Miðvikudagur, 7. febrúar 2024
Tucker og Pútín, gamla vinstrið og nýja
Sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson staðfestir að hann fái viðtal við Pútín Rússlandsforseta. Það yrði fyrsta viðtal vestræns fjölmiðlamanns við Pútín frá upphafi Úkraínustríðsins fyrir tveim árum.
Vinstrimenn froðufella vegna viðtalsins, segir í bandarískum spjallþætti. Vestræna vinstrið vill slaufa Pútín, í mesta lagi sýna hann sem óalandi og óferjandi. Alls ekki virða hann til viðtals. Fyrir sjö árum átti leikstjórinn Oliver Stone viðtal við Pútín og það þótti ekki vel gott. Núna er forseti Rússlands ótækur í betri stofur vinstrimanna. Raunsæir hægrimenn eru aftur ekki frábitnir að heyra sjónarmið Kremlarbónda.
Vinstrimenn á vesturlöndum urðu ekki and-rússneskir fyrr en um miðjan síðasta áratug. Á dögum kalda stríðsins var ekki um að ræða almenna andúð vinstrimanna á Sovétríkjunum. Kratavinstrið galt varhug en kommar sýndu meiri skilning, og lengi vel aðdáun. Eftir fall járntjaldsins breyttist það ekki. Hægfara vinstrimenn höfðu samúð með erfiðu umbreytingaskeiði Rússlands og gömlu kommarnir bættu jafnvel í elsku sína á öllu rússnesku.
En um miðjan síðasta áratug verður gjörbreyting á afstöðu vinstrimanna. Ekki er hægt að kenna um valdatöku Pútín. Hann varð forsætisráðherra 1999 og skömmu seinna forseti. Í 15 ár létu vestrænir vinstrimenn sér vel líka Pútín.
Tvennar kosningar á vesturlöndum um miðbik síðasta áratugar framkölluðu gjörbreytta afstöðu vinstrimanna. Sumarið 2016 kusu Bretar úrsögn úr Evrópusambandinu, Brexit. Haustið sama ár fær Trump kjör sem forseti Bandaríkjanna. Í báðum tilvikum sveið vinstrimönnum sárt enda breyttist draumsýn í martröð á sex mánuðum. Alþjóðahyggjan, sem Sovétríkin stóðu fyrir, hafði fengið heimilisfestu í Brussel. Brexit og Trump eyðilögðu hugsjónina um vinstrikapítlískt alþjóðasamfélag.
Eftir kalda stríðið varð til óformlegt bandalag vinstrimanna og kapítalista, einkum nýríkra úr tölvu- og upplýsingatæknigeiranum. Helmingaskiptin gengu út á að vinstrimenn fengu menninguna en hægrimenn viðskiptin. Vinstrimenning er mjög hinsegin, eins og alþjóð þekkir; mörg kyn og frjálst valhopp úr einu í annað mannréttindi. Karl fyrir hádegi, kella síðdegis og sjötta kynið á morgun. Hægrimenn fengu í staðinn frjáls viðskipti. TTIP-fríverslunarsamningurinn milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins átti að verða gimsteinninn í krúnunni. Allt fór það í hundana með kjöri Trump, sem í ofanálag vill ekki transa börn. Helgispjöll að mati vinstrimanna.
Einhverjum varð að kenna um brostnar vonir og töpuð helmingaskipti. Vinstri- og frjálslyndum hægrimönnum var lífsins ómögulegt að skilja að almenningi fannst lítið til koma vinstrikapítalíska alþjóðaríkisins. Pútín var kennt um kosningaúrslitin beggja vegna Atlantsála. Allt kjörtímabil Trump 2017-2021 stóð yfir linnulaus áróður um að hann væri strengjabrúða Pútín. Varla voru kosningar haldnar í Vestur-Evrópu án þess að sá rússneski kæmi nærri, sögðu léttgeggjaðir vinstrimenn og fjölmiðlar þeirra.
Einhverjir myndu vilja bæta Úkraínudeilunni við sem ásteytingarsteini, ekki síst frá Krímtökunni 2014. En það er langsótt. Úkraína var hvorki hjartfólgin vinstri- né hægrimönnum fyrr en landið þótti þénugt til að berja á Pútín og Rússum.
Ferðalag vinstrimanna frá vinsemd í garð Rússa yfir í stækt hatur hefur minnst með Pútín og Rússland að gera. Vinstrimenn einfaldlega gengu af göflunum. Þeir sukku ofan í kynræn kjánapriksfræði annars vegar og hins vegar fíflagang um loftslagsvá. Völdu sér þar sem fyrirmynd aríska stúlku með fléttur, rétt eins og fylgismenn Dolla á þriðja áratug síðustu aldar. Siðblinda, sjálfselska og machiavellismi í einum hrærigraut. Eins og Karl gamli Marx sagði, sagan endurtekur sig, fyrst í búningi harmleiks síðan fáránleika.
Viðtal Tucker við Pútín verður fróðlegt.
Athugasemdir
Viðtalid verður án efa fróðlegt og viðbrögð á Vesturlöndum ekki síður. Tímabært að birgja sig upp af poppi.
Ragnhildur Kolka, 7.2.2024 kl. 11:23
Gaman að sjá þau íhaldssömu fagna viðtali við sinn nýja leiðtoga, auðvitað gæti það verið þá Tucker Carlson (TC) eða Putin, líklega báðir í miklum metorðum hjá íhaldskórnum hér.
Hitt er svo sorglegra en tárum taki að sjá Tilfallandi stökkva hér á vagn ósanninda, líklega vitandi betur.
Auðvitað veit Tilfallandi að Putin hefur ekki viljað ræða við einn einansta af þeim miðlum sem Tilfallandi er í nöp við (lesist sem vestrænir miðlar). Þannig að TC er ekki hinn útvaldi, hvað sem Tilfallandi og kórnum hans kann að þykja. [Heimild: Tass, 7 feb 2024, https://tass.ru/politika/19920843] Hvað varðar útkomu úr svona viðtali er augljóslega fyrirséð, þó svo að sannarlega ég vildi sjá "alvöru" viðtal tekið við leiðtoga Tilfallandi, þar sem yrði spurt um miklvæg atriði og gengið eftir svörum en það verður ekki í þetta sinn. TC er skemmtilegur, það var Davíð Oddson eitt sinn, líka Spaugstofan. En það er liðin tíð.Ljóst er að TC er álitinn ómerkingur þegar kemur að fréttaflutningi, það liggur fyrir frá dómsölum vestra. En á meðan kórnum er skemmt og íhaldsömum gildum halið á lofti, þá gidlir einu hver spyr. Niðurstaðan hjá TC og Putin og skýringar Tilfallandi og kórsins eftirá liggja fyrir. Þarf ekki sérvalið popp og kalt gos með núna. Hitum bara upp gamlan margnota poppoka í örbylgjunni. Virkað hér áður.
Sigfús Ómar Höskuldsson, 7.2.2024 kl. 14:15
Mér er nokkuð sama um hvers vegna TC fær að taka viðtal við Pútín. Mér er mun umhugað um hvers vegna það er NÚNA!
Líklega er það í áróðurs skyni, til að ná að setja mannlegt útlit a Pútín, svo að hægt sé að semja um uppgjöf áður en Rússar gera stórsókn og vallta yfir NATO.
Upphaflegum kröfum Rússa verður tekið.
Skúli Jakobsson, 7.2.2024 kl. 18:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.