Pólitísk kvótaúthlutun rót spillingar í Namibíu

Í ákæru saksóknara í Namibíu á hendur níu namibískum sakborningum vegna úthlutunar á veiðiheimildum (sjá færslu í gær) segir að rót spillingarinnar megi rekja til lagabreytinga árið 2015. Markmið laganna voru göfug en framkvæmdin spilling og glæpir.

Lagabreytingarnar voru gerðar að undirlagi Bernhardt Esau, sem var sjávarútvegsráðherra Namibíu allt frá árinu 2010 og fram að handtöku í desember 2019. Lagabreytingin var gerð í kjölfar dómsmáls sem suður-afrísk útgerð, Namsov, höfðaði og vann fyrir namibískum dómstól. Namsov var stærsta útlenda útgerðin í Namibíu og taldi úthlutun á veiðiheimildum á hrossamakríl ekki standast lög.

,,Dómsmálið hratt af stað atburðarás spillingar og afbrota, sem nú standa til ákæru," segir í ákæruskjali.

Lagabreytingarnar sem Esau og félagar beittu sér fyrir fólust í að sjávarútvegsráðuneytið fengi heimild til að úthluta kvóta til annarra en þeirra sem áttu veiðirétt lögum samkvæmt. Markmiðið var að stjórnvöld gætu nýtt tekjur af kvótasölu í þágu félagslegra aðgerða, s.s. bæta hag fátækra og þeirra sem verða fyrir búsifjum vegna þurrka.

Lögin voru opin og loðin. Þar sagði m.a. að stjórnvöld hefðu heimild að taka hluta heildarkvóta í þágu ,,félagslegra og menningarlegra markmiða."

Hrossamakríll er flökkustofn. Heildarkvóti Namibíu síðustu ár hefur verið um 300 þúsund tonn. Undirstofnun sjávarútvegsráðuneytisins þar í landi, Fishcor, fær til sín um 20-30% aflaheimilda. Fishcor varð miðstöð spillingar þar sem kvótar voru seldir en afraksturinn skilaði sér ekki allur í opinbera sjóði heldur fór hluti til Esau og félaga.

Fyrirkomulagið sem var tekið upp með lagabreytingum kom ekki í staðinn fyrir eldri aðferðir við kvótaúthlutun heldur var það viðbót - en hlutfallslegt magn til annarra kvótahafa minnkaði vegna kvótans sem fór til Fishcor.

Jóhannes Stefánsson, síðar uppljóstrari, hóf að kanna möguleika á að semja um veiðar fyrir Samherja árið 2011. Viðurkennt fyrirkomulag var að namibískir kvótaeigendur, sem einir máttu vera handhafar kvóta, höfðu með sér sameignarfélög, ,,joint venture" sem kölluðust jv-félög. Fyrir hönd Samherja gerði Jóhannes samninga um að veiða kvóta þriggja slíkra félaga: Yukor, Sinco og Epango. Eitt til tvö skip Samherja veiddu.

Jóhannes kynntist Esau sem var nýorðinn sjávarútvegsráðherra er Íslendinginn bar að garði þar syðra. Líklega hefur hvor lært af hinum hvernig heppilegast sé að stunda kvótaviðskipti sem uppfylla opinber skilyrði en skila a.m.k. hluta afraksturs í ,,réttar" hendur.

Jóhannes hélt í hendi sér öllum þráðum samskipta við jv-félögin. Hann fann til sín og taldi sig eiga í fullu tré við Namibíumenn en ekki síður við yfirstjórn Samherja á Íslandi.  Skömmu áður en Jóhannes var rekinn, sumarið 2016, sendi hann tölvupóst til íslensks lögmanns og sagðist vera ,,valdameiri en Þorsteinn Már [forstjóri Samherja] varðandi kvóta í Namibíu."

Valdavíma Jóhannesar blandaðist annarri sem bætti ekki dómgreindina. Hann missti fótanna í lifnaði sem ekki er kenndur við fermingardrengi og um leið álit samstarfsfélaga og vinnuveitenda. 

Hvorki Jóhannes né gögn frá honum koma við sögu í ákæruskjalinu gegn níu Namibíumönnum, Esau og félögum. Jóhannes hvarf af vettvangi sumarið 2016. Þremur árum síðar dúkkaði hann upp í Kveiks-þætti RSK-miðla með ásakanir um stórkostlega glæpi á sinni vakt 2011-2016. En engar ákærur hafa verið gefnar út á þeim grunni. Jóhannesarsaga um hlut Samherja var spunnin til heimabrúks á Glæpaleiti. Verðlaunablaðamenn þar á bæ, nú vitni og sakborningar í öðru glæpamáli, sáu sér leik á borði eftir að hafa farið halloka fyrir Samherja í seðlabankamálinu.

Alþjóðaútgáfan af Jóhannesarsögu snerist ekki um Samherja heldur namibísku embættismennina sem sæta ákæru. Alþjóðaútgáfan heitir Fishrot og Al Jazeera sá um að koma þeirri útgáfu á framfæri.

Í báðum tilvikum var Kristinn Hrafnsson maðurinn á bakvið tjöldin. Kristinn viðurkenndi að það þurfi að ,,matreiða og verka þessi mál" til að mæta mismunandi þörfum markhópa fyrir spillingu. Í þessu tilviki var sjúskuð heimild klædd í betri fötin og kynnt sem uppljóstrari. Markaðssetningin heppnaðist. Vinstrimenn keyptu fúskið á Íslandi og sáu hvíta arðræningja féfletta saklausa svarta. Málið horfði á annan veg þar syðra.

Í Namibíu var eftirspurn eftir spillingarumræðu. Ein fylking namibískra stjórnmálamann þurfti að koma annarri fyrir kattarnef. Namibía er eins flokks ríki þar sem  klíkur og ættir skipta með sér völdum innan ríkisflokksins SWAPO. Esau og félögum var stungið í steininn eftir uppljóstrun Al Jazeera. Þeir sitja þar enn ákærðir en ódæmdir og rotna á meðan aðrir sjá um bitlingana. Yfirstandandi dómsmál gegn þeim gæti tekið eitt ár en kannski þrjú eða fimm. Fer eftir pólitískum hentugleikum.

Pólitíska úthlutunarkerfið sem komið var á í Namibíu 2015, og er forsenda auðgunarbrota níumenningana, að sögn saksóknara, er enn við lýði. Það eru bara aðrir sem maka krókinn.

Pólitísk úthlutun fer enn fram á vegum Fishcor. Tunacor heitir samsteypa fyrirtækja sem fær mestar veiðiheimildir í hrossamakríl. Fyrrum skip Samherja, Heinaste, er í eigu Tunacor. Í frétt um hvernig samsteypan er byggð upp segir

Flest fyrirtækin undir merkjum Tunacor eru í eignarhaldi stjórnmálamanna eða tengdra aðila, vina, fjölskyldu og áhangenda.

Sjávarútvegsráðherra heitir núna Albert Kawana. Nýi ráðherrann er kominn á jötuna með sitt lið þar sem áður voru Esau og félagar. Allt annað er óbreytt. Pólitísk kvótaúthlutun er til að græða á henni. Hér í norðrinu græða menn aftur á pólitískum ofsóknum þar sem fjölmiðlar og vinstrimenn eru hvað afkastamestir.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Allt þetta gátu íslenskir blaða/fjölmiðlamenn vitað en kusu að lesa það á annan veg. Pólitísk heift voru gleraugun sem þeir notuðu. 

Ragnhildur Kolka, 14.12.2022 kl. 08:36

2 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Hér togast á hvort sé nær sannleikanum, a) að starfsmenn Samherja þori ekki að skipta um klósettrúllu án blessunar Þorsteins Más, b)að starfsmenn Samherja vaði yfir Þorstein Má á skítugum skónum.

Tryggvi L. Skjaldarson, 14.12.2022 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband