Miðvikudagur, 18. janúar 2023
3 metsöluhöfundar: er guð til?
Höfundarnir Tom Holland, Douglas Murray og Stephen Meyer eiga metsölubækur á ferlisskránni. Vel að merkja fyrir fræðibækur, ekki skáldskap. Þremenningarnir hittust í viðtalsþætti til að ræða spurninguna er guð til?
Guð er dauður, sagði Nietzsche fyrir 140 árum. Hvað eru menn að tala um uppreist æru drottins nær hálfri annarri öld síðar? Eru vísindin ekki búin að afgreiða málið?
Ástæða spurningar um tilvist almættisins er þríþætt. Tveir þættir eru vísindalegir en þriðji er menningarþáttur. Samkvæmt Meyer eru tvær meginstoðir vísinda um tilurð heimsins annars vegar og hins vegar um þróun lífs á jörðinni ekki eins traustar og af er látið. Meyer er ekki einn um þessa sannfæringu. Hann talar aftur hátt og skýrt á meðan aðrir muldra í hálfum hljóðum. Sá almáttugi hefur ekki verið í tísku um árabil og þeir sem orða tilvist hans þykja hjárænulegir í upplýstum selskap.
Stutta sagan er að miklihvellur, upphaf alheimsins, svarar ekki spurningunni hvað kom á undan. Hvellurinn hlýtur að verða til úr efni og orku, annars kemur andi (guð) til sögunnar. Að sama skapi riðar þróunarkenning Darwins til falls. Gögnin vantar um þróun frá einföldu lífi til flókins. Tölfræðigreining sýnir að stökkbreytingar á lífsformum, kjarni þróunarkenningarinnar, séu nær óhugsandi. Ef Darwin stenst ekki er nærtækt að tala um hönnun. Engin hönnun er án höfundar.
Vísindin um upphaf alheims og lífs á jörðu eru sérgrein Meyer, sem er menntaður í náttúruvísindum og sagnfræði, er vísindasagnfræðingur. Bókin hans, um guðstilgátuna, er rökrétt framhald af fyrri verkum þar sem viðurkennd vísindi voru rýnd í ljósi spurninga um upphaf. Vísindin, samkvæmt lestri Meyer, standa á gati.
Murray og Holland eru þaulreyndir handverksmenn á menningarakrinum, annar blaðamaður en hinn sagnfræðingur. Murray sérhæfir sig í samtímamálum en Holland er fornfræðingur með sérþekkingu á grískri og rómverskri sögu. Nýleg bók þess síðarnefnda, um áhrif kristni á vestræna sögu- og menningu, er að sumu leyti undanfari bókar Meyer. Í viðtalsþættinum segja tvímenningarnir, meira óbeint en beint, að menningin kalli á nýja undirstöðu, afstæðishyggjan hafi gengið sér til húðar. Sá þriðji, Meyer, játar kristni og telur undirstöðuna einboðna.
Er guð að rísa upp frá Nietzsche-dauða? Hvaða guð yrði það? Sá kristni? Ómögulegt að segja. Einhver ókyrrð er í djúpi umræðunnar sem kannski gerir meira en að gára yfirborðið.
Athugasemdir
Allt starf GUÐSPEKIFÉLAGA gengur út á að leysa þessa gátu í sínum félagsskap:
Nú skora ég á alla að skoða þessa heimasíðu alveg frá upphafi.
Það er stigvaxandi upplýsing uppávið:
www.vetrarbrautin.com
Jón Þórhallsson, 18.1.2023 kl. 11:58
Alltaf undrast flækjustigið i þessum málum sem margir bua til en þarf engra rannsókna við ...Ef guð væri ekki (Sama hvað hver kallar sinn almáttuga guð ) til væri við mannkynið það ekki heldur ..Guð er allt i okkur hvort sem aðrir nefna það vont eða gott .sem bara fer eftir þvi hvernig það kemur við viðkomandi ...ótrulegt hvað gáfnakveikurinn er stuttur i manninum ennþá ? En þess vegna loga trumál heitar en nokkuð annað en i dag .....
rhansen, 18.1.2023 kl. 14:00
Bandaríski eðlisfræðingurinn, Michio Kaku, tók eitt sinn þátt í umræðum þar sem tveir andstæðir hópar deildu um tilveru guðs, að sjálfsögðu án nokkurrar niðurstöðu.
Í lokaorðum sínum fullyrti Kaku að sams konar umræður gætu átt sér stað eftir hundrað ár, einnig án nokkurrar niðurstöðu.
Hörður Þormar, 18.1.2023 kl. 18:25
Nítsjé átti við að Húmanisminn væri búinn - eða væri - að stroka út alla frumspeki, og hann meinti það sem háð; það kæmi í kollinn á okkur, sem hefur ræst.
Guðjón E. Hreinberg, 19.1.2023 kl. 00:26
Þegar trúaðir menn eru beðnir um að sanna tilvist Guðs,
heyrist þeim að verið sé að biðja um vasaljós
svo hægt sé að finna sólina.
Baldur Gunnarsson, 19.1.2023 kl. 12:28
Getur maður sem keyrir um á fullkomnum bíl sagt; það er engin bílaverksmiðja.
Vísindamenn og hámenntaðir læknar segja og fullyrða, að dna í mannslíkamanum sé það merkilegt að uppbyggingu, að það hljóti einhver að hafa búið það til.
Þessi einhver er stundum kallaður, Jehova - Abba eða Lord Almighty.
Loncexter, 19.1.2023 kl. 17:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.