Laugardagur, 23. september 2023
Ríkisvaldið gegn foreldrum
Börn eignast fjölskyldur með ólíkum hætti. Flest fæðast inn í fjölskyldu sína, eru afkvæmi foreldranna. Sum börn eru ættleidd; önnur verða til með tæknifrjóvgun; stundum eignast kona barn en líffræðilegur faðir er ekki pabbinn í fjölskyldunni.
Í þeim tilfellum þar sem börn eru ,,hinsegin" í þeim skilningi að vera ekki afkvæmi beggja foreldranna, sem barnið kallar mömmu og pabba, er einboðið að foreldrarnir ákveði sjálfir hvenær og undir hvaða kringumstæðum barnið fái vitneskju um hvernig í pottinn er búið.
Það er ekki ríkisvaldsins að setja reglur hvenær barn fær að vita uppruna sinn, heldur foreldranna. Ríkisvaldið á ekkert með að trufla heimilisfrið borgaranna og ákveða hvernig skuli staðið að málum í einkalífinu.
Íslenska ríkisvaldið hefur á hinn bóginn ákveðið að leikskólar og grunnskólar hafi eitthvað með það að gera af hvaða kyni barnið er. Inn í heim barnanna er lífsskoðunarsamtökum fullorðinna hleypt með þann boðskap að ekki séu allir fæddir í réttu kyni og að kynin séu jafnvel þrjú, fimm eða seytján. Skringilegar hugmyndir sem fullorðnir hafa fullt leyfi til stofna samtök um en eiga ekkert erindi í opinbera leik- og grunnskóla sem sveitarfélögin reka samkvæmt lögum.
Yfirstandandi umræða um aðild lífsskoðunarsamtaka, er kenna sig við ártal á síðustu öld, að uppeldi barna er tvíþætt.
Í fyrsta lagi að hve miklu leyti börnin eigi að verða fyrir innrætingu lífsskoðunarfélags um lífið og tilveruna.
Í öðru lagi hvenær og hvernig börn eigi að vera útsett fyrir hugtök með forskeytið kyn, s.s. kynlíf, kynvitund, kynami, kynsegin, kynhneigð, kyntjáning og fleiri orð af sama tæi.
Kennari, heimspekingur og lögmaður draga saman meginþætti gagnrýninnar.
Umræðan sýnir ríkisvaldið í stríði við siðgæðisvitund alls þorra almennings. Foreldrar vilja ekki innrætingu sérviskuhóps í leik- og grunnskólum. Þeir vilja heldur ekki að skólar helli texta og myndefni, sem margir telja klám, yfir börnin áður en þau eru kynþroska.
Ríkisvaldið verður að taka mið af sjónarmiðum foreldra og bjóða upp á samtal um hvernig fræðslu barna skuli háttað. Annars verður uppreisn.
Athugasemdir
Heyr heyr Páll.
Sigurður Kristján Hjaltested, 23.9.2023 kl. 14:34
Þú getur ekki farið út í búð og keypt tóbak eða í vínbúð og keypt áfengi fyrir ákveðinn aldur, þú færð ekki bílpróf fyrr en þú ert orðinn sautján ára, þú mátt ekki fara ein/n í sund fyrr en þú ert tíu ára, þú mátt ekki láta húðflúra þig fyrr en þú ert orðinn átján ára og þú mátt ekki kjósa hvorki til sveitastjórnar eða Alþingis fyrr en þú ert orðinn átján ára. En hvernig stendur á því að það má heilaþvo börn og limlesta þau löngu áður en þau verða kynþroska.
Við erum að horfa uppá eitt djöfullegasta athæfi í skólakerfi landsins og það allt á ábyrgð stjórnvalda, Alþingis og sveitarfélaga. Skömm sé þessu fólki sem lætur hafa sig út í þessa gjörninga.
Þakka þér Páll fyrir að standa vaktina og láta ekki beygja þig af óvönduðu fólki.
Tómas Ibsen Halldórsson, 23.9.2023 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.