Kjör Kristrúnar vissi á sigur Bjarna

Bjarni Benediktsson fékk endurnýjað umboð til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í kjölfar pólskipta  Samfylkingar. Þegar Bjarni tók við flokknum var hann í sárum. Samfylkingin hafði skipað móðurflokknum að halda landsfund eftir hrun og samþykkja að gera ESB-aðild að stefnu sinni.

Sjálfstæðisflokkurinn hlýddi Samfylkingu eins og kratískur kjölturakki og hélt landsfund - en samþykkti ekki ESB-stefnu. Tækifærissinnar klufu sig úr flokknum og stofnuðu Viðreisn.  Hugmyndalegt forræði var hjá Samfylkingu eftir hrun. Borgaraleg stjórnmál hafa fengið uppreist æru í formannstíð Bjarna. Samfylking eltir Sjálfstæðisflokkinn, samanber kjör Kristrúnar í liðnum mánuði. Viðreisn einangrast sem ESB-klúbbur sérvitringa.

Núverandi ríkisstjórnarsamstarf hófst fyrir fimm árum með sögulegum sáttum Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna/Alþýðubandalags/Sósíalistaflokks. Bjarni leiddi samstarfið, sem hefur reynst farsælt og var besti kosturinn eftir viðvarandi stjórnarkreppu frá hruni. Samfylkingin reyndi að skapa sér stöðu til vinstri við Vinstri græna, undir formennsku Loga, en gafst upp í haust og Kristrún tók við keflinu. 

Það hefði verið stílbrot af sjálfstæðismönnum að skipta út Bjarna fyrir Guðlaug Þór. Gréturáðherrann er fulltrúi samræðustjórnmála sem er annað orð yfir að elta viðreisnarkrata út í fúamýri frjálslyndrar óreiðu.

Í framboðsræðu sagðist Bjarni láta sér annt um að skila góðri afkomu þjóðarbúsins, til að búa í haginn fyrir skattalækkun. Guðlaugur Þór talaði um samverupólitík, líkt og móðurflokkurinn væri saumaklúbbur. Guðlaugur Þór sagði í fyrirlitningartón að ekkert ytra starf væri í höndum flokksins, aðeins innra starf. En það er ytra starfið, í þágu almannahags, sem ræður úrslitum um brautargengi flokka.

Bjarni veit að Sjálfstæðisflokkurinn er verkfæri til að ná árangri, standa vörð um fullveldið og hamla vexti ríkisvaldsins til að einstaklingurinn megi njóta ávaxta erfiðisins. 

Guðlaugur Þór talaði um allskonar fyrir alla; það er orðavaðall vinstrimanna sem ávallt draga fjöður yfir þá staðreynd að einhver þarf að borga fyrir herlegheitin. Þyngstu skattbyrðina ber millistéttin. Þótt Bjarni verði seint sakaður um að vera millistéttarplebbi er hann ekki laus við skilning á hag launþeganna með breiðu bökin.

Ein stuðningsgrein Gulla þótti tilfallandi höfundi sérlega fyndin. Þar var Guðlaugi Þór talið til tekna að hafa efnast vel. Maðurinn er á ríkisframfæri alla starfsævi og orðinn sterkefnaður. Á ríkislaunum? Hér vantar eitthvað inn í frásögnina. Enginn opinber starfsmaður verður loðinn um lófana af launatekjum einum saman.

Eftir sigur Bjarna eru líkur á að stjórnfesta núverandi ríkisstjórnar haldi áfram. Það skiptir máli eftir pólitíska ólgu eftirhrunsins. Sjálfstæðismenn létu Bjarna njóta verka sinna. Það er vel.


mbl.is Fólki mokað á fundinn og þinggjöld þess greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband