Helgi Seljan: Jói uppljóstrari fari ekki til Namibíu

Réttarhöld í Namibíu í Fishrot-málinu eru vegna tíu heimamanna sem ákærðir eru fyrir skatt- og umboðssvik vegna sölu á fiskveiðikvóta. RÚV og Heimildin, RSK-miðlar, staðhæfðu í Kveiks-þætti í nóvember 2019 að norðlenska útgerðin Samherji hefði með mútugjöfum keypt namibískan kvóta.

Eini maðurinn, sem heldur fram ásökunum um mútur, er Jóhannes Stefánsson uppljóstrari. RSK-miðlar gerðu Jóhannesarfrásögn að sinni. Engum öðrum heimildum er til að dreifa. Jóhannes rak útgerðina í Namibíu eins og einvaldur og hafði ítök í stjórnsýslunni í Afríkuríkinu, líkt og nýlega kom fram.

Í yfirstandandi dómsmáli í Namibíu er enginn Íslendingur á sakabekk, eingöngu heimamenn. Ekki er ákært fyrir mútur enda engar heimildir um slíka háttsemi. í mútumáli eru alltaf minnst tveir aðilar, einn mútar og annar þiggur.

Helgi Seljan fréttamaður var aðalmaðurinn á bakvið Kveiks-þáttinn á RÚV 2019. Í byrjun árs 2022 var hann fluttur yfir á Stundina, sem varð Heimildin ári síðar. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri taldi ekki óhætt að halda Helga á Efstaleiti eftir að byrlunar- og símastuldsmálið vatt upp á sig. Ekki er vitað hvort Helgi sé sakborningur lögreglu. Yfirmaður Helga á RÚV, Þóra Arnórsdóttir, varð einnig að víkja ári síðar af sömu ástæðu. Þóra hefur stöðu sakbornings.

Hvorki Þóra né Helgi, eða fjórir blaðamenn aðrir, allir á Heimildinni, sem eru sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu, hafa upplýst vitneskju sína um byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. En öll sex búa yfir upplýsingum sem gætu aðstoðað lögreglu að komast til botns í málinu. Öll sex eiga að heita fréttamenn, hvers aðalstarf er að upplýsa, gjarnan um það sem miður fer í samfélaginu - til dæmis lögbrot og siðleysið er felst í misnota andlega veika. 

Helgi Seljan, sem ekki verður sakaður um þráhyggju, ónei, þegir um byrlun- og símastuld en heldur áfram að klappa Kveiks-steininn frá 2019. Í nýjasta tölublaði Heimildarinnar, sem haldið er á floti með ríkisstyrkjum, skrifar Helgi heilsíðu um að íslenska ríkið beri ábyrgð á fölskum ásökunum RSK-miðla og verði að bæta Namibíumönnum meintan skaða. Nokkuð langsótt hjá ekki-þráhyggjumanninum, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Íslenska ríkið ber ekki ábyrgð á einkafyrirtækjum. Aftur ber ríkið ábyrgð, siðferðislega og fjárhagslega, á RÚV, sem er uppspretta fréttalyga er valdið hafa skaða, bæði heima og erlendis. Engin tilviljun að Stefán útvarpsstjóri tilkynnti nýverið starfslok.

Í heilsíðufabúleringum Helga er ekki minnst orði á Jóhannes uppljóstrara Stefánsson. Þögnin um einu heimildina fyrir ásökunum um að Samherji hafi aðhafst eitthvað misjafnt þar syðra segir þá sögu að Helgi vill ekki fyrir nokkurn mun að Jóhannes fari til Namibíu og vitni.

Framburður Jóhannesar hefur verið veginn á Íslandi og fundinn léttvægur af Skattinum og héraðssaksóknara. Engar ákærur á hér á landi, enda engin lögbrot. Á meðan Jóhannes fer ekki til Namibíu geta Helgi og RSK-miðlar skákað í því skjóli að namibísk yfirvöld hafi ekki formlega úrskurðað framburð uppljóstrarans þvætting. Útflutningur á frásögn Jóhannesar og RSK-miðla til Noregs misheppnaðist. Danskur almannatengill í vinnu hjá íslensku blaðamönnunum fékk birta grein í Innsikt-Aftenposten um ásakanir Jóhannesar og RSK-miðla. Eftir athugun baðst norska útgáfan margfaldlega afsökunar að hafa birt ósannindin.

Yfirvöld í Namibíu segja óbeint að þau vilji ekkert hafa með Jóhannes að gera. Hvorki er Jóhannes beðinn að koma til Namibíu að flytja fagnaðarerindið né er framsalskrafa gerð. Helgi og RSK-miðlar eru einu aðdáendur Jóhannesar uppljóstrara.

Sælt er sameiginlegt skipbrot.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

Kostar klof að ríða röftum..

Guðmundur Böðvarsson, 13.11.2023 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband