Miðvikudagur, 10. apríl 2024
Normal stjórnmál og afbrigðileg
Snyrtileg uppstokkun á ríkisstjórn, eftir að Katrín forsætis gekk frá borði, er til marks um að stjórnmálin á Fróni nálgist eðlilegt ástand. Samstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar fékk endurnýjað umboð við síðustu þingkosningar og ætlar að ljúka kjörtímabilinu. Það er ábyrgt og siðlegt.
Lýðræði og leikreglur haldast í hendur. Gildandi leikreglur er að þingmeirihluti komi sér saman um starfhæfa ríkisstjórn í eitt kjörtímabili hið minnsta. Áður en fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við 2017 ríkti óreiða í stjórnmálum. Tvær fyrri stjórnir luku ekki kjörtímabilinu, önnur náði ekki að fagna ársafmælinu. Lýðræði og óreiða eru andstæður, þrífast ekki hlið við hlið. Í óreiðu þrífst siðleysi.
Annað til vitnis um eðlileg stjórnmál er að formaður stærsta flokksins, Bjarni Benediktsson, er orðinn forsætisráðherra. Að Katrín fékk stólinn 2017 var til sanninda um afbrigðileg stjórnmál. Víst hafði Katrín alla burði sem einstaklingur að verkstýra ríkisstjórn; hún gerði það með sóma í sjö ár. En hún hafði aldrei þingstyrk sem formaður Vinstri grænna til eiga sanngjarna kröfu á forsætinu.
Katrín varð forsætisráðherra til að friðþægja villta vinstrið, sem er meginuppspretta óreiðustjórnmála. Bjarni Ben. er maður nógu stór í sniðum til að horfast í augu við pólitískan veruleika, fórna minni hagsmunum, forsætisráðuneytinu, fyrir meiri; pólitískan stöðugleika. Vel fer á að hann leiði ríkisstjórnina til loka kjörtímabilsins. Almælt er að Bjarni hyggist hverfa frá vettvangi stjórnmálanna er kjörtímabilið rennur sitt skeið. Vonandi sér hann sig um hönd.
Enn er til marks um normalíseringu stjórnmálanna að forsetaframboð Katrínar fær fljúgandi start. Könnun sýnir þriðjungsfylgi. Stjórnin sem hún yfirgefur nýtur ekki alþýðuhylli en kjósendur sjá í Katrínu þjóðhöfðingjaefni. Pólitískar þrætur eru eitt en í eðlilegu stjórnmálaástandi nýtur fólk verðleika sinna.
Nokkur sláttur er á stjórnarandstöðunni vegna uppstokkunar landsstjórnarinnar, sem vonlegt er. Hlutverk stjórnarandstöðu hvers tíma er andóf. Hávaðinn er ekki meiri en svo að samstaða virðist um að forsetakjörið í sumar fari sómasamlega fram með hófstilltri orrahríð. Að kjöri loknu verður hugað að kosningavetri.
Að svo mæltu styður tilfallandi tillögu Sigmundar Davíðs að Brynjar Níelsson lýsi söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á RÚV. Brynjar fór fyrir skemmstu í starfskynningu á Efstaleiti og lét vel af aðstöðunni. Stefán útvarpsstjóri tók honum með kostum og kynjum, sjálfsagt orðinn leiður á að vísa óhæfu starfsfólki út bakdyramegin. Brynjari er ekkert að vanbúnaði, nú öllum hnútum kunnugur á ríkisfjölmiðlinum. Dagskrárliðurinn yrði á ný eðlileg fjölskylduskemmtun.
Síðasta myndin af ríkisstjórn Katrínar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Brynjar Júró? já takk.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.4.2024 kl. 13:12
Raðfalsari í vanda..https://www.ruv.is/frettir/erlent/2024-04-10-ae-fleiri-fjolmidlar-taka-skrif-bladamannsins-lasse-skytt-ur-birtingu-409905
Guðmundur Böðvarsson, 10.4.2024 kl. 19:29
Í lýðræði þrífst alltaf siðleysi. Meira nú en oft áður vegna þess hve stór hluti þjóðarinnar hefur horfið frá Almáttugum Guði.
Guðmundur Örn Ragnarsson, 10.4.2024 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.