Stefán ræður sakborning á RÚV

Eftir að byrlunar- og símastuldsmálið vatt upp á sig losaði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sig við fréttamenn sem á einn eða annan hátt tengdust málinu. Haustið 2021 var tilkynnt um brotthvarf Rakelar Þorbergsdóttur fréttastjóra, næstu áramót lét Helgi Seljan af störfum. Síðla vetrar 2023 tók Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks pokann sinn. Öll þrjú koma við sögu í rannsóknargögnum lögreglu og Þóra sýnu mest; hún er með stöðu sakbornings.

Nú snýr Stefán útvarpsstjóri við blaðinu. Í stað þess að afþakka viðveru sakborninga á Efstaleiti eru þeir boðnir velkomnir til starfa. Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður á Heimildinni, áður Stundinni, er orðinn fréttamaður á RÚV, samkvæmt viðtengdri frétt.

Ingi Freyr er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu fyrir ,,annað og meira" en að taka við tölvupóstum með illa fengnu efni, segir í ársgamalli frétt Mbl.is. Ingi Freyr hefur ekki gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu, ekki frekar en fjórir meðsakborningar.

Aðeins grunaðir um glæp fá stöðu sakbornings í refsimáli. Það þýðir að gögn liggja fyrir um aðild viðkomandi að refsiverðri háttsemi. Ef aðrir en blaðamenn væru í þessari stöðu og skiptu um starf, og það þætti á annað borð frétt, yrði óðara spurt hvort heppilegt sé að ráða sakborning til starfa. Ekki síst ef um væri að ræða opinbera stofnun, líkt og RÚV. Þá myndu fjölmiðlar krefja sakborninga svör um málsaðild. Í viðtengdri frétt er ekki minnst einu orði á réttarstöðu Inga Freys. Vísir gerir fréttinni skil á sömu forsendum - það sætir ekki tíðindum að nýráðinn fréttamaður RÚV er grunaður um glæp.

Enginn blaðamaður spyr Inga Frey hvers vegna hann sé sakborningur. Ekki skrifaði Ingi Freyr fréttir með vísun í stolin gögn sem fengin voru með byrlun. Aðild hans hlýtur að vera annars eðlis en að skrifa fréttir. Tilfallandi hefur áður fjallað um sérstaka nálgun Inga Freys á blaðamennsku. Í félagi við Helga Seljan, þá á RÚV, gerði Ingi Freyr, þá á Stundinni, atlögu að mannorði Hreiðars Eiríkssonar lögmanns. Hér er úrdráttur:

Hýenur ráðast ekki einar og stakar á fórnarlömb sín. Þær eru alltaf tvær eða fleiri saman. Hýenublaðamenn hafa sama háttinn á. Ingi Freyr starfaði á Stundinni árið 2020 en Helgi Seljan var á RÚV. Með því að hringja í fiskistofustjóra með sama erindið sama dag láta þeir skína í að tvær sjálfstæðar ritstjórnir hafi komist að sömu niðurstöðu, að Hreiðar Eiríksson væri brotlegur í starfi. Hýenurnar Helgi og Ingi Freyr höfðu samráð, stilltu saman strengina fyrir atlöguna að mannorði og afkomu Hreiðars. Þeir vildu Hreiðar rekinn úr starfi.

Allt ber að sama brunni. Fjölmiðlar telja blaðamenn friðhelga fyrir gagnrýnni umfjöllun sem aðrir í samfélaginu sæta af hálfu blaðamanna. Blaðamenn með stöðu sakborninga í alvarlegu refsimáli valsa á milli fjölmiðla ónæmir fyrir siðferðilegum kröfum sem öðrum samfélagsþegnum er gert að mæta. Umfjöllun fjölmiðla um byrlunar- og símastuldsmálið sýnir ríka hjarðhegðun blaðamannastéttarinnar annars vegar og hins vegar tvöfalt siðgæði. 

Óhugsandi er að Ingi Freyr hafi verið ráðinn á fréttastofu RÚV án aðkomu Stefáns útvarpsstjóra. Stefán hefur verið þýfgaður um starfsmannamál af minna tilefni, bæði af fjölmiðlum og stjórn ríkisstofnunarinnar. 

Ingi Freyr er ekki einn um að yfirgefa Heimildina. Í síðasta mánuði stökk frá borði Freyr Rögnvaldsson blaðamaður og varð almannatengill Sólveigar Önnu í Eflingu. Gamalreyndir blaðamenn eru þungir á fóðrum. Það sem meira er; þeir vita manna fyrstir er reksturinn byrjar að hökta.

Samkvæmt Gallup-mælingu er Heimildin með litlu meiri lestur en tilfallandi blogg, um 12 þúsund lesendur á viku en tilfallandi lesa um tíu þúsund. Í notendum er Heimildin ekki hálfdrættingur á við Mannlíf Reynis Trausta sem hefur margfalt minni ritstjórn. Auglýsendur sem kaupa þjónustu Heimildarinnar gera það ekki til að fá athygli heldur halda útgáfunni á floti. Vitað er að sumir kaupa áskrift og auglýsingar hjá Heimildinni til að fá ekki um sig neikvætt umtal í útgáfunni.

Kannski hyggst Stefán útvarpsstjóri tileinka sér sniðmát Heimildarinnar. Ráða til RÚV fréttamenn með flekkað mannorð og ósvífið hugarfar til að herja á mann og annan með fölskum ásökunum og skipuleggja árásir á einkalíf og heilsu manna ef annað þrýtur. Glæpaleiti stendur æ betur undir nafni.


mbl.is Ingi Freyr til Rúv frá Heimildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Það er eitthvað mikið að á RÚV. Er alveg borin von að það verði rannsakað hvað er í gangi á RÚV. 

Sigurður I B Guðmundsson, 22.6.2024 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband