Þórður Snær og Lasse falsfréttamaður

Danski blaðamaðurinn og almannatengillinn Lasse Skytt skrifaði í samvinnu við Þórð Snæ á Heimildinni og Sigríði Dögg formann Blaðamannafélags Íslands málsvörn fimm sakborninga í byrlunar- og símastuldsmálinu. Í gær var Lasse afhjúpaður sem falsfréttamaður, ritþjófur, af dönsku fjölmiðlunum PolitikenJyllands-Posten og fagritinu Journalisten.

Rifjum upp hvaða þjónustu Þórður Snær og Sigríður Dögg fengu hjá Lasse Skytt. Tilfallandi bloggaði um áramótin:

Fimm blaðamenn eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu. Þeir bjuggust við ákæru á útmánuðum ársins sem er að líða. Til að undirbúa málsvörnina í opinberri umræðu réðu þeir danskan almannatengil/blaðamann, Lasse Skytt. Hugmynd sakborninga var að fá jákvæða erlenda umfjöllun og flytja hana inn í íslensku umræðuna. Frægðin skyldi koma að utan, um leið og traðkað væri á íslenska réttarríkinu og það sakað um að ganga erinda auðvaldsins.

Skytt fékk birtar tvær málsvarnargreinar íslensku blaðamannanna. Sú fyrri birtist í Aftenposten-Innsikt. Greinin endaði sem stórslys. Ritstjóri Aftenposten baðst afsökunar á allri greininni: ,,Verkferlar hjá okkur brugðust. Grunnatriði blaðamennsku er að ásakanir séu bornar undir þá sem þær beinast að. Það var ekki gert í þessu tilviki." Svona hugsa og skrifa blaðamenn sem hafa metnað fyrir eigin hönd og blaðamennskunnar. Biðjast afsökunar þegar þeim verður á í messunni. Íslenskir blaðamenn ýmist forherðast eða þegja hjárænulega í von um að syndirnar falli í gleymsku og dá. Svikamylla stéttvísra blaðamanna fær frið til að byrla almenningi eitruð ósannindi í bland við þögn um ekki-atburði; skaffar jafnframt rúmlega 100 stéttvísum þægilega innivinnu á ríkistryggðum launum.

Seinni greinin, sem Skytt skrifaði fyrir sakborningana, birtist í fagriti danskra blaðamanna. Kjarni þeirrar greinar er endurbirtur í fagútgáfu Blaðamannafélags Íslands. Fyrirsögnin er afhjúpandi: ,,Landið þar sem blaðamenn hættu að skipta máli."

Í gær voru danskir fjölmiðlar í yfirtíð að afsaka sig fyrir að hafa fallið fyrir falsfréttum Lasse Skytt, sem hann skrifaði sem lausamaður og seldi aðskiljanlegum miðlum dönskum.

Hér á Íslandi gerist það undarlega að Heimildin, sem Þórður Snær ritstýrir, birtir frétt síðdegis í gær um Lasse Skytt. Ekki fyrr en í niðurlagi fréttarinnar á Heimildinni er sagt frá ,,afrekum" Skytt í Namibíumálinu annars vegar og hins vegar byrlunar- og símastuldsmálinu.

Hér er eitthvað málum blandið og það verulega. Heimildin er langfyrst íslenskra fjölmiðla til að birta umfjöllun um falsfréttamanninn Skytt. Afhjúpunin fór fram í Danmörku en Heimildin er með tilbúna frétt.  Heimildin býr bersýnilega að innherjaupplýsingum. Kíkjum nánar á framferði og hegðun Þórðar Snæs og umgengni hans við sannleikann.

Þórður Snær gerir sér far um að misnota stöðu sína sem ritstjóri. Fyrir tveim vikum skrifaði hann tveggja síðna leiðara í Heimildina um byrlunar- og símastuldsmálið. Þar afneitaði hann þekktum staðreyndum, að Páli skipstjóra var byrlað og sími hans afritaður. Það liggur fyrir játning þáverandi eiginkonu skipstjórans að hún byrlaði eiginmanni sínum, stal síma hans og lét fréttamann á Efstaleiti fá símtækið til afritunar. Einnig liggur fyrir að búið var að kaupa Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, fyrir byrlun. Þá er upplýst að staðsetningarbúnaður í síma skipstjórans staðfestir að símtækið fór inn á ritstjórn RÚV á Efstaleiti.

Þórður Snær er enn á sama rólinu og hann var fyrir ári með Lasse Skytt. Með þeim danska kokkaði ritstjóri Heimildarinnar upp frásögn um að hópur lögreglumanna hefði með valdi sótt Þórð Snæ og félaga til Reykjavíkur og flutt nauðuga norður yfir heiðar. Eftir að upp komst um falsfréttir Skytt breytti Jornalisten frásögninni. Í lok uppfærðrar fréttar segir:

Við skrifuðum í fyrri útgáfu að Þórður Snær Júlíusson og þrír aðrir blaðamann hafi skyndilega fengið óvænta heimsókn í Reykjavík frá hópi lögreglumanna. Við höfum nú lagfært þetta, og segjum að þeir hafi verið símleiðis boðaðir í yfirheyrslu.

Vi skrev tidligere, at Thórdur Snær Júlíusson og tre andre journalistkolleger fik pludselig uventet besøg i Reykjavík af en gruppe politimænd. Det er nu rettet til, at de blev indkaldt telefonisk til en afhøring.

Þá er einnig leiðrétt að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hafi skrifað grein í Morgunblaðið til stuðnings lögreglu. Í reynd skrifaði Bjarni Facebook-færslu. En það er dramatískara að hann hafi skrifað grein í Morgunblaðið. Þá var hægt að tengja málið við Davíð Oddsson sem var og gert. Skilaboðin í upphaflegu útgáfunni eru að formaður Sjálfstæðisflokksins styddi ofsóknir lögreglu á hendur blaðamönnum. Morgunblaðið væri í þokkabót sérstakur bakhjarl aðgerða gegn tjáningarfrelsinu.

Uppfærsla fréttarinnar í Journalisten er dagsett 23. febrúar, fyrir fjórum dögum. Ritstjóri Journalisten í Danmörku þekkir ekkert til íslenskra mála. Skráður höfundur upphaflegu fréttarinnar, falsfréttamaðurinn Skytt, lætur ekki ná í sig. Hver gæti verið heimildin fyrir leiðréttingu danska ritstjórans? Það kemur aðeins einn til greina: Þórður Snær Júlíusson.

Þórður Snær er innherji í málinu. Hann vissi að minnsta kosti fyrir fjórum dögum að Lasse Skytt yrði afhjúpaður. Í leiðinni lygarnar um valdníðslu íslensku lögreglunnar gagnvart blaðamönnum og lygin um Mogga-grein Bjarna Ben. Þórður Snær notaði tímann til að hanna saklausa frétt í Heimildina, og gætti þess að hafa nafn sitt hvergi nærri. Þegar danskir fjölmiðlar hófu fréttaflutning í gær var hönnuð frétt Þórðar Snæs tilbúin til birtingar. Hugsunin hjá ritstjóra Heimildarinnar var að saklausa fréttin sem birtist í gær skyldi tæma málið. Ekki væri neitt meira að segja um Skytt og fréttafölsunina um byrlunar- og símastuldsmálið. 

En það er öðru nær að málið sé tæmt. Mikilvægum spurningum er ósvarað.

Hvers vegna lét Þórður Snær ósannindi um valdbeitingu íslensku lögreglunnar og blaðagrein Bjarna Benediktssonar standa óleiðrétt í útlenskum fjölmiðli í heilt ár? Hvers vegna óskaði Þórður Snær ekki strax eftir leiðréttingu þegar upphaflegu ósannindin voru birt 7. febrúar í fyrra? Tilfallandi vakti athygli á lyginni þegar 14. febrúar í fyrra með bloggi undir fyrirsögninni ,,Þórður Snær ofsóttur af sveit eyfirskra lögreglumanna."

Þórður Snær og Lasse falsfréttamaður eru af sama sauðahúsi. Annar er lygari til leigu en hinn lýgur sér til frama, - enda margverðlaunaður af Blaðamannafélagi Íslands sem stýrt er af skattsvikara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll.

Stundum er ekki hægt að orða hlutina betur; "Annar er lygari til leigu en hinn lýgur sér til frama, - enda margverðlaunaður af Blaðamannafélagi Íslands sem stýrt er af skattsvikara.".

Jafnvel þó bæði Laxness og Shakespeare leggðu í púkk.

Sorglegt en satt.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 27.2.2024 kl. 14:01

2 Smámynd: Landfari

Verð að taka undir með Ómari.

Snyrtilega orðað hjá þér Páll.

Landfari, 27.2.2024 kl. 16:34

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 "Upp úr sápuvatni sannleikans þvær lygin sína ull" þannig yrkir Laxness.

Helga Kristjánsdóttir, 28.2.2024 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband