Þórður Snær tapaði valdabaráttu, dagar Helga taldir

Valdabarátta er í eigendahópi Heimildarinnar, sem varð til við samruna Stundarinnar og Kjarnans fyrir hálfu öðru ári. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, áður Kjarnans, varð undir í valdabaráttunni og hætti fyrirvaralaust störfum í lok júlí. Engar útskýringar hafa birst í útgáfunni um tímamótin þegar annar aðalritstjórinn hættir.

Ingibjörg Dögg ritstjóri Heimildarinnar, áður Stundarinnar, og maki hennar, Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri útgáfunnar höfðu betur í valdabaráttunni við Þórð Snæ og Kjarnahópinn.

Þriðji ritstjórinn er Helgi Seljan með forskeytið rannsóknar- framan við starfstitilinn. Vorverk Helga, gagnrýnin uppfjöllun um loftslagsfyrirtækið Running Tide, fór ekki vel í suma hluthafa sem ginnkeyptir eru fyrir grænum fjárfestingum. Er umfjöllun Helga birtist var Running Tide farið á hausinn.

Helgi og Þórður Snær eru félagar, mættu m.a. saman á dómsuppkvaðningu í Landsrétti til að fagna sigri í máli sem Þórður Snær höfðaði gegn tilfallandi bloggara:

Við dómsuppsögu landsréttar í Kópavogi í gær gerðist skondið atvik. Tilfallandi var ekki á staðnum en fékk þær fréttir frá tíðindamanni að Þórður Snær og Helgi Seljan rannsóknaritstjóri Heimildarinnar hefðu mætt með ljósmyndara til að skrásetja sögulegan atburð. En þegar þeim varð ljóst að dómurinn sýknaði bloggara hurfu þeir á braut með slíku írafári að hastað var á þá af dómverði er gætir formreglna í réttarsal.

Helgi Seljan kom á Stundina sem flóttamaður frá RÚV, eftir að byrlunar- og símastuldsmálið tók að valda ugg og ótta á Efstaleiti. Flutningur Helga, sem ekki hefur formlega réttarstöðu í lögreglurannsókninni, var upphaflega hugsaður til skamms tíma. Þegar Helgi skipti um vinnustað, í byrjun árs 2022, var lögreglurannsóknin á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar ekki komin á það stig að þáttur blaðamanna í aðdraganda byrlunar var til athugunar. Vinur og yfirmaður Helga, Þóra Arnórsdóttir, var enn ritstjóri Kveiks. Það breyttist í febrúar 2023.  Er refsimálið varð alvarlegra sameinuðust Stundin og Kjarninn undir merkjum Heimildarinnar áramótin 2022/2023. Nú átti að snúa bökum saman og berjast til þrautar.

Heimildinni var ekki vel tekið af almenningi. Með fjóra sakborninga á ritstjórn, og Helga að auki, skorti útgáfuna trúverðugleika. Stærsta frétt íslenskrar blaðamennsku, um aðkomu blaðamanna að byrlun og gagnastuldi, var ósögð. Ritstjórn Heimildarinnar vissi alla sólarsöguna en sagði aldrei frá. Almenningur lætur ekki fífla sig til að neyta fjölmiðils sem veit allt sem vert er að vita um alvarlegt sakamál en kappkostar þögnina.

Þrátt fyrir vinstriauðmenn sem bakhjarla og áskrift til auðmanna, sem keyptu sig undan óvinsamlegri umfjöllun, gekk reksturinn illa. Aðalritstjórarnir Ingibjörg Dögg og Þórður Snær áttu ekki skap saman, stunda hvort sína gerð neðanbeltisblaðamennsku. Gjá staðfestist á milli helstu eigenda. Víglínan var á milli fyrrum eigenda Stundarinnar annars vegar og hins vegar Kjarnans.

Þórður Snær og Kjarnaliðið varð undir. Frekari tíðinda er að vænta af lífróðri Heimildarinnar. Komist fleyið í var verður Helgi Seljan ekki í áhöfninni.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband