Laugardagur, 24. desember 2022
Helgun, alúð og farsæld
Nú er það gamalreynt tiltæki kátra stelpna í sjávarplássum, að útnefna helzt stönduga útgerðarmenn sem feður að börnum sínum tilfallandi...
Ofanritað er upphaf efnisgreinar í bók Stefáns Jónssonar fréttamanns, Mínir menn - vertíðarsaga. Bókin kom út fyrir sléttum sextíu árum og segir af vertíðarplássi með tilbúnu nafni, Vermannahöfn, sem gæti verið Þorlákshöfn.
Eins og gefur að skilja mótast frásögnin af tíðarandanum. Tilvitnunin hér að ofan væri óhugsandi í samtímatexta Þá er ekki átt við að feðrun barna er einföld mæling eins og Kári sonur Stefán gæti útlistað með erfðafræði.
Sumt er ekki háð duttlungum tímans, heldur sígilt. Stefán segir frá vertíð. Þar gildir að ná þeim gula sem mönnum eru mislagðar hendur við. Fiskni er innlifun þar sem náttúran og huldir heimar renna saman. Stefán segir frá heimilishaldi aflamanns. ,,Haft er eftir eiginkonu þjóðfrægrar aflakempu, að þá sjaldan að við ber að maður hennar komi heim í landlegu á vertíð, gæti hún þess vandlega að börnin yrði ekki á föður sinn umfram það, sem nauðsynlegt er." Ekkert mátti trufla íhygli fiskimannsins. Menn með fjárhagsáhyggjur eyðilögðu fyrir sér á miðunum, sá guli gefur sig ekki til þeirra sem láta truflast af veraldarvafstri.
Innlifun, sem sagt. Alger einbeiting að djúpinu sem hulið er mannsauganu. Á æskuslóðum mínum í Keflavík var sagt að aflaklær hugsuðu eins og þorskurinn. Það fór eftir hver mælti hvort umsögnin væri aðdáun eða fyrirlitning. Kraftfiskimenn voru þeir kallaðir sem bættu upp skort á innsæi með stífri sókn, jafnvel að þeir reru þegar aðrir kölluðu brælu og fóru ekki úr höfn.
En hvort heldur að aflasæld fékkst með næmum huga eða elju, oft fór það saman, er eitt að fiska en annað er farsæld.
Skipstjórar, hétu áður formenn, sem skiluðu áhöfninni heilli heim án þess að missa mann yfir vertíðir í áratugi voru farsælir.
Farsæld fæst ekki nema með alúð.
Gleðileg jól.
Athugasemdir
A tima lóðunartækninnar er víst í lagi að krakkagemlingarnir hangi í buxnaskálm pabba. Það er hins vegar spurning hvort textinn yrði eins góður og hjá Stefáni.
Gleðileg jól🎄
Ragnhildur Kolka, 25.12.2022 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.