RÚV: heimskur heimskari

,,Rannsókn namibísku spillingarmálastofnunarinnar á meintum lögbrotum við úthlutun kvóta heldur áfram. Saksóknari segir að verið sé að afla gagna sem eru meðal forsendna þess að krefjast framsals á þremur Íslendingum sem tengjast Samherja."

Ofanritað er inngangur fréttar RÚV frá í gær. Höfundur er Brynjólfur Þór Guðmundsson fréttamaður.

Þrjú atriði í fréttinni stinga í stúf. Fyrsta varpar ljósi á þráhyggju RÚV, annað á lélega fagmennsku og þriðja á illgjarna fávisku sem tröllríður húsum Efstaleitis. 

Fyrsta atriðið er að namibíski saksóknarinn ásakar ekki lengur Samherjamenn um mútugreiðslur til að komast yfir kvóta. Nú eru á dagskrá skil á virðisaukaskatti, tapaðar skatttekjur. Þegar RÚV kynnti Namibíumálið, með alræmdum Kveiks-þætti í nóvember 2019, gekk það út á mútugreiðslur til namibískra embættismanna. RÚV nefnir ekki mútur en talar um ,,spillingu" þegar um er að ræða meint skattaundanskot. Brynjólfur Þór ætti að ræða við Sigríði Dögg samstarfskonu sína á fréttastofu sem þvertekur fyrir spillingu þótt sek sé um skattaundanskot. Skötuhjúin gætu komið sér saman um orðafræði skattsvika og spillingar.

Annað atriðið er að í frétt Namibian, sem Brynjólfur Þór vísar til, segir að Jóhannes Stefánsson uppljóstrari muni ekki mæta til Namibíu að vitna í réttarhöldum yfir fyrrum namibískum viðskiptafélögum. Undanskot á nafni Jóhannesar er fréttafölsun; hann er jú upphafsmaðurinn að Namibíumálinu. Stórfrétt ef hann mætir ekki. Hvers vegna er Jói ljóstrari ekki spurður? Týndi fréttastofa símanúmerinu hans? Má ekki hringja í Helga Seljan á Heimildinni og fá númerið? Rannsóknaritstjórinn er tæplega enn viti sínu fjær.

Þriðja atriðið kippir stoðunum undan allri frétt Brynjólfs Þórs á RÚV í gær um framsalskröfu namibíska saksóknarans á þremur Íslendingum. Fyrir tveimur árum birtist frétt um nákvæmlega sama mál undir fyrirsögninni: ,,Hafna beiðni frá Namibíu um framsal". Inngangur er svohljóðandi

Saksóknari í Namibíu vill fá þrjá Íslendinga framselda þangað svo hægt verði að birta þeim ákæru í Fishrot-málinu svokallaða. Erindinu hefur þegar verið hafnað enda framselja stjórnvöld íslenska ríkisborgara ekki til annarra landa. (undirstrikun pv)

Og hvar skyldi fréttin hafa birst? Jú, auðvitað á RÚV. Fyrir tveimur árum var sem sagt formlega hafnað að framselja þrjá Íslendinga til Namibíu. En RÚV-frétt Brynjólfs Þórs frá í gær gengur út á téða framsalskröfu. Voldug er fyrirsögnin, nánast BA-ritgerð.  ,,Namibía: Saksóknari vinnur enn að undirbúningi vegna framsalskröfu þriggja Íslendinga." En kröfunni var óvart hafnað fyrir tveim árum, - segir tveggja ára frétt RÚV.

Á fréttastofu RÚV er óopinber samkeppni: heimskur, heimskari, heimskastur. Framsalsfréttin í gær tryggði Brynjólfi Þór Guðmundssyni forystu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Já, kunnuglega hljómaði fréttin.

Ragnhildur Kolka, 9.11.2023 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband