Miðflokkurinn og AfD, fylgið eykst

Miðflokkurinn mældist undir fimm prósentum hjá Gallup um áramót; síðasta mæling gaf þeim tæp sjö prósent. Fylgið í ár fer ekki upp og niður heldur er tröppugangurinn jafn upp á við.

Allar fréttir um breytingu á fylgi íslenskra flokka síðustu mánuði snúast um stóraukið fylgi Samfylkingar. 

Vöxtur Miðflokksins, ekki mikill en samt vel mælanlegur og stöðugur, gæti orðið að stærri frétt þegar líður á árið.

Systurflokkur Miðflokksins í Þýskalandi er AfD, Valkostur fyrir Þýskaland. Báðir eru hægriflokkar og valkostir við stærri hefðbundna hægriflokka, Sjálfstæðisflokkinn á Íslandi og Kristilega demókrata í Þýskalandi.

Hægripólitík hefur á umliðnum árum verið hægfara vinstristefna, elt stjórnmálastefnu sem boðar meira ríkisvald og minna einstaklingsfrelsi. Tilbúinn ótti við heimsendi vegna hlýnunar eða veirufaraldurs er notaður til að berja almenning til undirgefni. Lagaboð að ofan um hvernig eigi að haga sér og hugsa valda vaxandi ókyrrð. 

AfD mælist með 19 prósent fylgi, jafnstór Jafnaðarmannaflokknum, SPD, systurflokki Samfylkingar. Kristilegir demókratar eru stöðugir undir þrjátíu prósentum.

Þeir sem greina ástæður lýðhylli AfD nefna andóf gegn grænni öfgahyggju, varhug við sístreymi flóttamanna og andmælum gegn takmörkunum á málfrelsi í nafni pólitísks rétttrúnaðar. Allt eru þetta mál til umræðu á Fróni. Miðflokkurinn hefur skýrari afstöðu en aðrir flokkar.

Seint verður sagt að íslensk og þýsk stjórnmál séu keimlík. Aftur háttar málum í nettengdum heimi þannig að skori stjórnmálafl stórt á einum stað er eins víst að það hafi áhrif á fjarlægari slóðum.

Svo er hitt, að útskýringar á stórauknu fylgi eins flokks eru alltaf ágiskanir. Það merkilega er að eina ágiskunin á margföldun fylgis Samfylkingar er Kristrún formaður. En þegar kemur að pólitík þarf formaður að tala um eitthvað annað en sjálfan sig.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er afar merkilegt að XD vinnur nú hörðum höndum f. Viðreisn og Samfó við að troða okkur inn í ESB, bakdyramegin, sbr. Bókun 35 við EES-samninginn sem færir endanlega löggjafarvaldið til Brussel. Kristrún er búin að átta sig á því að ESB-sinnarnir í forystu XD eru að vinna að innlimum Íslands í ESB fyrir hana svo hún getur einbeitt sér að öðrum málefnum, sem m.a. er að gera endanlega útaf við Sjálfstæðisflokkinn. Þar rætast draumar Jóhönnu og Ingibjargar. Nú eru flest heimili komin með "smartmæli" og tilbúin f. ESB-verð á raforkunni.

Júlíus Valsson, 5.6.2023 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband