Heimildin tapar 20% lesenda

Tvö þúsund lesendur hættu að nota Heimildina á milli vikna, skv. Gallup. Fyrir hálfum mánuði mældist útgáfan með rúmlega 11 þúsund notendur en þeir eru komnir í níu þúsund í byrjun vikunnar sem er að líða.

Allir aðrir fjölmiðlar, sem eru í mælingu Gallup, bættu við sig lesendum á milli vikna. Heimildin rekur lestin á listanum með afgerandi fæsta notendur. Næsti miðill fyrir ofan Heimildina er Mannlíf, með 23 þúsund vikulega notendur.

Heimildin nær ekki fimm prósent af notendafjölda mbl.is og visir.is sem eru með um og yfir 200 þúsund notendur á viku.

Tæplega 20 manna ritstjórn er á Heimildinni, þar af tveir ritstjórar og einn rannsóknaritstjóri. Á Mannlífi er sex manna ritstjórn.

Tilfallandi bloggaði í apríl um undarlega stöðu Heimildarinnar á fjölmiðlamarkaði. Er bloggið var skrifað voru netnotendur Heimildarinnar 15 þúsund á viku, en eru núna níu þúsund. Í blogginu sagði m.a.

Heimildin prentar 36 þúsund eintök vikulega. En vikulegir notendur vefútgáfunnar eru helmingi færri og gott betur, eða 15 þúsund. Ef Heimildin seldi vikulega eitthvað nálægt 36 þúsund eintök, í áskrift og lausasölu, ættu að sjást þess merki í fjölda notenda vefmiðilsins. En svo er ekki. [...]

Óhugsandi er að áskrifendur Heimildarinnar fari í stórum stíl ekki inn á vefútgáfuna. Umferðin er margfalt meiri á vefsvæði Morgunblaðsins en nemur fjölda áskrifenda. Hlutföllin eru öfug hjá Heimildinni, helmingi færri fara á vefsvæði útgáfunnar en nemur meintum fjölda áskrifenda. Fjölmiðlaneytendur haga sér ekki á þann hátt sem Heimildarmenn vilja vera láta.

Sá sem kaupir prentáskrift af fjölmiðli fylgist einnig með vefútgáfunni enda fær áskrifandinn lykilorð að vefmiðlinum. Ef rétt er að áskrifendur prentútgáfu Heimildar séu um 36 þúsund ættu notendur vefútgáfu að vera að minnsta kosti tvöfalt eða þrefalt fleiri, liggja á bilinu 70 til 100 þúsund á viku. En þeir eru aðeins 15 þúsund. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.

Einboðið er að áskrifendur Heimildar eru til muna færri en gefið er upp. Tvær aðferðir eru notaðar til blekkja. Í fyrsta lagi með frídreifingu í verslunum og bensínsjoppum, líkt rakið var í bloggi gærdagsins.

Í öðru lagi að sami aðili kaupi áskriftir í hundrað- eða þúsundavís. Í raun er það ígildi mánaðarlegs framlags til að halda útgáfunni á floti.

Magnkaup áskrifta eru af tvennum toga. Sumir kaupa áskriftir af velvilja til útgáfunnar, aðrir óttast illvilja Heimildarinnar og kaupa sér frið, greiða verndarfé gegn illu umtali.

Að stærstum hluta hefur almenningur hafnað Heimildinni. Útgáfan er með minna en 5% af notendafjölda mbl.is og visir.is og er helmingi minni en næst minnsti fjölmiðillinn, Mannlíf.

En samt kemur Heimildin enn út og heldur uppi tæplega 20 manna ritstjórn. Pólitískar ástæður ráða ferðinni, ekki ásetningur að upplýsa um mikilsverð samfélagsmálefni.  Vinstriauðmennirnir, Vilhjálmur Þorsteinsson, fyrrum gjaldkeri Samfylkingar, og félagar, moka endalaust fjármagni í útgáfu sem hýsir flesta sakborningana í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir hafa ekki gert hreint fyrir sínum dyrum, hvorki gagnvart almenningi né lögreglu. Blaðamenn sem hylma yfir lögbrotum þjóna ekki almannahag.

En það er bandalag á milli eigenda og sakborninga úr röðum blaðamanna að upplýsa ekki um lögbrot. Almenningur segir sína skoðun með því að kaupa ekki áskrift og lesa ekki netútgáfuna. Fjölmiðill án trúverðugleika er faglegt þrotabú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Ansi langt síðan ég hef skoðað Heimildina og sakna þess ekki. Miðillinn er ekki trúverðugur og hvað þá hlutlaus eins og blaðamenn eiga að vera þegar þeir flytja fréttir.

Nú síðast var árásin á skýrsluna um drengi í skólakerfinu. Heimildinni fannst mikilvægara að ræða um kostnað skýrslunnar en innihaldið. Gerðu lítið úr því fagfólki sem koma að vinnunni. Heyrði menn í brotkast þætti fjalla um málið.

Þorsteinn V hefur verið á ríkisjötunni vegna kvennamála hans. Heimildin undrast það ekki. Ekkert gáfulegt hefur komið frá manninum. 

Trans- Samtökin 78 fá um 100 milljónir á ári frá ríkinu. Samtök sem reka áróður fyrir lífsskoðunum sínum og trúarbrögðum. Heimildin talar ekki um það.

Það myndi ekki skaða samfélagið þó þessi miðill hyrfi. Ekkert trúverðugt við hann.

Helga Dögg Sverrisdóttir, 20.7.2024 kl. 12:31

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ætli áhorf á ruv væri mikið meira en áskrift á Heimildina ef ríkið væri ekki með krumluna í vösum okkar til að halda því uppi? 

Ragnhildur Kolka, 20.7.2024 kl. 15:58

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Heimilin er í útrýmingarhættu, stefnir í aðeins 21 verði eftir. Ritstjóprnin og stjórmálafræðinguinn með rauðu flokkskúluna á nefniu. 

Sigurður Þorsteinsson, 21.7.2024 kl. 09:27

4 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ragnhildur Kolka er með þetta. 

Sigurður I B Guðmundsson, 21.7.2024 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband