Sunnudagur, 7. apríl 2024
Staðreyndir og samhengi Sigríðar Daggar
Staðreyndir og samhengi þeirra er viðfangsefni blaðamanna, segir í auglýsingaherferð Blaðamannafélags Íslands. Formaður Blaðamannafélagsins, Sigríður Dögg, gefur sjálfri sér undanþágu frá kröfum blaðamanna um staðreyndir og samhengi.
Sigríður Dögg upplýsir ekki staðreyndir í skattsvikamáli sínu. Samhengi skattsvikanna er einnig á huldu. Björn Bjarnason vekur athygli á málinu og segir:
Að leitin að staðreyndum megi ekki beinast að blaðamönnunum sjálfum hefur birst undanfarið í þeim hópi sem stendur vörð um Sigríði Dögg sem formann BÍ.
Blaðamannafélagið segir að staðreyndir og samhengi þeirra séu helstu rökin fyrir blaðamennsku. Sigríður Dögg formaður félagsins segir aftur að um sumar staðreyndir skuli ríkja þögn og alls ekki setja í samhengi.
Sigríður Dögg hefur játað að hafa stolið undan skatti. En hún upplýsir ekki um staðreyndir málsins, til dæmis hve fjárhæðin var og hvernig uppgjöri við skattinn var háttað. Viðskiptablaðið bendir á að formaðurinn hafi í hlaðvarpi sósíalista, Samstöðinni, játað:
Þetta voru alveg stórar upphæðir, ég viðurkenni það.
Út frá umfangi rekstursins, Airbnb-leigu á íbúðum til ferðamanna, er líklegt að Sigríður Dögg hafi stungið undan skatti um 100 milljónum króna. Skattsvikin voru skipulögð, stóðu yfir í nokkur ár. En það eru ekki staðreyndir sem fjallað er um og heldur ekki samhengi þeirra.
Upp komst um skattsvikin síðast liðið sumar. Sigríður Dögg var þá starfandi fréttamaður á RÚV. Í fundargerð stjórnar RÚV 27. september kemur fram að málefni formanns Blaðamanna voru rædd. Þar segir
Útvarpsstjóri var spurður um umfjöllun í fjölmiðlum um starfsmann félagsins þar sem komu fram ásakanir á hendur viðkomandi. Útvarpsstjóri kvaðst hafa rætt við starfsmanninn og taldi ekki þörf á því að málið yrði skoðað nánar.
Fréttastofa RÚV getur ekki fjallað um skattsvik í samfélaginu á trúverðugan hátt á meðan skattsvikari með ,,stórar upphæðir" á samviskunni starfar á fréttastofu. Stefán Eiríksson virðist hafa gefið Sigríði Dögg frest til áramóta að ganga frá sínum málum á RÚV. Í byrjun árs tilkynnti hún launalaust leyfi frá fréttastofu, rak framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins til áratuga og settist sjálf í stól hans. Jafnframt neitaði formaðurinn að tjá sig frekar um ,,staðreyndir og samhengi þeirra."
Nú er tilkynnt að nýr framkvæmdastjóri Blaðamannafélagsins hefji störf í lok maí. Sigríður Dögg vill áfram laun, ekki lengur sem framkvæmdastjóri, heldur sem formaður. Áður en hún varð formaður var staðan launalaus. Þetta kallar hún ,,að skerpa á reglum félagsins hvað varðar sjóði þess."
Sigríður Dögg virðist einnig ætla að taka upp fyrri störf á RÚV. Ég hef ekki samið um neitt annað, segir hún í viðtengdri frétt. Skringilegt orðalag um launalaust leyfi. Það er ekki veitt ótímabundið. Hvar er staðreyndin um endurkomu Sigríðar Daggar á RÚV? Og ef hún byrjar aftur fréttamennsku á ríkismiðlinum verður hún jafnframt á launaskrá Blaðamannafélagsins? Er það ekki tvöfeldni á tvöföldu kaupi? Mun Sigríður Dögg fjalla um skattsvikamál annarra sem fréttamaður?
Hér vantar töluvert upp á að staðreyndir séu lagðar á borðið og samhengi þeirra útskýrt. Blaðamennskan er léleg. Framganga Sigríðar Daggar ómerkir auglýsingaherferð Blaðamannafélagsins. Á mælikvarða blaðamennskunnar, eins og hún er skilgreind af Blaðamannafélagi Íslands, heldur formaður félagsins ekki máli. Svona álíka og brennuvargur sjái um brunavarnir.
Í viðtengdri frétt segist Sigríður Dögg ætla að reka félagið ,,með gegnsæi og traust að leiðarljósi, þannig að öll starfsemi þessa félags verði félagsmönnum til sóma." Sæmd og stuldur eru andstæður, ekki hliðstæður.
Harðsnúið stuðningslið Sigríðar Daggar eru blaðamenn RSK-miðla - RÚV og Stundin/Kjarninn, sem nú heita Heimildin. Fimm þeirra eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Einsdæmi í sögunni er að stéttafélag blaðamanna sé í höndum skattsvikara og sakborninga i refsimáli. En sú staðreynd fær litla umfjöllun og er enn síður sett í samhengi.
Vill fá laun fyrir formennskuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er nú ekki falleg lýsing á formanni blaðamannafélagsins. Minnir mig á þegar ég var í sveit og ein kona úr sveitinni var bæði fingralögn, hrokafull og átti erfitt með að segja sannleikann. Fékk þá umsögn lögnu áður en hún dó. Blessunin var bæði þjófótt lygin og ómerkileg. það fylgdi henni alla tíð. Einhvern tímann hefðu svona skrif sem ekki hafa verið hrakin verið tekin upp á Álþingi og viðkomandi starfsmaður fljótt leyst undan starfskyldu, og gefin tækifæri að fara í meðferð og síðan endurhæfingu.
Sigurður Þorsteinsson, 7.4.2024 kl. 09:52
Sigríður Dögg virðist ekki ganga heil til skógar.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.4.2024 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.