15% Sjálfstæðisflokkur

Annar borgaraflokkanna í ríkisstjórn, Framsókn, heldur sjó með tíu prósent fylgi en móðurflokkur íslenskra stjórnmála er kominn niður í 15 prósent. Lætur nærri að Samfylking sé tvöfalt stærri. Jú, þetta er könnun og ár er til kosninga.

Staða Framsóknar og fylgisaukning Miðflokksins, sem fékk 5% í síðustu kosningum en mælist nú með 13% fylgi, sýnir að kjósendur eru ekki afhuga borgaralegri pólitík. Samfylking tók að vaxa er flokkurinn hallaði sér til hægri, hætti við ESB-aðild, samþykkti meiri skynsemi í útlendingamálum og talar fyrir heilbrigðum ríkisfjármálum. En móðurflokkurinn er rúinn trausti.

Ýmis mál eru nefnd sem ástæða fylgistaps Sjálfstæðisflokksins. Tiltekin og afmörkuð málefni hafa áhrif af val kjósenda, minna þó í könnunum en kosningum. Þeir sem svara spurningakönnun vita að þeir eru að gefa álit en ekki greiða atkvæði. Í kosningum eru yfirleitt, þó ekki alltaf, tiltekin mál sem þykja brýnni en önnur. Flokkar hafa flogið hátt í skoðanakönnunum en brotlent í kosningum. Í skoðanakönnunum eru engin kosningamál. Svarendur gefa álit, segja sína skoðun eins og mál standa.

Aðeins 15 prósent kjósenda hafa það álit að móðurflokkurinn sé besti kosturinn. Ef einstök og afmörkuð málefni eru lögð til hliðar er tvennt sem má nefna sem nærtækar skýringar.

Fyrir samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka, árið 2017, sat Sjálfstæðisflokkurinn uppi með arf hrunsins, klíkukapítalisma. Viðbrögð við hruninu voru að elta Samfylkinguna í kratisma, gera gælur við ESB (upptak evru), vöxt opinberra stofnana og fleira af því tæi. Eftir 2017 er Sjálfstæðisflokkurinn kominn í ríkisstjórn með Vinstri grænum, sérlunduðum flokki með trúarstef eins og transhugmyndafræði og manngerða hlýnun á dagskrá - auk opingáttarstefnu í útlendingamálum.

Sögulegur styrkur Sjálfstæðisflokksins er efnahags- og atvinnumál. En vegna arfleifðar hrunsins er flokkurinn enn skilorði. Salan á ríkishlut Íslandsbanka sýndi það. Salan var klúður en ekki nærri eins stórt og hamfarirnar sem mættu móðurflokknum gáfu til kynna. Fólk man enn hrunið og minnsti vottur um að sömu öflum verði gefinn laus taumurinn kallar á hörð viðbrögð. Af þessu leiðir liggja sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins ekki í einhverju snjöllu og sniðugu á sviði viðskipta- og efnahagsmála. Það mun alltaf enda illa.

Stjórnmál seinni ár snúast meira um gildi og lífssýn en krónur og aura. Þættir eins og verðbólga, vextir og atvinnustig eru enn á sjónsviði kjósenda en hafa hlutfallslega minna vægi en áður. Gildir ekki síst þegar vel árar.

Í gildum og lífssýn líður Sjálfstæðisflokkurinn fyrir að vera almenni þjóðkirkjuflokkurinn, lætur aðra um að móta stefnuna, fylgir í humátt eftir tískunni hverju sinni. Hver er stefna flokksins í transmálefnum? Hefur flokkurinn svarað hvort hann telji kyn líffræðilega staðreynd eða hugarfar? Verður karl kona með yfirlýsingunni einni saman: ég er kona? Í loftslagsmálum, sem snúast um gildi og lífssýn, tekur Sjálfstæðisflokkurinn upp stefnu Vinstri grænna. Enginn munur er á Gulla og Gumma í umhverfisráðuneytinu. Hvað með málaflokkinn lög og reglu? Hver er munurinn á Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum? Hvað með einkastríð Þórdísar Kolbrúnar gegn Rússlandi? Hvaðan kom sú hugdetta?

Með 15 prósent fylgi hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur efni á að láta aðra móta stefnuna. Í yfirstandandi menningarstríði fær flokkur án kjölfestu á valdi tískusjónarmiða lélega útkomu. Spyrjið bara Rishi Sunak formann Íhaldsflokksins breska og forsætisráðherra Bretlands þangað til á fimmtudag í næstu viku.

 

 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Að óbreyttu má Sjálfstæðisflokkur þakka fyrir að ná 15% fylgi í næstu kosningum. Hitt er svo stór spurning hvort Samfylking haldi flugi. Það veltur á því hversu fljótt gengið verður til kosninga. Nái stjórnin að lafa út kjörtímabilið er víst að Samfylking mun ekki halda flugi. Hvert atkvæðin fara er aftur stóra spurningin.

Kristrún kom sem stormsveipur inn í Samfylkinguna. Fór strax að líta til hægri í pólitíkinni, enda kannski betur sett meðal Sjalla. Dró til baka höfuðmálefni Samfylkingar og reyndar eina málið sem sá flokkur hefur getað sameinast um, aðildarumsókn að ESB. Hafði ákveðnar skoðanir á hælisleitendamálum, í andstöðu við flesta flokksfélaga, enda vigta dægurmál líðandi stundar þar þyngra en framtíðarpólitík. Fleiri þjóðþrifamál má nefna sem Kristrún kom með inn í flokkinn, mál sem ekki hugnast öllum flokksfélögum.

Framanaf hafði þetta þau áhrif á flokkinn að sumir engu úr honum en aðrir kyngdu ælunni. Hinn nýi formaður þótti ganga of langt til hægri, auk þess að hafa á baki sér drauga fortíðar. En fljótlega kom í ljós að andstaðan við þessa stefnubreytingu var meiri innanflokks en látið var og er þó ekki allt opinbert í þeim málum enn.

Nú hefur hinn nýi formaður verið gerð afturreka varðandi hælisleitendamál, enda miklir hagsmunir einstakra flokksfélaga þar í húfi. ESB málin eru enn utan almennrar umræðu en víst að þar er unnið hörðum höndum gegn formanninum. Ekki hvað síst af þeim sem áður voru í forustu og eiga enn sterk ítök innan flokksins.

Það fer enginn í grafgötur með að fylgi flokksins er til komið vegna hins nýja formanns. Þar er fyrst og fremst um að ræða fólk sem ekki er flokksbundið en gæti vel hugsað sér Kristrúnu til stjórnar landsins. Fylgið innanflokks við hana fer þverrandi.

Því skiptir öllu máli fyrir Samfylkingu að kosið verði sem allra fyrst. Hver mánuður sem líður veikir stöðu formannsins og ef flokksfélögum tekst að gera hana afturreka með sín þjóðþrifamál, s.s. ESB aðild, mun utanaðkomandi fylgið hrynja. Hvert þeir kjósendur snúa sér er svo aftur stóra spurningin. Kraftaverk þarf til að Sjálfstæðisflokkur nái til þeirra.

Gunnar Heiðarsson, 27.6.2024 kl. 15:45

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Úfff ekki koma með USA umræðuna um trans hér til Íslands takk fyrir !

Sleggjan og Hvellurinn, 27.6.2024 kl. 17:48

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gunnar Hreiðarson, eða með öðrum orðum, Samfylkingin er eins og sprengja, vænt dínamítdúndur.

Ingólfur Sigurðsson, 27.6.2024 kl. 18:26

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Afsakið, Gunnar Heiðarsson, ekki vil ég rangfeðra þig.

Ingólfur Sigurðsson, 27.6.2024 kl. 18:26

5 Smámynd: Anna Björg Hjartardóttir

Hið nýfengna fylgi Samfylkingarinnar er ekki allskostar vegna vinsælda Kristrúnar. Skýringin er mestmegnis kjósendur VG sem hafa yfirgefið flokkinn og leitað skjóls sem pólitískir flóttamenn hjá Samfylkingunni frekar en að vera flokkslausir. Búast má við róstursömu Landsþingi xS vegna nýrra samsetningar fylgis- og flokksmanna. Margt bendir til formaður Samfylkingarinnat muni vilja haga seglum eftir vindum í stefnumálum og sé því ekki á vísan að róa í samræmi à orðum og efndum líkt og VG hafa stundað glórulaust.  Samstarf S og VG í ríkistjórn 2009 -2013 einkenndist alfarið málefnasvikum enda margt líkt með skyldum.  Sjálfstæðisflokkurinn sannar eiginlega ámæli um að vera í gíslingu vinstri stefnumála því störfin einkennast orðið af sama vanda og varð VG að falli og olli fylgishruni Samfylkingarinnar í síðustu kosningu. Fylgistap Sjálfstæðismanna í 15% er af sama meiði. 

Anna Björg Hjartardóttir, 29.6.2024 kl. 07:57

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband