Föstudagur, 12. apríl 2024
Skotið á Skytt, Þórður Snær og Sigríður Dögg njóta friðhelgi
Fréttastofa RÚV tekur vonum seinna upp fréttina um falsfréttamanninn Lasse Skytt og segir þann danska hafa ,,skrifað um íslensk málefni." Rétt eins og sá danski hafi skrifað léttvæga frétt sem Efstaleiti þekkir ekkert til.
Hér vantar fáeinar staðreyndir og samhengi þeirra.
Tilfallandi vakti í gær athygli á að Skytt skrifaði um eitt mál íslenskt, Namibíumálið og þann anga þess sem kallast byrlunar- og símastuldsmálið. Málin eru sjálfstætt framhald Seðlabankamálsins, sem RÚV hratt af stað fyrir tólf árum. Aðalheimildarmenn Skytt falsfréttamanns voru Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar og Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands og fréttamaður RÚV, nú í ,,leyfi."
Hvers vegna tala íslenskir fjölmiðlar ekki við Þórð Snæ og Sigríði Dögg og þýfga þau um samskiptin við Lasse Skytt? Er fréttastofa RÚV ekki með símanúmer Sigríðar Daggar? Þórður Snær er fastagestur á Efstaleiti sem álitsgjafi. Svarar hann ekki símanum þegar RÚV hringir?
Heimildin, undir ritstjórn Þórðar Snæs, er fyrsti íslenski fjölmiðillinn sem fjallar um afhjúpun Lasse Skytt í vetur. Heimildin birti fréttina mánudaginn 26. febrúar síðast liðinn, sama dag og Jyllands-Posten. Heimildin er ekki þekkt fyrir að vera fyrst með fréttirnar. En þarna var Heimildin langfyrst íslenskra fjölmiðla að segja frá stærsta fjölmiðlahneyksli á Norðurlöndum á þessari öld. Hver er skýringin?
Jú, Þórður Snær er innherji í málinu. Hann var í samskiptum við danska fagblaðið Journalisten, sem hafði birt falsfrétt Skytt mánaðarmótin janúar/febrúar 2023. Fréttin í Journalisten stendur enn - en nú leiðrétt. Sú leiðrétting sem snýr beint að Þórði Snæ er eftirfarandi
Við skrifuðum í fyrri útgáfu að Þórður Snær Júlíusson og þrír aðrir blaðamann hafi skyndilega fengið óvænta heimsókn í Reykjavík frá hópi lögreglumanna. Við höfum nú lagfært þetta, og segjum að þeir hafi verið símleiðis boðaðir í yfirheyrslu.
Vi skrev tidligere, at Thórdur Snær Júlíusson og tre andre journalistkolleger fik pludselig uventet besøg i Reykjavík af en gruppe politimænd. Det er nu rettet til, at de blev indkaldt telefonisk til en afhøring.
Journalisten hefði ekki getað leiðrétt þessa staðreyndavillu án þess að vera í sambandi við Þórð Snæ, sem er eina heimildin fyrir frásögn Skytt. Vinnan við leiðréttinguna fór fram aðeins örfáum dögum áður en Heimildin og Jyllans-Posten sögðu sínar fréttir, 26. febrúar í ár. Hvers vegna kom ritstjóri Heimildarinnar ekki fram undir nafni þegar Heimildin sagði fyrir sex vikum að Þórður Snær hefði verið fórnarlamb Skytt? Ritstjóri Jyllands-Posten steig fram í sínu blaði. Ef allt hefði verið með felldu hefði ritstjóri Heimildarinnar borið sig aumlega, hafandi verið illilega blekktur af dönskum blaðamanni. Víst er að Þórði Snæ líkar betur að vera í hlutverki brotaþola en geranda. En ritstjórinn, sem veit fátt skemmtilegran en að koma fram í fréttum, fór í felur í stað þess að upplýsa samskipti sín við Skytt.
Málið er að Þórður Snær tók þátt í blekkingunni, hann var gerandi en ekki þolandi. Lasse Skytt fór með ósannindi í þágu ritstjóra Heimildarinnar og meðsakborninga hans í byrlunar- og símastuldsmálinu.
Þórður Snær lét ósannindin, að lögreglan hefði sótt hann með valdi og flutt nauðugan norður í land, standa óhögguð í heilt ár. Tilgangurinn var að kaupa sér samúð í útlöndum og flytja inn í íslenska umræðu erlenda samkennd byggða á ósannindum. Þórður Snær er í felum núna, hann vill ekki svara fyrir að hafa látið lygi um ofbeldi lögreglunnar standa ómótmælt í heilt ár. Lygin var sett fram til að bæta stöðu Þórðar Snæs sem sakbornings í refsimáli. Það skýrir ársþögn ritstjórans.
Tilfallandi vakti athygli á lyginni þegar 14. febrúar í fyrra með bloggi, ,,Þórður Snær ofsóttur af sveit eyfirskra lögreglumanna." Þórður Snær lúsles tilfallandi athugasemdir - hann hefur stefnt höfundi fyrir dóm. Ritstjórinn treysti á að aðrir fjölmiðlar tækju ekki upp tilfallandi athugasemd og fylgdu eftir með fréttum. Þórður Snær og RSK-mafían hafa þannig tök á íslenskum fjölmiðlum. Það gekk eftir. Enginn blaðamaður þorði að skrifa um ósannindin þótt þau mætti lesa svart á hvítu - að vísu á dönsku.
Aftur: hvers vegna mótmælti Þórður Snær ekki ósannindum Lasse Skytt þegar þau fyrst birtust fyrir ári síðan? Ritstjóri Heimildarinnar vildi einfaldlega að lesendur Journalisten tryðu frásögninni um að blaðamenn á Íslandi væru ofsóttir af lögreglu, sem flytti þá með valdi á milli landshluta. Þórður Snær er sakborningur í refsimáli og gerir hvaðeina til sýna sig sem ofsóttan mann. Íslenskir fjölmiðlar eru meðvirkir, ljúga með þögninni í þágu sakborninga.
Sigríður Dögg bakkaði upp Þórð Snæ í ósannindunum. Í upphaflegri frétt Journalisten sagði formaður Blaðamannafélags Íslands ,,óskiljanlegt og óábyrgt að lögreglan boði í yfirheyrslu blaðamenn til að fá upplýsingar um heimildarmenn þeirra." Einnig sagði formaðurinn í grein Skytt í Journalisten
Það er ekki hægt að túlka þetta á annan veg en sem óeðlileg afskipti lögreglu af blaðamönnum. Þar fyrir utan torvelda afskipti lögreglu að blaðmenn afhjúpi önnur mál og heftir þar með störf þeirra.
Tilvitnanir eru í prentútgáfu Journalisten frá 29. janúar 2023. Samkvæmt uppfærðri og leiðréttri frétt Journalisten afturkallar Sigríður Dögg ummælin - ári eftir að þau fyrst birtust.
Hvað gengur formanni Blaðamannafélags Íslands til? Hvers vegna lætur hún óhróður um íslenskt samfélag standa standa ómótmælt í heilt ár? Hún er skráður höfundur óhróðursins í upphaflegri frétt Journalisten. Blaðamannafélag Íslands er með áskrift af prentútgáfu Journalisten. Á vefsíðu blaðamannafélagsins birtist endursögn á upphaflegri frétt Journalisten.
Í gær birtist athugasemd á vefsíðu Blaðamannafélagsins um að ummæli formannsins hafi verið tekin úr öðrum fjölmiðlum; Sigríður Dögg hafi ekki látið þau falla í samtali við Skytt.
Jæja, Sigríður Dögg, hvar og hvenær sagðir þú í fjölmiðlum að lögreglan hefði óeðlileg afskipti af blaðamönnum og að lögreglan vildi koma í veg fyrir að blaðamenn ,,afhjúpi önnur mál"? Hvaðan tók Skytt þessa tilvitnun nema beint úr þínum munni? Og ef þetta var skáldskapur hjá danska blaðamanninum hvers vegna beiðstu í heilt ár með að leiðrétta ummæli þín? Þú sem formaður BÍ hefur í frammi alvarlegar ásakanir á hendur lögreglu, að hún komi í veg fyrir að blaðamenn ræki sín störf. Þú lætur ummælin standa frá febrúar 2023 fram í mars 2024.
Sigríður Dögg reynir, rétt eins og Þórður Snær, að skrifa á reikning Lasse Skytt eigin ummæli. Þau létu falsfrétt Skytt um íslenskt samfélag standa ómótmælt í heilt ár. Ekki fyrr en Skytt var afhjúpaður sem falsfréttamaður í dönskum fjölmiðlum í febrúar í ár skriðu Sigríður Dögg og Þórður Snær undan steini og sögðu ranglega eftir sér höfð ummæli sem birtust fyrir ári síðan. Skötuhjúin létu sér vel líka að níðgrein um Ísland, með þau sem heimildarmenn, stæði óleiðrétt í dönskum fjölmiðli í eitt ár.
Í lokin: hvers vegna eru Þórður Snær og Sigríður Dögg ekki til umfjöllunar í íslenskum fjölmiðlum og spurð út samskiptin við Lasse Skytt? Ræður RSK-mafían fréttum fjölmiðla á Íslandi? Þarf tilfallandi blogg eitt og sér, án ríkisstuðnings, að tryggja að almenningur fái staðreyndir um mikilvæg mál og samhengi þeirra? Er helsta verkefni íslenskra fjölmiðla meðvirkni með blaðamönnum sem grunaðir eru um glæpi?
Athugasemdir
RÚV tók þessa frétt um falsfréttir Skytt fyrir um daginn. Ekki gat ég heyrt að nöfn þeirra Þórðar Snæs og Sigríðar Daggar kæmu þar sérstaklega til fyrir. Kannski gerir einhver framtakssamur fréttamaður á RÚV sérstakan þátt um aðkomu þeirra (eða ekki). Málið er í það minnsta fréttnæmara en ekki fréttir frá Namibíu.
Ragnhildur Kolka, 12.4.2024 kl. 10:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.