Inga Sæland, verkó: síðustu hrunmótmælin

Bandalag Ragnars Þórs formanns VR og Flokks fólksins hennar Ingu Sæland gat af sér rúmlega hundrað manna mótmælafund á Austurvelli í gær. 

Þegar Inga Sæland boðaði mótmælin úr ræðustól alþingis í vikunni vísaði hún í mótmælin eftir hrunið 2008. Sennilega fara mótmælin í gær í sögubækurnar sem síðustu hrunmótmælin.

Eftir hrun var óopinbert slagorð hverskyns mótmæla ,,ónýta Ísland." Öllu íslensku var fundið flest til foráttu. Stjórnarskráin þótti ónýt, fullveldinu yrði best komið fyrir í Brussel. Inn í þetta hugarfar blandaðist vestræn tíska sjálfsfyrirlitningar. Íslenska útgáfan er að við séum komin af þrælahöldurum þar sem Ingólfur og Hjörleifur áttu þræla.  

Að það hafi tekið 15 ár að kveðja hrunið í pólitískum skilningi segir að atburðirnir haustið 2008 sátu töluvert lengi í þjóðarsálinni. Pólitísk óreiðan er minnisstæð, t.d. ris og fall vinstristjórnar Jóhönnu Sig., stofnun stjórnmálasamtaka eins og Borgaraflokksins, Viðreisnar, Pírata og Bjartrar framtíðar, Sósíalistaflokksins (áður heimfarahreyfing Íslendinga til Noregs). Ónefndur er Flokkur fólksins, einkaflokkur Ingu Sæland, rétt eins og Sósíalistaflokkurinn er einkaframtak Gunnars Smára. Samfélagsleg ókyrrð kallar fram furðufugla sem þykjast hafa lausn á öllu en vita þeim mun minna.

Verkalýðshreyfingin gliðnaði. Uppreisnarfólk eins og Sólveig Anna og Ragnar Þór bjuggu til verkó með tilheyrandi hávaða og látum að ekki sé sagt stjórnleysi.

,,... hagnaður hef­ur verið æv­in­týra­leg­ur en á meðan versna lífs­kjör hjá al­menn­ingi," segir Ragnar Þór á meðan hálf þjóðin er á Tenerife að sleikja sólina. Enda komu aðeins rúmlega hundrað manns á fund Ragnars Þórs og Ingu Sæland í gær. Allur almenningur nýtur lífsins á meðan lukkuriddarar eftirhrunsins bölsótast út í allt og alla. 

Pólitík eftirhrunsins er að baki. Framundan er barátta sem ekki snýst fyrst og fremst um efnahagsmál, vexti og verðbólgu. Að því gefnu, auðvitað, að hér verði ekki kollsteypa. Enn síður snýst verkefnið um að stjórnvöld gerir borgarana hamingjusama og útdeili gæðum, hvort heldur ölmusu eða ríkisborgararétti.  Baráttan verður um hvernig Ísland við viljum byggja. 

Frá 1994, með EES-samningnum, hefur Ísland alþjóðavæðst hraðar en nokkru sinni í sögunni. Bremsa var sett á alþjóðavæðinguna þegar ESB-umsókn Samfylkingar var lögð í skúffu 2012. En við erum enn í viðjum EES-samningsins og opinna landamæra. Vitræna lausn þarf á þeim vanda, sem hvorki skellir í lás né heldur áfram feigðarflani með opingáttarstefnu.

Stjórnmálaflokkar sem finna málamiðlun þarna á milli fá áheyrn.  


mbl.is „Ekki á minni vakt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hrunið hefur aldrei verið gert upp gagnvart heimilum landsins og nú á að taka snúning á þeim aftur. Af skrifum hér að ofan má ráða að höfundur telji ekkert athugavert við það og enga ástæðu til að mótmæla því.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.5.2023 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband