Helgi, Júlíus, maður og loftslag

Helgi Tómasson skrifaði grein í Morgunblaðið um tölfræðiblekkingar hamfarasinna í loftslagsmálum. Grein Helga fékk nokkra umræðu, sjá t.d. hér og hér. Í Morgunblaðinu í morgun skrifar Júlíus Sólnes og tekur undir með Helga og segist telja ,,hitamælingar í raun vera ónothæfan vitnisburð um hnattræna hlýnun."

Hitamælingar og stórkarlalegar ályktanir af þeim eru alfa og ómega loftslagskirkjunnar er boðar hamfarahlýnun af mannavöldum.

Júlíus hafnar tölfræðibrellum hamfarasinna. Tilgáta hans er að orkuójafnvægi orsaki loftslagsbreytingar. Jörðin er byggileg vegna sólarorkunnar. Án hennar væri jörðin svo gott sem líflaus pláneta. Júlíus skrifar

Til þess að loftslag á jörðinni haldist stöðugt, verðum við skila sömu orku til baka út í geiminn. Ef við skilum minni orku en við fáum frá sólinni, hleðst hún upp í jarðkerfinu, það hlýnar. Ef við skilum meiri orku til baka, kólnar. Þetta er einföld eðlisfræði.

Einföld eðlisfræði, já, en villandi framsetning. ,,Við", sem Júlíus talar um, breytum engu um sólina og orkuna sem frá henni kemur. Það eru náttúrulegir ferlar sem mennskur máttur ræður ekkert við og hefur aldrei gert. Hlýindi og kuldi skiptast á í jarðsögunni. Síðasta ísöld var í gær mælt á jarðsögulegum tíma eða fyrir 12 þúsund árum. Það er augnablik í 4,6 milljarða ára sögu kúlunnar sem hýsir okkur.

En þar sem Júlíus gerir manninn æðri náttúrunni kemur eftirfarandi ályktun út frá einfaldri eðlisfræði:

Þótt ekki sé hægt að nota hitamælingar sem vísbendingu, er hlýnun sjávar og orkuójafnvægið skýr vitnisburður um hnattræna hlýnun, sem ekki er hægt að skýra nema með auknu magni gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp jarðar.

Jú, Júlíus, það er einfalt að skýra hlýnun með náttúrulegum ferlum. Í jarðsögunni hlýnar og kólnar á víxl. Það er þekkt staðreynd. Önnur þekkt staðreynd er að við hlýnun hækkar koltvísýringur í andrúmsloftinu. Koltvísýringur er aðalfæða plantna sem taka kolefnið sér til vaxtar og viðurværis en skila frá sér súrefnisatómum. CO2, koltvísýringur, er eitt atóm kolefnis og tvö atóm súrefnis. Náttúrulegt efnasamband. Dauðar plöntur rotna og við það losnar kolefni út í andrúmsloftið á ný. Rotnandi plöntur losa sexfalt meira kolefni en öll mannleg starfsemi skilar frá sér. Náttúruleg hringrás. Einföld líffræði.

Einfaldasta skýringin á þráhyggjunni að maðurinn stjórni ferðinni i loftslagsmálum er að í menningu okkar vék guð almáttugur fyrir mannsdýrkun. Maðurinn er náttúruleg afurð, eins og loftslagið. Dýrategund æðri náttúrunni væri ábyggilega betur af guði gerð en raun ber vitni um mannskepnuna. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

ESB hefur ákveðið að banna akstur fornbíla innan fárra ára. Alþingi Íslendinga verður örugglega ekki lengi að samþykkja þá reglugerð í nafni "loftslagsmála og orkuskipta". Ruglið og vitleysan á sér engin takmörk.

Júlíus Valsson, 28.12.2023 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband