Miðvikudagur, 13. mars 2024
Andrésarkviða snöggheimska
Í stað þess að puða í áravís á skólabekk væri ekki einfaldara ef maður gæfi upp nafn og kennitölu og fengi prófgráðu senda heim?
Ofangreind hugsun er fengin að láni frá Andrési Inga Jónssyni þingmanni Pírata. Þingmaðurinn skrifar montgrein á Vísi að hann sé höfundur snöggskilnaðar.
Snöggskilnaður er í stuttu máli sá möguleiki að ganga í hjónaband fyrir hádegi en skilja eftir hádegi. ,,Við megum vera ánægð með að hafa náð í gegnum Alþingi þessari litlu breytingu á hjúskaparlögum sem einfaldar lífið hjá fólki," skrifar hróðugur Andrés Ingi.
Hvers vegna ekki að yfirfæra hugmyndina á önnur svið þjóðlífsins, til dæmis prófgráður frá skólum? Má ekki einfalda lífið og auðvelda aðgengi fólks að prófgráðum? Skólaganga er frjálst val, rétt eins og hjónaband. Í báðum tilvikum er um að ræða opinbert skjal um tiltekna stöðu mála. Einhver veifar prófskírteini, aðrir vígsluvottorði. Hvers vegna má ekki bjóða hvorttveggja í sjálfsafgreiðslu?
Sumt í lífinu glatar gildi sínu ef frjálslega er farið með. Ef hjónaband má leysa upp á þeim tíma sem tekur að skipta um sokka verður það ómerkilegra og tilgangslausara en áður. Sama gildir um prófgráður; þær verða ekki pappírsins virði ef hver sem er getur fengið gráðuna út á nafn og kennitölu, svona eins og hjónaband. Auðvitað fjarska þægilegt og hentugt. Einkum fyrir ábyrgðalaust fólk sem vill fá allt upp í hendurnar án þess að leggja neitt af mörkum sjálft og alls ekki axla ábyrgð á eigin ákvörðunum.
Hjónaband og menntun krefjast alúðar og oft þrautseigju. Lög eru um hjúskap og prófgráður. Tilgangurinn er að hafa skýrt form og innihald. Prófskírteini gerir ráð fyrir að handhafi hafi staðist skilgreindar kröfur. Hjónavígsla er skuldbinding tveggja einstaklinga að deila kjörum. Prófgráður og hjónaband veita lögformleg réttindi. Þingmaður sem gortar sig af því að auðvelda fólki að hlaupast undan skuldbindingum sínum er ekki starfi sínu vaxinn.
Ljúkum Andrésarkviðu snöggheimska með stílfærslu á upphafsorðum pistilsins á Vísi: imbi og alþingismaður er ekki alltaf besta blandan.
Athugasemdir
Á ekki til orð að þingmenn samþykki svona frumvarp. Augljóst hvað vakir fyrir þingmanninum, veita fólki dvalarleyfi vegna hjónabands við Íslending. Hversu vitlausir geta þingmenn verið, spyr bara. Vona að næsta þing (vonandi án Andrésar Inga) afnemi svona vitlaus lög ,,med det samme."
Helga Dögg Sverrisdóttir, 13.3.2024 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.