Sunnudagur, 25. ágúst 2024
Ímyndarkreppa blaðamanna, fagna ekki fjölmiðlafrelsi
Afgerandi meirihluti Íslendinga, 57 prósent, telur fjölmiðlafrelsi mikið hér á landi, samkvæmt nýrri könnun. Aðeins 14 prósent landsmanna telja fjölmiðlafrelsi lítið. Tæpur þriðjungur telur frelsi fjölmiðla í meðallagi.
Á milli ára hækkar hlutfall þeirra sem telja þjóðina njóta mikils fjölmiðlafrelsis um 7 prósentustig, úr 50% í 57%. Maskína gerði rannsóknina.
Hvers vegna lítt eða ekkert sagt frá þessum tíðindum? Þjóðin er afgerandi ánægð með stöðu fjölmiðla hvað frelsi þeirra áhrærir en blaðamenn þegja þunnu hljóði. Ættu blaðamenn ekki að kætast opinberlega og ræða í frásögnum og viðtölum magnaða stöðu frelsis fjölmiðla í vitund almennings? Er ekki hlutverk blaðamanna að ,,setja fréttir í samhengi"? En hvorki er frétt né samhengi.
Þögn blaðamanna skýrist af ímyndarkreppu. Í rúm tvö ár, frá febrúar 2022, hafa blaðamenn hér á landi keppst við að telja almenning trú um að þeir sæti ofsóknum yfirvalda, sem sigi lögreglu á blaðamenn er hafi það eitt til saka unnið að segja fréttir. Blaðamenn sannfærðu sjálfa sig að þeir njóti ekki frelsis. En ófrelsið er innanmein blaðamennskunnar, ekki ytri skilyrði frjálsrar fjölmiðlunar. Blaðamenn sökktu sér fyrir rúmum tveim árum djúpt í eigin lygavaðal. Þeir eru ekki enn komnir upp úr kafinu. Vegna sakamáls tapaði blaðamannastéttin dómgreindinni, trúir lyginni en hafnar sannindum.
Hér er vitanlega átt við byrlunar- og símastuldsmálið. Það hófst vorið 2021 með byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar. Í febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn á þrem fjölmiðlum, RÚV, Stundinni og Kjarnanum (RSK-miðlum) stöðu sakbornings. Síðar bættist við fimmti blaðamaðurinn grunaður um glæp, Ingi Freyr Vilhjálmsson, áður á Stundinni/Heimildinni en nú á RÚV.
Blaðamenn ruku upp til handa og fóta þegar tilkynnt var um sakborningana. Blaðamannafélag Ísland fordæmdi að blaðamenn skyldu boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu. Að undirlagi blaðamanna efndu ungliðahreyfingar vinstriflokkanna til mótmæla á Austurvelli. Í fundarboði sagði
Fjölmennum á Austurvöll og sýnum samstöðu með frjálsum fjölmiðlum. Að lögreglan á Norðurlandi Eystra skuli kalla til yfirheyrslu fjölmiðlafólk fyrir gagnrýna umfjöllun með erindi til almennings er óásættanleg skerðing á tjáningarfrelsi
En almenningur er á allt annarri skoðun en blaðamenn. Hér á Íslandi er fjölmiðlafrelsi. Almenningur veit sem er að fjölmiðlafrelsi er eitt en alvarleg lögbrot annað. Sumir blaðamenn líta aftur svo á að blaðamennska veiti sérstaka heimild til siðleysis og lögbrota. Hvergi á byggðu bóli, nema Íslandi, gætir þessara sjónarmiða. Drep er komið í beinmerg blaðamennskunnar hér á landi.
Ímyndarkreppa íslenskra blaðamanna felst í því að forysta Blaðamannafélags Íslands og sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu hafa klappað þann stein í rúm tvö ár að hér á landi séu saklausir blaðamenn ofsóttir. Aðrir blaðamenn ljúga í meðvirkri þögn með sakborningum. Engum blaðamanni eða fjölmiðli dettur í hug að skera upp herör gegn ósómanum og upplýsa aðild þriggja fjölmiðla að byrlun og þjófnaði vorið 2021. Blaðamenn véluðu andlega veika konu til verksins. Greinargerð lögreglu frá 23. febrúar 2022 staðfestir aðild blaðamanna og óverjandi framkomu þeirra gagnvart veikum einstaklingi. En það er ekkert að frétta.
Afleiðingin er að gjá er staðfest á milli blaðamanna og almennings. Gjáin birtist í skringilegum skilaboðum, svo vægt sé til orða tekið, frá forystu blaðamanna. Þannig skrifar Sigríður Dögg formaður Blaðamannafélags Íslands í síðasta tölublað Heimildarinnar:
Blaðamannafélag Íslands skorar hér með á tekjuhæsta hóp landsmanna að sýna samfélagslega ábyrgð og styðja duglega við fjölmiðla landsins og stuðla þannig að öflugri blaðamennsku sem skiptir samfélagið máli. Til þess eru margar leiðir, svo sem að fyrirtæki kaupi áskriftir að fjölmiðlum handa hverjum einasta starfsmanni, ...
Auðmenn eiga sem sagt að halda uppi starfandi fjölmiðlum, kaupa áskrift að fjölmiðlum þótt enginn sé áhuginn, segir formaður félags blaðamanna. Hvers konar skilaboð eru þetta? Er það í þágu almannahagsmuna að auðmenn ráði ferðinni í fjölmiðlum? Falbýður formaðurinn blaðamenn til hæstbjóðenda? Tilboð formanns BÍ er í hæsta máta siðlaust. Fjölmiðlar eiga að vaxa og dafna eigi þeir erindi til almennings en lélegir miðlar deyja drottni sínum. Fjölmiðlafrelsi tryggir að hver sem er getur stofnað miðil.
Sigríður Dögg er hluti af ímyndarkreppu blaðamannastéttarinnar. Hún er skattsvikarinn sem heldur fram að það sé einkamál hvort og hve mikið stolið er frá samneyslunni. Með Sigríði Dögg sem formann blaðamanna er hræsnin gerð formleg. Blaðamenn þýfga mann og annan um hitt og þetta ósiðlegt eða ólöglegt en formaður þeirra er skattsvikari og kemst upp með það.
Blaðamenn verða sjálfir að vinna sig úr siðferðilegri kreppu sem hægt en örugglega grefur undan tiltrú og trúverðugleika stéttarinnar. Þeir ættu að taka sér til fyrirmyndar Fríðu Björnsdóttur, handhafa blaðamannaskírteinis númer eitt. Fríða er á níræðisaldri, orðin sjóndöpur. En hún hefur skýra sýn á kjölfestuna sem blaðamennska getur ekki verið án. Kallast heiðarleiki. Blaðamenn eiga ekki að brjóta lög, hvorki með byrlun, þjófnaði eða skattsvikum. Þeir eiga heldur ekki að misþyrma andlega veiku fólki og fá það til óhæfuverka. Skrítið að þurfa segja þetta, en svona er komið fyrir blaðamannastéttinni á Íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.