Fjárkúgun Aðalsteins: ein milljón, annars málssókn

Einn af sakborningunum í byrlunar- og símastuldsmálinu, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Heimildinni, áður Stundinni, krefur tilfallandi bloggara um eina milljón króna.

Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður skrifar kröfubréfið sem er dagsett 27. mars sl. Gefinn er tíu daga frestur á milljóninni og afsökunarbeiðni. Annars verður tilfallandi bloggara stefnt fyrir ærumeiðingar.

Aðalsteinn er þriðji sakborningurinn sem sækir að bloggara fyrir að fjalla um aðild blaðamanna að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Þórður Snær og Arnar Þór fengu bloggara dæmdan til að greiða sér 2,5 milljónir króna fyrir síðustu helgi. Eftir helgi skrifar lögmaður Aðalsteins og vill milljón. Þeir eru fundvísir á breiðu bökin, sakborningarnir.

Blaðamennirnir þrír vilja ekki að skrifað sé um aðild þeirra að ljótasta máli íslenskrar fjölmiðlasögu. Blaðamenn notfærðu sér andlega veika konu til að byrla og stela gögnum í byrjun maí fyrir tveim árum. Páll skipstjóri kærði verknaðinn til lögreglu 14. maí 2021.

Viku seinna birtu Aðalsteinn á Stundinni og Þórður Snær og Arnar Freyr á Kjarnanum samræmdar fréttir upp úr gögnum skipstjórans. Þeir vissu að fréttirnar voru fengnar með glæpsamlegu athæfi, byrlun og stuldi. ,,Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið," skrifuðu Þórður Snær og Arnar Þór en slepptu framhaldinu: andlega veik kona var fengin til verksins. Allir með snefil af sómakennd hefðu strax hætt umfjöllun og birtingu efnis og farið með vitneskju sína til lögreglu þegar ljóst var að alvarlegt lögbrot var framið. Blaðamenn RSK-miðla forhertust í þeim ásetningi að komast upp með glæp. 

Bloggari sagði fyrst frá rannsókn lögreglu 2. nóvember 2021. Tilfallandi taldi að málið yrði brotið til mergjar af fjölmiðlum landsins sem myndu freista þess að upplýsa sérkennilegt sakamál sem blaðamenn virtust eiga aðild að. En nei, þögnin ein réð ríkjum í heimi fjölmiðla á ísa köldu landi. Það er frétt þegar maður bítur hund en það er ekki frétt þegar blaðamenn eiga aðild að byrlun og stuldi. Blaðamennska skal veita siðlausum friðhelgi.

Rúmum tveim vikum síðar svöruðu Þórður Snær á Kjarnanum og Aðalsteinn á Stundinni með samræmdum hætti sama daginn - siðlausu tvílembingarnir þora ekki að standa einir, alltaf tveir eða fleiri saman. Siðlaus haltur leiðir blindan hrotta. Aðalsteinn skrifaði undir fyrirsögninni Svar við ásökun um glæp. Fyrirsögn Þórðar Snæs var Glæpir í höfði Páls Vilhjálmssonar. Víðóma verðlaunasiðleysið valdi bloggara hin verstu orð.

Væri bloggari lítill hræddur héri að fóta sig í opinberri umræðu hefði hann glúpnað og skriðið ofan í holu. Samræmd breiðsíða frá verðlaunablaðamönnum um að tilfallandi dómgreind væri álíka og Eddu Falak ylli lítt reyndum ónotum. En tilfallandi er eldri en tvævetra, hafði heimildir og vissi siðlausu blaðamennina ljúga eins og þeir eru langir til.

RSK-miðlar eru vanir að komast upp með lygi. Þeir stjórna umræðunni og ákveða hvað skal heita frétt og hvað ekki. Með dagskrárvaldið að vopni spígspora þeir um allar koppagrundir og úthluta sekt og sýknu; jarða mann og annan undir holskeflu samræmds fréttaflutnings.

Spurningin sem bloggari stóð frammi fyrir var þessi: á að láta drýldna ofstopamenn stjórna umræðunni? Miðaldra hvítur karlmaður hlaut að svara nei, eineltishrottarnir færast í aukana ef þeim er ekki veitt viðnám. Bloggskrif héldu áfram, fjölmiðlalömbin þögðu.

Rannsókn lögreglu leiddi til þess að fjórir blaðamenn, þremenningarnir og Þóra Arnórsdóttir á RÚV, fengu stöðu sakborninga 14. febrúar 2022. Þeir mættu ekki til yfirheyrslu fyrr en um haustið. Sakborningarnir sprikluðu í opinberri umræðu og töldu tjáningarfrelsið i hættu ef blaðamönnum yrði gert skylt að gefa skýrslu. Ást þeirra siðlausu á tjáningarfrelsinu er svo fölskvalaus að þeir stefna bloggara fyrir að tjá sig.

Miðstöð glæpsins gegn Páli skipstjóra var RúV, sem fyrrum lögreglustjóri, Stefán Eiríksson, stjórnar. Hvorki heyrðist hósti né stuna frá Glæpaleiti um innanhússrannsókn eða athugun á aðild fréttamanna að glæp. Nokkuð mannfall var þó tilkynnt. Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri lét sviplega af störfum haustið 2021, Helgi Seljan þá um áramótin og loks var sakborningnum Þóru Arnórsdóttur fleytt yfir á aðra ríkisstofnun, Landsvirkjun, í febrúar síðast liðinum. Ári eftir að hún fékk stöðu grunaðrar í glæparannsókn. 

Enn þegja fjölmiðlar. Heiðarleg undantekning er frétt Andrésar Magnússonar í Morgunblaðinu um fimmta sakborninginn, Inga Frey Vilhjálmsson, sem einkum er þekktur fyrir að vera helmingur dúósins bræður í glæpum.

Um nýliðin áramót var lögreglurannsóknin langt komin. Nýjar heimildir breyttu atburðarásinni. Þær heimildir gáfu til kynna að blaðamenn, einn eða fleiri, voru með í ráðum áður en Páli skipstjóra var byrlað 3. maí 2021. Áður bentu kringumstæðurök einkum til aðildar blaðamanna en nú komu til skjalanna handfastari gögn. Meðal þessara gagna eru sími sem notaður var til afritunar á síma Páls skipstjóra og símanúmer á þann síma, skráð á RÚV.

Hvorki hafa RSK-blaðamenn gert grein fyrir aðild sinni að málinu né hafa aðrir fjölmiðlar þýfgað starfsfélaga sína og krafist svara. Tilfallandi bloggari er svotil einn um að flytja fréttir af málinu.

RSK-blaðamenn stefna bloggara fyrir að flytja fréttir sem þeir að öðru leyti geta haldið frá almenningi. Það er mergurinn málsins. Meðvirkni með siðleysi einkennir fjölmiðlaþögnina.

Í kröfubréfi Aðalsteins eru kostirnir skýrir. Ein milljón og afsökunarbeiðni annars verður bloggara stefnt fyrir dóm. Blaðamenn kunnugir byrlun og þjófnaði víla auðvitað ekki fyrir sér fjárkúgun.  Milljón króna spurningin er hvort tilfallandi kaupi sig frá frekari vandræðum og éti orð sín í ofanálag. 

Kyngja og þegja. Svona eins og fjölmiðlar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Nú vantar bara Þóru og Inga Frey til að fullkomna slemmuna.

Ragnhildur Kolka, 1.4.2023 kl. 13:05

2 Smámynd: Guðmundur Böðvarsson

6 faldur í Lottóinu...

Guðmundur Böðvarsson, 1.4.2023 kl. 13:21

3 Smámynd: Jack Daniel's

Þér er ekki viðbjargandi og ættir að leita þér hjálpar.
Þú ert að saka fólk um glæpsamlega hluti sem engin fótur er fyrir nema í hausnum á þér og þrátt fyrir málfrelsi þá þarft þú að standa fyrir orðum þínum fyrir dómi þegar þú berð svona ásakanir á einstaklinga kæri þeir þig.

Jack Daniel's, 2.4.2023 kl. 07:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband