Úkraína: stutta stríðið lengist

Stríðinu lýkur fyrir áramót, sagði Selenskí forseti Úkraínu fyrir tæpu ári. Í dag heitir það að frekari aðstoð frá vesturlöndum er forsenda fyrir gagnsókn til að hrekja Rússa úr landi.

Selenskí er ekki einn um misreikning. Pútín Rússlandsforseti gerði ráð fyrir stuttu stríði er lyki annað tveggja með snöggum rússneskum sigri en til vara viðunandi friðarsamningum. Hvorugt gekk eftir.

Sígilt stef í stríðsfræðum er að einfalt sé að hefja stríð en flókið að ljúka þeim. Hernaður lýtur eigin lögmálum sem ekki eru fyrirséð í upphafi átaka.

Staðan á vígvelli Úkraínu er i stuttu máli að Rússar hafa frumkvæðið en ekki bolmagn til að knýja fram afgerandi sigur. Í marga mánuði er beðið eftir gagnsókn Úkraínuhers. Ekki bólar á henni. Aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu segir, líkt og Selenskí forseti, að landið þurfi fleiri vopn og nefnir sérstaklega langdrægar eldflaugar til að skjóta á birgðastöðvar Rússar.

Langdrægar eldflaugar myndu stigmagna átökin. Vesturlönd eru þar treg í taumi. Vitað er að Rússar eiga ýmsa mótleiki þyki þeim stöðu sinni ógnað. Til dæmis að ráðast á birgðastöðvar á landamærum Póllands og Úkraínu. Pólland er Nató-ríki. Vesturlöndum er þvert um geð að láta reyna á samtryggingu Nató - að árás á eitt Nató-ríki jafngildi árás á þau öll. Úkraínustríðið fellur jafnt og niður vinstældalistann í vestrinu. Almenningur er ekki ginnkeyptur fyrir málstaðnum. Rússar eru læsir á vestræna umræðu.

Á talandi stundu eru litlar líkur á friði í Úkraínu í bráð. Hvorugur stríðsaðila sýnir þreytumerki.

Eiginleiki stríða, skrifaði Michael Howard, eru að þau í senn búa til ríki og tortíma. Forystan í Kænugarði sem og í Kreml er sannfærð um þegar linnir átökum megi annað tveggja afskrifa Úkraínu eða Rússland. Menn þreytast seint þegar í húfi eru heilu þjóðríkin.

 


mbl.is Gagnsóknin engin silfurkúla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband