Ingi Freyr fær vernd uppljóstrara á RÚV

RÚV er rekið með 190 milljón króna tapi á fyrsta ársfjórðungi. Á nýlegum fundi stjórnar RÚV boðar Stefán Eiríksson útvarpsstjóri fækkun starfsmanna, bæði með að ráða ekki í störf sem losna og með uppsögnum. RÚV þarf að skera niður útgjöld upp á tæpar 300 milljónir í ár.

Hart er ári hjá RÚV fjárhagslega. Það er þó hjóm eitt í samanburði við siðferðilegan og faglegan kólgubakka við sjóndeildarhringinn, byrlunar- og símastuldsmálið. Fimm blaðamenn eru sakborningar, þar af fyrrum fréttamaður á RÚV, Aðalsteinn Kjartansson, nú á Heimildinni, og Þóra Arnórsdóttir, fyrrum ritstjóri Kveiks, nú vistuð á Landsvirkjun. Fyrrum stjörnufréttamaður RÚV, Helgi Seljan, er einnig bendlaður við málið.

Mitt í fjárhagslegu  og faglegu andstreymi RÚV, með frystingu á ráðningum, yfirvofandi uppsögnum og afhjúpun á miðlægu hlutverki ríkisfjölmiðilsins í sakamáli, er ráðinn á Efstaleiti einn sakborninganna í byrlunar- og símastuldsmálinu, Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður á Heimildinni. Ingi Freyr býr ekki að neinni reynslu af ljósvakamiðlun. Fréttabarn er léttara á fóðrum en reyndur blaðamaður. Ingi Freyr er af sama sauðahúsi og Aðalsteinn og Helgi Seljan. Blaðamenn sem kenna sig við rannsóknir en framleiða smjörklípur á saklaust fólk. Verðmæti Inga Freys sem innanbúðarmanns á RÚV er ekki fréttamennska.

Ingi Freyr hefur störf á RÚV í ágúst næst komandi. Í mars síðast liðnum gaf Stefán útvarpsstjóri út reglur sem heita Verklagsreglur vegna uppljóstrunar starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi Ríkisútvarpsins.

Fyrsta grein reglnanna er svohljóðandi:

Þessar verklagsreglur eru settar á grundvelli 5. gr. laga um vernd uppljóstrara nr. 40/2020. Þessar verklagsreglur gilda um allt starfsfólk Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV), stjórn og verktaka. Markmið reglnanna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi RÚV.

Ingi Freyr er ráðinn á RÚV undir þeim formerkjum að hann njóti verndar uppljóstrara. Ráðningin er tímabundin. Framhaldið ræðst af faglegri og, ef að líkum lætur, siðferðilegri frammistöðu. Eins og segja frá ,,lögbrotum og annarri ámælisverðri háttsemi", svo vitnað sé í Stefánsreglurnar.

Heimildin, þar sem Ingi Freyr starfaði til skamms tíma, er á hvínandi kúpunni og býður ekki upp á lífvænlega afkomu. Aldrei hafa færri skoðað Heimildina á netinu, skv. Gallup, en í nýliðinni viku, undir 12 þúsund. Skal ekki undra, annar ritstjórinn er sakborningur í lögreglurannsókn en hinn systir sakbornings í sama máli. Í fréttamennsku er venjan að segja frá afbrotum en ekki fremja glæpi og hylma yfir.

Embættisferill Stefáns Eiríkssonar endar með skömm sitji hann með hendur í skauti og bíði eftir að RÚV verði afhjúpað sem miðstöð í byrlunar- og símastuldsmálinu. Með sakamál á bakinu er ekki greiðfært að opinberum embættum. Stefán lætur af störfum á Efstaleiti næsta vor. Aftur, ef útvarpsstjóri beitir sér við að upplýsa alvarlegt sakamál, fær hann fjöður í hattinn.

Rólegt sumar dylur heitt haust.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband