Þórður Snær og ólöglega heimildin

Þórður Snær ritstjóri Kjarnans skrifar leiðara á laugardag og segir m.a. þetta:

Vernd heim­ild­ar­manna hefur ekki verið styrkt meira en svo að lög­reglu þykir til­hlýði­legt að kalla blaða­menn til yfir­heyrslu til að reyna að kom­ast að því hverjir heim­ild­ar­menn þeirra séu, þrátt fyrir að það sé ólög­legt fyrir blaða­menn að gefa það upp.

Ritstjórinn vísar til lögreglurannsóknar á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Þórður Snær er sakborningur, ásamt þremur öðrum blaðamönnum RSK-miðla.

,,Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er," segir í greinargerð lögreglu, sem lögð var fyrir héraðsdóm í febrúar vegna kæru blaðamanns sem þverskallaðist við að mæta í yfirheyrslu, taldi sig hafinn yfir lög og rétt.

Allir sem fylgst hafa með byrlunarmálinu vita hver heimildarmaðurinn er. Andlega veik kona byrlaði Páli skipstjóra, stal síma hans og lét í hendur blaðamanna RSK-miðla. Þetta eru vel þekktar staðreyndir. Óupplýst er hvert var hlutverk einstakra blaðamanna og hvernig háttar til með aðdraganda og eftirmál. Það kemur væntanlega í ljós í ákæruskjali og réttarhöldum.

Ritstjórinn reynir að bregða leyndarhjúp yfir almælt tíðindi. Í níu mánuði, frá febrúar, er vitað hver sé heimildarmaður RSK-miðla en nú reynir reynir Þórður Snær að búa til leyndarmál, sem ,,ólöglegt" er að upplýsa. Sjálfsupphafningin er neyðarleg. Ritstjórinn þykist handhafi æðri sanninda og megi ekki með nokkru móti upplýsa efnisatriði sem þó eru alkunn.

Ritstjórinn þykist ekki vita að ólöglegt er að byrla, stela, stunda stafrænt kynferðisofbeldi, brjóta á friðhelgi einkalífs og misnota andlega veika einstaklinga. Það eru einmitt sakarefnin í lögreglurannsókninni. En það er aftur kristalstært í huga Þórðar Snæs að ólöglegt sé að gefa upp nafn heimildarmanns.

Ritstjóri sem gengur jafn langt í blekkingum og kann ekki skil á grunnatriðum sakamáls, þar sem hann sjálfur er sakborningur, auglýsir sjálfan sig sem liðónýtan blaðamann. Blaðamaður sem lifir í heimi ímyndunar er ekki í stakk búinn að segja frá atburðum í raunheimi.

Veruleikafirring verðlaunablaðamannsins er upplýsandi fyrir þá sem klóra sér í kollinum yfir vegferð RSK-miðla síðustu ár. Nærtæk skýring er að blaðamennirnir eru illa haldnir sjálfsblekkingu annars vegar og hins vegar með Messíasarkomplexa. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband