Fimmtudagur, 11. júlí 2024
Þórður Snær: engin byrlun og ekki afritun en samt gögn
Talsmaður sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu, Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, áður Kjarnans, skrifar Facebook-færslu í gær og ber sig aumlega. Hann telur sig ranglega sakborning í máli sem komi honum ekkert við.
Miðað við að byrlunar- og símastuldsmálið sé ritstjóranum óviðkomandi veit hann töluvert um málavöxtu. DV vitnar í færslu Þórðar Snæs:
lögreglan vonast til þess að finna einhver samskipti sem sýni að blaðamenn hafi víst pantað byrlun (sem átti sér ekki stað), eitrun (sem átti sér ekki stað), símastuld (sem fyrrverandi eiginkona í miðjum skilnaði hefur gengist við og sagt hafa skilað nokkrum dögum síðar) og ævintýralega afritun (sem átti sér ekki stað) hjá andlega veikri konu
Sem sagt engin afbrot 3. maí 2021. Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra Steingrímssonar byrlaði honum ekki, stal hvorki síma hans né færði blaðamönnum símann í hendur til afritunar. En hvernig komust símagögnin þá til Þórðar Snæs?
Þórður Snær birtir undir sínu nafni frétt í Kjarnanum þann 21. maí 2021 sem vísaði í gögn úr síma skipstjórans. Sama morgun birti Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni samskonar frétt og vitnar í sömu gögn úr síma skipstjórans. Samræmd birting á keimlíkum fréttum er byggja á einni og sömu heimild í tveim óskyldum fjölmiðlum staðfestir samráð og skipulag. En með hvaða hætti bárust gögnin til Þórðar Snæs á Kjarnanum og Aðalsteins á Stundinni?
Ef Þórður Snær upplýsti hvernig hann fékk gögnin úr síma skipstjórans væri hann líkast til ekki sakborningur. Þögn ritstjórans er ekki til að vernda heimildarmann. Þáverandi eiginkona skipstjórans, sem stríðir við andlega vanheilsu, hefur gengist við byrlun, þjófnaði og afhendingu síma skipstjórans til blaðamanna. Hún er heimildarmaðurinn. Enginn annar kemur til greina.
Hvers vegna upplýsir Þórður Snær ekki hvernig hann fékk gögn úr síma skipstjórans? Jú, ástæðan er einföld. Ritstjórinn vissi fullvel þegar hann tók við gögnunum að þau voru illa fengin. Ef atburðarásin vorið 2021 yrði upplýst kæmi á daginn hvernig samráði og skipulagi var háttað, hvaða hlutverk hver og einn sakborninga hafði - þeir eru fimm. Í fréttinni frá 21. maí 2021 skrifar Þórður Snær:
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið...
Þórður Snær vissi að einhver ónafngreindur ,,þriðji aðili" hafði framið lögbrot, játningin kemur fram í fréttinni sem hann er skráður höfundur að. Ritstjórinn er þar með þjófsnautur hið minnsta. Í öðru lagi kemur Þórður Snær í veg fyrir að lögregla upplýsi lögbrotið með því að neita að gefa upplýsingar um hvernig gögnin komust í hans hendur. Það er yfirhylming á glæp.
Þórður Snær stundar blekkingar þegar hann segist verja heimildarmann. Sakborningarnir, blaðamennirnir, ætluðu að leika þann leik að kasta gögnunum á milli sín og vera heimildarmenn hver fyrir annan. Þykjast svo réttlætisriddarar að verja nafnlausa heimildarmenn - sig sjálfa.
Lögreglan sá í gegnum málatilbúnaðinn snemma í rannsókninni. Í greinargerð lögreglu frá febrúar 2022 segir
Í þessu máli er engin þörf á að fjalla um heimild fjölmiðlamanna til að vernda heimildarmenn sína. Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er. Heimildarmaðurinn er X.
X stendur fyrir fyrrum eiginkonu Páls skipstjóra. Sakborningarnir búa að vitneskju um samskiptin við veiku konuna, hvenær þau hófust og um hvað var sammælst. Víst er að samskiptin hófust áður en byrlun og þjófnaður fóru fram.
Þegar veika konan mætti með símann á RÚV 4. maí 2021, daginn eftir byrlun, var búið að kaupa samskonar síma, af Samsung-gerð, sem beið tilbúinn og var notaður til að afrita síma Páls skipstjóra. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV hafði keypt Samsung-símann í apríl 2021. Blaðamenn vissu að sími skipstjórans var væntanlegur í hús. Skipulagið gerði ráð fyrir að eftir afritun yrði símanum skilað á sjúkrabeð skipstjórans sem var meðvitundarlaus á gjörgæslu Landspítalans. Það gekk eftir. Miðstöðin var á Efstaleiti, Stundin og Kjarninn sáu um að koma þýfinu i umferð og gerðu það samkvæmt skipulagðri dagskrá.
Þórður Snær reynir að skálda og fleipra sig úr réttarstöðu grunaðs manns. Dæmi um lygar ritstjórans er að hann kvaðst hafa verið handtekinn af sveit eyfirskra lögreglumanna og færður í járnum norður yfir heiðar. Rétt er að Þórður Snær var boðaður símleiðis til skýrslutöku á lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík. Hann átti að mæta í febrúar 2022 en skilaði sér ekki í skýrslutöku fyrr en sex mánuðum seinna, í ágúst. Svo kvartar Doddinn um seinagang á rannsókn sem hann sjálfur tafði um hálft ár. Ósvífninni verður ekki logið upp á ritstjórann.
Tímasetning Facebook-færslu Þórðar Snæs í gær er athyglisverð. Fréttir um hásumar eiga til að fara fyrir ofan garð og neðan. Vanir blaðamenn birta ekki í júlí tíðindi sem þeir vilja að fái útbreiðslu. Nema mikið sé í húfi. Það skyldi þó ekki vera að ritstjórinn hafi fregnað að ný gögn séu væntanleg á borð lögreglu? Krafa Þórðar Snæs um að rannsókn ljúki strax ber það með sér. Byrlunar- og símastuldsmálið má ekki upplýsa. Þá verða a.m.k. fimm blaðamenn fyrrverandi.
Athugasemdir
Það er eins gott að fagmaðurinn PV svari svona lygamerði sem Þórður Snær virðist vera.
Tafði sjálfur rannsókn málsins um hálft ár með því að neita að sinna þeirri borgaralegu skyldu sinni að mæta til skýrslutöku í sakamáli.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.7.2024 kl. 08:02
Hvernig fór með kröfuna um trygginguna?
Guðmundur Böðvarsson, 11.7.2024 kl. 12:43
Guðmundur, mér var gert af sýslumanni að leggja fram tryggingu. Löghlýðinn sem ég er þá lagði ég hana fram.
Páll Vilhjálmsson, 11.7.2024 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.