórinn þann tón að lögreglurannsókn á byrlun og stuldi sé ofsóknir á hendur blaðamönnum. Lögreglan var sökuð um annarlegar hvatir. ,,Tvö ár af kælingu vegna glæps sem aldrei var framinn," skrifar Þórður Snær fyrir einu ári og hafði þá sjálfur ,,kælt" bloggara með málssókn.
Fréttir og fréttaskýringar Stefáns Einars Stefánssonar í Morgunblaðinu síðustu daga staðfesta að það sem tilfallandi sagði um byrlunar- og símamálið er satt og rétt. Það sem Þórður Snær og Aðalsteinn hafa sagt um málið er meira og minna ósatt.
Blaðamannafélag Íslands hefur staðið meðvirka vakt með blaðamönnum RSK-miðla og skipulega reynt að afvegaleiða umræðuna og taka undir fáheyrð sjónarmið að lögreglan sé óheiðarleg með rannsókn á alvarlegum afbrotum. Sigríður Dögg formaður BÍ skrifar í Blaðamanninn í desember 2022, ,,Aðgerðir gegn blaðamönnum, aðför að tjáningarfrelsi." Þar klappar hún sama stein og Þórður Snær, að lögregla ofsæki blaðamenn án réttmætrar ástæðu. Í sama tölublaði Blaðamannsins er sagt frá að Aðalsteinn og Þórður Snær fái verðlaun fyrir aðild sína að byrlunar- og símamálinu. Stéttafélag verðlaunar skúrka til að fegra ásýnd þeirra gagnvart almenningi. Verðlaunablaðamenn stunda ekki afbrot, blekkingu og siðleysi eru skilaboð BÍ.
Annað dæmi um vinnubrögð blaðamanna og stéttafélags þeirra er að siðreglum BÍ var breytt fyrir tveim árum til að minnka vernd þeirra sem eiga um sárt að binda og komast í kast við fjölmiðla. Þáverandi varaformaður BÍ, sjálfur Aðalsteinn Kjartansson, hafði forystu um að fella úr gildi siðareglu sem veitti andlega veikum vernd gegn ágangi blaðamanna.
Íslensk blaðamennska var komin í sorpflokk er Morgunblaðið tók til við að fjalla um byrlunar- og símamálið. Blaðamenn á öðrum fjölmiðlum þegja enn um glæpi og siðleysi í eigin röðum. Þeir þjóna öðrum hagsmunum en faglegri og heiðarlegri blaðamennsku. Sigríður Dögg á BÍ er líka mállaus. Sennilega upptekin að ganga frá skattframtalinu sínu.
![]() |
Starfsfólk RÚV huldi slóðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Viðtalið við Pál Steingrimsson var magnað og á Stefán Einar þakkir skildar fyrir að koma málinu í opinbera umfjöllun. Rétt eins og þú átt þakkir skildar fyrir að vekja máls á málinu og halda því vakandi þrátt fyrir aðförina sem gerð hefur verið að þér.
Ragnhildur Kolka, 21.2.2025 kl. 14:04
Mæli Ragnhildur Kolka heilust.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.2.2025 kl. 15:27
Tek undir með ummælunum hér að ofan og dáist að úthaldi þínu Páll, þolinmæði og hjarta bundið alvöru blaðamennsku.
Gústaf Adolf Skúlason, 22.2.2025 kl. 04:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.