Trump-sigur: leiðrétting ekki bakslag

Vinstrimenn segja afgerandi sigur hægrimanna í Bandaríkjunum, undir forystu Donald Trump, vera bakslag. Greiningin byggir á þeirri forsendu að vinstrið sé ,,réttu" megin í sögulegri þróun en hægrimenn séu rangstæðir. Blasir þó við að vinstrimenn hafa verið röngu megin sögunnar allt frá dögum Karls Marx.

Vinstrimenn líta á sigur Trump sem harmleik. Vinstriútgáfan Guardian veitir blaðamönnum sínum áfallahjálp. En sleppum dramatíkinni og ræðum nánar meint bakslag. Fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sig., einu hreinu vinstristjórnarinnar í lýðveldissögunni, Gylfi Magnússon hagfræðiprófessor, notar einmitt þetta orð, bakslag, í greiningu á sigri Trump. Tvö fyrstu bakslögin sem Gylfi nefnir eru manngert veðurfar, meint hamfarahlýnun af mannavöldum, og Úkraínustríðið.

Trump-sigur er leiðrétting á pólitík, undir yfirskini vísinda, um að maðurinn stjórni veðurfari jarðkringlunnar með útblæstri á koltvísýringi, CO2. Þetta er rangt. Um 97 prósent af koltvísýringi andrúmsloftsins er náttúrulegur, aðeins um 3 prósent stafa af mannlegri starfsemi. Lofttegundin er ómissandi lífríkinu, án CO2 yrði jörðin óbyggileg. Meðalhiti jarðar hefur hækkað um 0,1 gráðu á áratug frá litlu ísöld sem lauk um 1880-1900. Hækkunin nemur einni gráðu á öld sem hvorki er hröð loftslagsbreyting né hamfarir. Vinstrimenn halda á lofti firrunni um manngerða hlýnun til að réttlæta skattahækkanir og inngrip í líf borgaranna með margvíslegu reglugerðafargani. Yfir 1900 vísindamenn skrifa upp á yfirlýsingu um það sem öllum læsum er augljóst: það er engin loftslagsvá.

Trump-sigur er leiðrétting á fádæma hrokafullri utanríkispólitík Bandaríkjanna, Nató og ESB gagnvart Rússlandi. Á Nató-fundi í Búkarest í apríl 2008 var samþykkt sú stefna að Úkraínu skyldi boðin aðild að hernaðarbandalaginu. Gagnvart Rússlandi var Búkarest-samþykktin stríðsyfirlýsing. Efnislega þýddi hún að Nató ætlaði sér að sitja með óvígan her vesturlandamæri Rússlands. Yfirstandandi Úkraínustríð hófst með vestrænni ógnun og lítt dulum hótunum um að beita hervaldi yrðu Rússar með múður. Í greiningu sinni endurtekur Gylfi vestræna drýldni um að Rússland sé ,,bláfátæk, gerspillt bensínstöð með kjarnorkuvopn."    

Gylfi tæpir á fleiri atriðum sem hann telur Trump-sigur vita á, t.d. að erfiðara verður fyrir Hamas-hryðjuverkasamtökin að fremja fjöldamorð. Vinstrimenn eru með böggum hildar að hryðjuverkamenn þeim hugþekkir fái ekki að leika lausum hala og þjóna lund sinni. Það eitt segir nokkra sögu um hvar vinstrið er statt í siðmenningunni.

Eitt atriði nefnir Gylfi þó ekki, sem ætti honum að vera skylt, enda Gylfi háskólaprófessor.

Trump-sigur er leiðrétting á helstefna háskólanna undir formerkjum fjölbreytileika, jafnaðar og inngildingar. Tilfallandi skrifaði um fyrirbærið í vor:

Frjáls gagnrýnin hugsun, og þar af leiðandi frjáls umræða, á undir högg að sækja í háskólasamfélaginu. Frá útlöndum, einkum henni Ameríku, koma boðorðin um fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu (diversity, equity, inclusion). Á yfirborðinu falleg orð en kjarni þeirra er alræðishyggja. Frjáls hugsun skal víkja, banna, ef einhver móðgast. Einkum og sérstaklega ef sá móðgaði segist tilheyra bágindahópi af einhverri sort. Úr verður aumingjavald sem með hugsanalögreglu sér til halds og trausts kæfir frjálsa hugsun. Menn eiga ekki að hugsa gagnrýnið heldur tileinka sér dáðleysi frammi fyrir rétttrúnaði. Kapphlaupið er niður á við, markmiðið er að allir verði botnfall.

Hugmyndafræði vinstrimanna hefur verið ríkjandi alltof, allof lengi. Bandarískir hægrimenn undir forystu Trump reisa skorður við vinstriöfgum sem trölliðið hafa vestrænni stjórnmálamenningu um langan aldur. Löngu tímabært var að leiðrétta hugmyndafræði eymdarinnar. 

 

 


mbl.is Trump kominn með 294 kjörmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband