Laugardagur, 13. apríl 2024
Þöggunarmálssókn Aðalsteins
Varaformaður Blaðamannafélags Íslands og blaðamaður á Heimildinni, Aðalsteinn Kjartansson, fékk í gær tilfallandi bloggara dæmdan í héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða sér tæpar 2 milljónir króna í miskabætur og málskostnað. Þá voru ummæli dæmd ómerk.
Aðalsteinn er sakborningur í yfirstandandi lögreglurannsókn á byrlunar- og símastuldsmálinu. Fimm blaðamenn eru sakborningar, enn sem komið er. Auk Aðalsteins hafa tveir aðrir stefnt tilfallandi og fengið hann dæmdan til að greiða sér um 3 milljónir króna. Þeim dómi var áfrýjað til landsréttar. Málflutningur er í næsta mánuði.
Blaðamenn sem stunda þöggunarmálssóknir hafa eitthvað að fela. Enginn blaðamannanna fimm hefur gert hreint fyrir sínum dyrum í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir segjast þó fulltrúar upplýsingarinnar í opinberri umræðu og fá til þess ríkisstuðning upp á hundruð milljóna króna. Ríkisstuðningurinn er m.a. notaður til að stefna bloggara fyrir dóm og valda launamanni fjártjóni upp á milljónir króna.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað, síma hans var stolið og síminn var afritaður á RÚV. Fréttir með vísun í innihald símans birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum. Samsung-síminn sem notaður var til að afrita síma skipstjórans var keyptur af Þóru Arnórsdóttur á RÚV í apríl 2021. Skipstjóranum var byrlað 3. maí 2021. Eru tveir plús tveir ekki fjórir?
Tilfallandi hefur skrifað fáein blogg um málið, enda verið nánast einn um að upplýsa almenning um aðild blaðamanna að máli þar sem koma við sögu alvarleg afbrot, að ekki sé talað um siðlaus vinnubrögð. Vitað er hver byrlaði og stal. Þáverandi eiginkona skipstjórans hefur játað. Atburðarásin fyrir og eftir byrlun og stuld hefur öll einkenni skipulags. Konan sem byrlaði og stal skipulagði ekki að samræmdar fréttir um skæruliðadeild Samherja birtust samtímis í Stundinni og Kjarnanum að morgni dags 21. maí, tæpum þrem vikum eftir byrlun. Það var heldur ekki konan, sem stríðir við andlega vanheilsu, sem keypti símann á RÚV. En hún gæti hafa sagt Þóru á RÚV hvernig síma skyldi kaupa til afrita mætti síma skipstjórans.
Blaðamenn, sem nýttu sér verknað veiku konunnar, hafa ekki upplýst hvað þeir vita um málið. Tilfallandi bloggari hefur í skrifum sínum stuðst við fréttir og málsgögn, sem komin eru í dreifingu til sakborninga og brotaþola, og dregið ályktanir um líklega atburðarás. Þetta er það sem blaðamenn gera, eða ættu að gera. Tilfallandi telur mikilvægt að almenningur fái vitneskju um hvað gerðist vorið 2021. Um er að ræða alvarleg afbrot, þar sem þeir höggva er síst skyldu. Blaðamenn eiga að þjóna lýðræðislegri umræðu í upplýstu samfélagi. Það verður ekki gert með lögbrotum og siðlausum vinnubrögðum.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur nú í tvígang dæmt afmörkuð ummæli í tilfallandi bloggum dauð og ómerk. Lögreglurannsókn sem stendur yfir er hvorki dauð né ómerk. Lögreglan er með gögn sem nægja til að fimm blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans (nú Heimildarinnar) fengu réttarstöðu grunaðra. Það þýðir að rökstuddur grunur er um saknæmt athæfi blaðamanna. Hvorki tilfallandi né dómari héraðsdóms hafa aðgang að öllum þeim gögnum sem lögreglan býr yfir - aðeins hluti gagnanna er kominn í umferð.
Þótt málið sé enn í lögreglurannsókn er dæmt að ummæli eins og ,,Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð," skuli dauð og ómerk. En það liggur fyrir að Aðalsteinn er skráður höfundur fréttarinnar 21. maí, sem vísaði í gögn úr stolnum síma skipstjórans. Einnig er staðfest að Aðalsteinn skipti um vinnu í hádeginu 30. apríl 2021, fór af RÚV yfir á Stundina. Ef lögreglurannsókn leiðir í ljós að blaðamenn vissu fyrirfram að síma skipstjórans yrði stolið er örðugt að útskýra vistaskipti Aðalsteins þrem dögum fyrir byrlun á annan veg en þann að um skipulega aðgerð hafi verið að ræða. Þegar Aðalsteinn skipti um vinnu var búið að kaupa Samsung-símann sem notaður var til að afrita síma skipstjórans. Eru tveir plús tveir ekki fjórir?
Aftur voru eftirfarandi ummæli ekki dæmd dauð og ómerk:
Verðlaunin fengu þeir [blaðamenn] fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi.
Rökin fyrir að ummælin skulu ekki dauð og ómerk eru þau að ,,óumdeilt" sé að frétt Aðalsteins vísaði í stolin gögn úr síma Páls skipstjóra, segir í dómnum. Þótt dómurinn segi óumdeilt að Aðalsteinn vélaði með stolin gögn má ekki segja að hann eigi aðild ,,beina eða óbeina" að byrlunar- og símastuldsmálinu. Án byrlunar og stuldar hefði aldrei orðið nein frétt. Ekki heldur má skrifa að ,,Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur." Samt er óumdeilt að gögnin, sem voru tilefni fréttar Aðalsteins, eru stolin, fengin með byrlun. Síðan hvenær jafngildir þjófnaður rannsókn? Hér rekst hvað á annars horn. Röklegt samhengi atburða er slitið í sundur. Dómurinn viðurkennir að byrlun og stuldur fóru fram en segir meiðyrði að tengja afbrotin við fréttina sem Aðalsteinn er skráður fyrir. Þó er byrlun og stuldur forsenda fréttarinnar.
Meiðyrði er loðið og teygjanlegt lögfræðihugtak, sýnist leikmanni. Eðlilegast hefði verið að spyrja að leikslokum. Ekki rétta í málinu fyrr en niðurstaða sakamálarannsóknar liggur fyrir. Þegar gögn málsins liggja öll fyrir verður ljóst hvort tilfallandi fari nærri lagi um framvindu mála. Þá væri hægt að meta einstök ummæli í ljósi heildarmyndarinnar af atburðarásinni vorið og sumarið 2021.
Ef blaðamenn RSK-miðla eru saklaus englakór sem tilfallandi hefur haft fyrir rangri sök verður beðist afsökunar og tilfallandi étur ofan í sig fyrri orð. En nú þegar eru komnar fram þær upplýsingar að útiloka má aðildarleysi blaðamanna. Ef sakborningarnir bera engar eða óverulegar sakir væru þeir fyrir löngu búnir að leggja spilin á borðið, útskýra sína aðkomu að málinu. Tilfallandi hefur lesið lögregluskýrslur yfir sakborningum; þeir tala eins og harðsvíraðir afbrotamenn, neita öllu sem á borð er borið og hafna samvinnu við lögreglu að upplýsa málið. Heiðarlegt fólk aðstoðar lögreglu að upplýsa afbrot.
Þá sjaldan að grunaðir blaðamenn tjá sig opinberlega fara þeir iðulega vísvitandi með ósannindi. Þeir segja enga byrlun hafa farið fram, þeir fullyrða að lögreglan vilji upplýsingar um heimildarmann, þeir segja lögregluna stunda ofsóknir, þeir saka tilfallandi um að vera á launaskrá Samherja.
Allt er þetta fleipur og ósannindi í bergmálshelli blaðamanna. Meginstaðreyndir málsins eru kunnar; byrlun, stuldur og hagnýting blaðamanna á illa fengnu efni. Heimildin, sem tengir blaðamenn við gögn skipstjórans er vitanlega þáverandi eiginkona hans, sem játað hefur byrlun, stuld og afhendingu símans til blaðamanna. Einhver þarf að setja fram frásögn sem rímar við staðreyndir málsins og setja hlutina í samhengi. Ekki fara starfandi blaðamenn sjálfir á stúfana og upplýsa almenning. Þeir væru þá að fjalla um núverandi, fyrirverandi eða væntanlega starfsfélaga. Blaðamenn á Íslandi i fullu starfi á fjölmiðlum rétt losa hundraðið. Klíka eða innvígt bandalag, að ekki sé sagt mafía, telur fleiri hausa.
Tjáningarfrelsið deyr ef það er ekki nýtt. Tilfallandi telur til þegnskyldu að segja aðra frásögn um brýnt samfélagsmál en þá sem fjölmiðlar halda að almenningi. Einkum og sérstaklega er blaðamenn og fjölmiðlar stunda vinnulag afbrotamanna.
Tilgangurinn með þöggunarmálssókn Aðalsteins er gera dýrkeypt að andæfa ríkjandi fjölmiðlaveldi. Dómurinn í gær og fyrri dómur, þar sem félagar Aðalsteins áttu hlut að máli, fara nærri að kosta árslaun framhaldsskólakennara, en það er launavinnan sem tilfallandi byggir afkomu sína á.
Á maður að sætta sig við búa í samfélagi þar sem ríkisstyrktir fjölmiðlar kæfa málfrelsi borgaranna með þöggunarmálssóknum?
Nei.
Dómnum verður áfrýjað.
ps
lesendur hafa haft samband til að leggja lið. Tilfallandi vísar á bankareikning hér á síðunni, uppi til vinstri. Kærar þakkir.
Ummæli Páls um Aðalstein dæmd ómerk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Almenningur á rétt á upplýsingum um starfsemi sem hann greiðir fyrir með sköttum sínum. Hann stendur því í þakkarskuld við þig, hvort sem hann gerir sér grein fyrir því eða ekki, því málfrelsið er dýrmætasta eign hins frjálsa manns.
Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Ragnhildur Kolka, 13.4.2024 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.