Ekki-lesendur Heimildar afhjúpaðir

Heimildin prentar 36 þúsund eintök vikulega. En vikulegir notendur vefútgáfunnar eru helmingi færri og gott betur, eða 15 þúsund. Ef Heimildin seldi vikulega eitthvað nálægt 36 þúsund eintök, í áskrift og lausasölu, ættu að sjást þess merki í fjölda notenda vefmiðilsins. En svo er ekki.

Í bloggi gærdagsins var fjallað um stöðu Heimildar á fjölmiðlamarkaði. Í umræðu á Facebook vakti Ingunn Björnsdóttir athygli á misræminu milli prent- og netmiðils Heimildar. Hún skrifaði

Er það ekki rétt skilið hjá mér að áskrifendur prentútgáfu Heimildarinnar hafi jafnframt aðgang að vefútgáfunni? Og ef svo er, eru þá um 20.000 í þeim hópi fólk sem aldrei fer inn á vefinn...

Óhugsandi er að áskrifendur Heimildarinnar fari í stórum stíl ekki inn á vefútgáfuna. Umferðin er margfalt meiri á vefsvæði Morgunblaðsins en nemur fjölda áskrifenda. Hlutföllin eru öfug hjá Heimildinni, helmingi færri fara á vefsvæði útgáfunnar en nemur meintum fjölda áskrifenda. Fjölmiðlaneytendur haga sér ekki á þann hátt sem Heimildarmenn vilja vera láta.

Sá sem kaupir prentáskrift af fjölmiðli fylgist einnig með vefútgáfunni enda fær áskrifandinn lykilorð að vefmiðlinum. Ef rétt er að áskrifendur prentútgáfu Heimildar séu um 36 þúsund ættu notendur vefútgáfu að vera að minnsta kosti tvöfalt eða þrefalt fleiri, liggja á bilinu 70 til 100 þúsund á viku. En þeir eru aðeins 15 þúsund. Hér fer ekki saman hljóð og mynd.

Einboðið er að áskrifendur Heimildar eru til muna færri en gefið er upp. Tvær aðferðir eru notaðar til blekkja. Í fyrsta lagi með frídreifingu í verslunum og bensínsjoppum, líkt rakið var í bloggi gærdagsins.

Í öðru lagi að sami aðili kaupi áskriftir í hundrað- eða þúsundavís. Í raun er það ígildi mánaðarlegs framlags til að halda útgáfunni á floti.

Magnkaup áskrifta eru af tvennum toga. Sumir kaupa áskriftir af velvilja til útgáfunnar, aðrir óttast illvilja Heimildarinnar og kaupa sér frið, greiða verndarfé gegn illu umtali.

Heimildin líkt og forverar, Stundin og Kjarninn, stundar herskáa umfjöllun um menn og málefni eins og alþjóð veit. Til að verða ekki fyrir barðinu á óvæginni fréttaherferð freistast menn með fjárráð að kaupa af sér illmælgi. Ritstjórn Heimildarinnar er ekkert heilagt í þeim efnum, fjórir blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Önnur óhefðbundin háttsemi Heimildar er að stefna þeim fyrir dómstóla sem voga sér að gagnrýna fjölmiðilinn, eins og tilfallandi bloggari þekkir á eigin skinni. Fréttir og umfjöllun eru ekki forgangsmál Heimildarmanna, heldur harðdræg varðstaða sérhagsmuna eigenda og lykilstarfsmanna.

Hverjir gætu verið magnkaupendur áskrifta? Björgólfur Thor Björgólfsson auðmaður er nánast aldrei til umfjöllunar á Heimildinni. Umsvif hans ættu þó að kalla á áhuga hýenublaðamanna Heimildarinnar. En það er ekkert að frétta. Er skýringin að Björgólfur Thor kaupir nokkrar þúsundir áskrifta af Heimildinni? Hundar bíta ekki höndina sem fæðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband