Heimildarmaðurinn benti á Arnar, þriðja yfirheyrsla Þóru

Fyrrum eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar benti á Arnar Þórisson framleiðanda/pródúsent hjá RÚV sem fyrsta viðtakanda símans sem hún stal af eiginmanni sínum vorið 2021. Arnari er verulega áfátt þegar hann segir á Vísi:

Ég veit ekki alveg hvað hún [lögreglan] vildi vita. Hún náttúrulega bara heldur áfram með það að reyna að fá okkur blaðamenn til að brjóta lög, því eins og þú veist þá gefum við ekki upp heimildarmenn.

Arnar ber það á borð fyrir alþjóð að hann verndi heimildarmann með því að gefa hann ekki upp til lögreglu. Pródúsentinn lætur eins og þar fari einhver huldumaður. En það er öðru nær. Heimildarmaðurinn, fyrrum eiginkona Páls skipstjóra, sagði í sumar í yfirheyrslu lögreglu að Arnar hafi verið maðurinn sem tók á móti henni 4. maí 2021 og fylgdi inn í útvarpshúsið á Efstaleiti. Þar kom Þóra Arnórsdóttir að málum, enda Arnar undirmaður hennar. 

Blaðamenn vernda nafnlausa heimildarmenn. Sumarið 2021 vissi lögreglan að þáverandi eiginkona skipstjórans byrlaði og stal og afhenti blaðamönnum símann samkvæmt skipulagi.

Blaðamaður Vísis, sem tók viðtalið, lét Arnar komast upp með þau ósannindi að heimildarmaðurinn sé ókunnur og nafnlaus og þurfi sérstaka vernd blaðamanna.

Í viðtengdri frétt á mbl.is er fjallað um raunverulegt tilefni þess að Arnar er sakborningur:

Hann [Arnar] sagði að lög­regl­an hefði spurt sig um ým­is­legt sem sím­ann varðaði, svo sem hvort hann hefði haft aðkomu að hvarfi sím­ans og að sím­inn hafi verið opnaður, en Arn­ar kvaðst ekki hafa viljað tjá sig um það.

Hvers vegna ekki að tjá sig um viðtöku á símanum og afritun? Er síminn kannski heimildarmaðurinn í hugarheimi Arnars? Þarf símtæki sérstaka persónuvernd?

Þóra Arnórsdóttir var boðuð í sína þriðju yfirheyrslu í sömu vikunni og Arnar var yfirheyrður. Sakborningar sem fara í þrjár yfirheyrslur hjá lögreglu eru vanalega með marga snertifleti við afbrotið sem er til rannsóknar. Vitað er að Þóra var í reglulegum samskiptum við fyrrum eiginkonu skipstjórans. Mögulega voru fleiri sakborningar yfirheyrðir. Einn þeirra, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni/Heimildinni, var, líkt og Arnar, undirmaður Þóru þangað til þremur dögum fyrir byrlun skipstjórans. Á hádegi 30. apríl 2021 skipti Aðalsteinn um vinnustað, fór af RÚV á Stundina. Þóra yfirmaður Aðalsteins var búin að kaupa síma til að afrita þegar Aðalsteinn fór yfir á Stundina, sem systir hans ritstýrir.  

Byrlunar- og símastuldsmálið virðist vera á lokametrunum í rannsókn lögreglu. Meginatriði málsins liggja fyrir. Blaðamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum, RSK-miðlum, vissu með fyrirvara að von væri á síma skipstjórans. Þóra Arnórsdóttir keypti í apríl Samsung-síma, sömu gerðar og sími skipstjórans. Eiginkonan byrlaði 3. maí. Skipulagið var byrlun, stuldur, afritun og síðan var símanum skilað á sjúkrabeð Páls skipstjóra.

Eftir afritun á Efstaleiti var unnið með gögnin úr símanum. Skálduð var sú frétt að innan Samherja starfaði skæruliðadeild. Tvær útgáfur voru skrifaðar af sömu fréttinni og sendar til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. RÚV frumbirti enga frétt. Á Stundinni og Kjarnanum birtist samtímis tvær útgáfur sömu fréttar morguninn 21. maí 2021. Á Stundinni var Aðalsteinn Kjartansson skrifaður fyrir fréttinni en frétt Kjarnans er merkt Þórði Snæ og Arnari Þór. Allir þrír fengu verðlaun Blaðamannafélagsins fyrir athæfið. Allir þrír eru sakborningar.

Samkvæmt skipulagi sá RÚV um að fylgja eftir fréttum Stundarinnar og Kjarnans. Fréttamenn RÚV ráku hljóðnemann upp í stjórnmálamenn og áhrifavalda með þessa spurningu: finnst þér ekki voðalegt að Samherji starfræki skæruliðadeild? Reiðibylgju í samfélaginu var hrundið úr vör. Til þess var líka leikurinn gerður.

Fréttin um Arnar er á öllum fjölmiðlum í gær og fyrradag: mbl.is, vísir, Mannlíf og DV. Ekki fyrr en í gærkvöldi um kl. níu sagði RÚV fréttina. Í ítarlegri frétt tókst RÚV að þegja um þriðju yfirheyrsluna yfir Þóru. Haft er eftir Arnari að þar sem Þóra og Kveikur hefðu ekki birt neina frétt með vísun í gögn úr síma skipstjórans væri málið hrunið ,,eins og spilaborg." Lögreglan rannsakar ekki fréttaflutning heldur byrlun, símastuld og hvernig farið var með stolin gögn. RÚV birti enga frumfrétt og það stóð aldrei til. Glæpaleiti er miðstöðin í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þar var sími skipstjórans afritaður og fréttir samdar til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Allt samkvæmt skipulagi.

Enn er opin spurning hvaða lögbrot verða sönnuð á sakborninga. Þeir voru fyrst boðaðir í yfirheyrslu í febrúar 2022 en mættu ekki fyrr en í ágúst. Á þeim tíma kepptust þeir að eyða sönnunargögnum. Botnlaust siðleysi blaðamanna er aftur öllum ljóst. Fyrrum eiginkona skipstjórans hefur um árabil glímt við alvarleg andleg veikindi. Bágindi hennar nýttu blaðamenn sér af fullkomnu miskunnarleysi.


mbl.is Yfirframleiðandinn kominn með stöðu sakbornings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Maðurinn sem ber ábyrgð á sínu starfsfólki og veit allt um þetta mál er Eiríkur Stefánsson en af hverju er hann ekki yfirheyrður eða rekinn úr starfi fyrir að hylma yfir þessum gjörningi??

Sigurður I B Guðmundsson, 19.9.2024 kl. 10:33

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tímabært að ljúka þessu máli. Verður fróðlegt að sjá hvort Google hafi látið undan og veitt aðgang að SMS samskiptum. Þar liggja eflaust sterkustu sönnunargögnin.

Ragnhildur Kolka, 19.9.2024 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband