Heimildin þegir um Þórð Snæ

Staksteinar Morgunblaðsins ræða brotthvarf annars ritstjóra Heimildarinnar, Þórðar Snæs Júlíussonar:

Raun­ar vek­ur at­hygli að Heim­ild­in virðist ekki einu sinni hafa frétt af þessu tveim­ur dög­um síðar, eng­in frétt verið þar sögð um frá­hvarf rit­stjór­ans og nafn hans enn í hausn­um. Það hlýt­ur að vera til marks um eitt­hvað.

Tilfallandi ræddi um yfirlýsingu Þórðar Snæs, um starfslok, og hefur beðið eftir að ritstjórn Heimildarinnar láti svo lítið að segja tíðindin og jafnvel setja brotthvarfið í samhengi við hvert útgáfan stefnir. Ritstjórar móta áherslur fjölmiðla. En það heyrist hvorki hósti né stuna frá Heimildinni.

Eftir situr hinn ritstjórinn, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, systir Aðalsteins sakbornings. Hennar ritstjórnarstefna er það sem á norrænu er kallað sósíalpornógrafí, gengur út á að klæmast á samfélagsmálum. 

Þórður Snær er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Frá haustinu 2021 hefur ritstjórinn fyrrverandi á nokkurra vikna fresti skrifað í Heimildina að hann sé saklaus af málinu. En aldrei hefur hann útskýrt málavöxtu, hvernig það atvikaðist að stolin gögn úr síma Páls skipstjóra, fengnum með byrlun, rötuðu í frétt sem Þórður Snær er skráður höfundur að og verður honum til ævarandi skammar, hvað sem líður afgreiðslu réttarkerfisins.

Síðustu tvö skiptin sem Þórður Snær tjáði alþjóð sakleysi sitt voru ekki á vettvangi Heimildarinnar. Í júní sagðist ritstjórinn saklaus á X (Twitter) og í júlí á Facebook. Tvær skýringar eru helstar á því að Heimildin birtir ekki útskýringar ritstjórans á eigin sakleysi. Í fyrsta lagi að Heimildin, þ.e. meðritstjóri Þórðar Snæs og stjórn útgáfunnar, hafi ekki talið það þjóna hagsmunum fjölmiðilsins að klifa á sakleysi sakbornings. Í öðru lagi að Þórður Snær hafi ekki talið það þjóna sínum hagsmunum að birta málsvörnina í Heimildinni.

Facebook-tilkynningin sem hann sendi frá sér á miðvikudag síðast liðinn er fáorð um ástæður starfsloka ritstjórans. Að þögn Heimildarinnar sjálfrar um brotthvarfið viðbættri má vera ljóst að skýringarnar þola ekki dagsins ljós. Ekki frekar en aðild Heimildarmanna að byrlunar- og símastuldsmálinu.

Í byrjun sumars voru fjórir blaðamenn á ritstjórn Heimildarinnar með stöðu sakbornings: Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Þórður Snær. Ingi Freyr tilkynnti í sumar að hann væri á leið til RÚV, og sennilega mættur þar til starfa. Fimmti á ritstjórn tengdur byrlunar- og símastuldsmálinu er Helgi Seljan. Hann var á RÚV þegar Þóra Arnórsdóttir keypti Samsung-síma í apríl 2021, sem notaður var til að afrita síma skipstjórans í byrjun maí sama árs.

Sagan um blaðamenn, byrlun og afritun birtist ekki í Heimildinni þótt þar innanhúss séu allar þær heimildir sem þarf til að upplýsa málið. Á blaðamannamáli kallast þetta að sitja á stórfrétt. Fjölmiðill sem situr á stórfrétt um eigin málefni er ekki í góðum málum. Svo vægt sé til orða tekið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband